Við hönnun fánans valdi Meltzer að nota kross eins og í danska og sænska fánanum, hinum norrænu fánum þessa tíma. Litirnir þrír, rauður, hvítur og blár, voru tákn frelsis og lýðræðis, sömu litir og í fánum landa eins og Frakklands, Hollands, Bretlands og Bandaríkjanna. Meltzer á ekki að hafa gefið aðra skýringu á litavali sínu en hins vegar hafa verið getgátur um það seinna meir að rauði feldurinn og hvíti krossinn séu vísun í danska fánann, sem um aldir var einnig fáni Noregs, en blái krossinn vísi til sænska fánans. Þó Norðmenn hafi ekki fengið sinn eigin þjóðfána fyrr en um aldamótin 1900 hafa um aldir verið notaðir ýmiss konar fánar í Noregi eins og sjá má með því að smella hér. Sem dæmi má nefna að frá því snemma á 14. öld (og líklega töluvert fyrr) notuðu Noregskonungar gjarnan rauðan fána með gylltu ljóni. Eftir 1500, þegar farið var að auðkenna skip með fánum síns heimalands, var sá fáni siglingafáni Noregs en á 17. og 18. öld dró smám saman úr notkun hans. Þessi fáni var hins vegar gerður að konungsfána (Kongeflagget) þeirra árið 1905 þegar Noregur fékk sjálfstæði frá Svíþjóð. Á meðan Noregur var undir Danmörku, frá 16. öld og til 1814 var danski fáninn jafnframt fáni Noregs. Á tímabilinu 1814-1821, eftir að Noregur komst undir Svíþjóð, var siglingafáni Norðmanna í norðurhöfum (norðan Cape Finisterre á Spáni) hvítur kross á rauðum feldi eins og danski fáninn, nema hvað ljónið gyllta var í efra horninu vinstra megin. Eftir að fáni Meltzers kom fram var hann notaður á sjóferðum í norðurhöfum til ársins 1844.
Á sama tíma, fyrri hluta 19. aldar, þurftu norskir sjófarendur í siglingum í suðurhöfum að tengja sig við Svíþjóð til verndar gegn sjóræningjum frá Norður-Afríku. Fyrst í stað notuðu þeir sænska fánann, gulan kross á bláum feldi, en 1818 kom breytt útgáfa þar sem efri hlutinn vinstra megin var rauður með hvítu x-i og var sá fáni notaður til 1844. Frá 1844 og þar til þeir fengu sinn opinbera þjóðfána sigldu norsk skip undir fána sem var eins og fáni Meltzers nema hvað í efra vinstra horninu var sambland af sænska fánanum bláa og gula og rauða, bláa og hvíta fánanum norska. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað táknar rauði liturinn í íslenska fánanum? eftir Gísla Gunnarsson
- Hvað merkja litirnir í fána Álendinga? eftir Alexander Haraldsson og EDS
- Hvað þýða litirnir í finnska fánanum? eftir Kristínu Magnúsdóttur og Jóhönnu Runólfsdóttur
- Hvað vitið þið um hinn óvenjulega svissneska fána? eftir Sigurð Kára Árnason
- Af hverju er nepalski fáninn ekki ferkantaður? eftir EDS
- Hvað þýða litirnir í þýska fánanum? eftir Evu Hrund Hlynsdóttur og Katrínu Arndísi Blomsterberg Magneudóttur
- Hvað tákna hringirnir í ólympíufánanum? eftir Hauk Má Helgason
- Hvað tákna stjörnurnar í fána Evrópusambandsins? eftir SHJ
- Flag of Norway á Wikipedia
- Norway, flag of á Encyclopædia Britannica Online
- Norway - Fact Sheet á Flags of the World
- Mynd af norska fánanum: Høgåsnytt
- Mynd af eldri fánum unnin upp úr: Flag of Norway á Wikipedia
Þetta svar er að hluta eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, röð námskeiða á vegum Háskóla Íslands fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2007 og að hluta eftir starfsmann Vísindavefsins.