Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig vitið þið um vísindamennina fyrir Krist?

Geir Þ. Þórarinsson

Spurningin er prýðileg og hana mætti jafnvel víkka út og spyrja hvernig við getum yfirleitt vitað nokkurn skapað hlut um hvað gerðist í fortíðinni. Veltum þeirri spurningu örlítið fyrir okkur áður en við snúum okkur að vísindamönnunum.

Um atburði í náinni fortíð er tiltölulega einfalt að afla sér upplýsinga, við getum til dæmis farið á bókasafn og flett í gömlum dagblöðum eða spurt afa og ömmu, sem eru af eldri kynslóð en við og muna tímana tvenna. Þetta getum við ekki gert þegar spurt er um atburði í fjarlægri fortíð, hvort sem það eru fyrstu aldir okkar tímatals eða aldirnar fyrir okkar tímatal. Við getum til dæmis ekki komið að máli við neinn, sem annaðhvort man þá tíma sjálfur eða þekkti einhvern annan sem þá var á dögum. Á hverju byggir þá þekking okkar á fornöldinni?

Þekking okkar á atburðum fornaldar byggir í raun á þremur ólíkum rannsóknarleiðum. Í fyrsta lagi eru til fornleifar, það er að segja áþreifanlegir hlutir sem hafa varðveist frá fornum tíma, svo sem húsarústir eða hlutir grafnir úr jörðu: vopn, listaverk, skartgripir, mynt og þar fram eftir götunum. Í öðru lagi hvílir svolítið af þekkingu okkar á samanburðarmálvísindum. Til að mynda byggir sú vitneskja okkar að Seifur var að uppruna indóevrópskur guð meðal annars á slíkum rannsóknum. Að lokum eru til ritaðar heimildir eftir forna höfunda, bæði sagnaritara og aðra, svo sem ræðuhöfunda, skáld, heimspekinga og vísindamenn. Heildarmynd okkar af fornöldinni byggjum við á öllum þessum rannsóknarleiðum: fornleifafræði, samanburðarmálvísindum og fornfræði.

Rituðu heimildirnar um fornöldina eru svolítið öðruvísi en dagblöðin á bókasafninu því að í fæstum tilvikum eru eintökin okkar frá tíma höfundanna sjálfra. Við höfum yfirleitt handrit, sem voru rituð mörgum öldum eftir að höfundarnir sjálfir voru á dögum. Handritin voru afrit af öðrum, eldri handritum sem voru sjálf afrit af öðrum, eldri handritum og svo framvegis en upprunaleg eintök frá höfundunum sjálfum eru ekki til. Þegar langur texti er afritaður með þessum hætti hvað eftir annað slæðast óhjákvæmilega inn villur. Þess vegna ber handritum ekki alltaf saman í smáatriðum um hvernig textinn á að vera og það er hlutverk textafræðinga að greiða úr því.


Handrit frá síðari hluta 13. aldar sem geymir nokkur verk eftir Aristóteles.

En til að bæta gráu ofan á svart eru textarnir okkar ekki alltaf varðveittir í heild sinni, heldur eru margir textar einungis varðveittir í brotum. Stundum vantar endinn á verkið, stundum vantar upphafið og stundum eru einungis varðveittar nokkrar línur og þá getur verið erfitt að átta sig á hvert samhengi orðanna var. Og svo eru ekki nærri því allir textar varðveittir, raunar einungis minni hluti af öllu því sem fornmenn skrifuðu. Í ákveðnum skilningi hafa þeir textar, sem við eigum varðveitta, verið valdir handa okkur því að í hvert sinn sem texti var afritaður valdi einhver að afrita þann texta frekar en einhvern annan texta (eða í stað þess að sleppa því alfarið að afrita texta) og jók þar með líkurnar á að afritaði textinn varðveittist. Valið endurspeglar vitaskuld gildismat þess sem valdi. En það getur verið tilviljanakennt hvað hefur varðveist. Þetta verðum við allt að hafa í huga.

Snúum okkur þá að vísindamönnunum. Þekking okkar á vísindamönnum fornaldar hvílir fyrst og fremst á rituðum heimildum en hvorki á samanburðarmálvísindum né fornleifum. En þá ber að hafa í huga að bæði getur það verið tilviljunum háð hvaða vísindamenn við vitum um og hvað við vitum um þá en jafnframt að það sem þó er varðveitt um og eftir forna vísindamenn hefur verið valið til afritunar og endurspeglar gildismat, áhuga og þarfir þess sem valdi að afrita þá þótt varðveislan sé einnig að einhverju marki háð tilviljunum.

Upphaf vísindanna í fornöld er samofið sögu heimspekinnar og margir af elstu vísindamönnunum voru ef til vill öðru fremur heimspekingar. Sem dæmi má nefna Aristóteles. Auk þess sem hann stundaði heimspeki eins og við þekkjum hana má segja að hann hafi fyrstur fengist við líffræði sem fræðigrein. Ýmis rit Aristótelesar eru varðveitt (líklega um fjórðungur þess sem hann samdi), þar á meðal ritin Rannsóknir á dýrum, Um hluta dýra, Um hreyfingu dýra, Um göngulag dýra og Um tilurð dýra. Þekking okkar á vísindastarfi hans, til dæmis í sjávarlíffræði, byggir því öðru fremur á lestri á hans eigin verkum. Sömu sögu er að segja um vísindastarf Þeófrastosar, nemanda og samstarfsmanns Aristótelesar.



Upphaf vísindanna í fornöld er samofið sögu heimspekinnar. Hér má sjá tvo áhrifamestu heimspekinga fornaldar: Platon (t.v.) og Aristóteles (t.h.). Myndin er hluti af málverkinu Aþenuskólinn (1510-11) eftir Rafael.

Það sama er að segja um Arkímedes, sem er ef til vill frægastur forngrískra vísindamanna. Ýmis rita hans um stærðfræði eru varðveitt á frummálinu (forngrísku) og í arabískum þýðingum. Sá sem vill fræðast um stærðfræði Arkímedesar getur því lesið hans eigin rit. Á hinn bóginn eru öll verk hans um stjörnufræði glötuð. En frægustu sögurnar um Arkímedes eru þó úr ritum annarra höfunda, svo sem Vitruviusar, Plútarkosar og Simplikkíosar.

Sú er einnig raunin um fjölmarga aðra höfunda eftir hverja engin rit eru varðveitt. Vitneskja okkar um þá byggir eingöngu á frásögnum annarra höfunda. Til dæmis er nánast ekkert varðveitt úr ritum Eratosþenesar, einungis örfáar beinar tilvitnanir en annars má rekja vitneskju okkar um störf hans til frásagna annarra. Eratosþenes er sennilega frægastur fyrir að hafa reiknað ummál jarðar af prýðilegri nákvæmni en frá því segir meðal annars í ritinu Náttúrurannsóknum (Naturalis Historia) eftir rómverska höfundinn Plinius eldri. Einnig mætti nefna Erasistratos sem var vísindamaður sem lagði stund á líffærafræði en rit hans eru ekki varðveitt í heilu lagi svo að þekking okkar á vísindastarfi hans byggir ekki síður á frásögnum annarra, til dæmis rómverska rithöfundarins Celsusar í riti sínu Um læknisfræði (De medicina). Erasistratos var annar tveggja vísindamanna fornaldar sem sagður var hafa stundað að kryfja lík. Hinn var Herófílos.

Í stuttu máli er vitneskja okkar um forna vísindamenn fengin úr rituðum heimildum, annaðhvort úr þeirra eigin ritum eða varðveittum brotum úr ritum þeirra; eða úr frásögnum annarra fornra höfunda. Í öllum tilvikum eru rituðu heimildirnar yfirleitt öðrum skiljanlegar vegna textafræðirannsókna, túlkana og þýðinga fornfræðinga.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

1.2.2011

Spyrjandi

Pétur Bjarni Einarsson, f. 2002

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig vitið þið um vísindamennina fyrir Krist?“ Vísindavefurinn, 1. febrúar 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58315.

Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 1. febrúar). Hvernig vitið þið um vísindamennina fyrir Krist? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58315

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig vitið þið um vísindamennina fyrir Krist?“ Vísindavefurinn. 1. feb. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58315>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig vitið þið um vísindamennina fyrir Krist?
Spurningin er prýðileg og hana mætti jafnvel víkka út og spyrja hvernig við getum yfirleitt vitað nokkurn skapað hlut um hvað gerðist í fortíðinni. Veltum þeirri spurningu örlítið fyrir okkur áður en við snúum okkur að vísindamönnunum.

Um atburði í náinni fortíð er tiltölulega einfalt að afla sér upplýsinga, við getum til dæmis farið á bókasafn og flett í gömlum dagblöðum eða spurt afa og ömmu, sem eru af eldri kynslóð en við og muna tímana tvenna. Þetta getum við ekki gert þegar spurt er um atburði í fjarlægri fortíð, hvort sem það eru fyrstu aldir okkar tímatals eða aldirnar fyrir okkar tímatal. Við getum til dæmis ekki komið að máli við neinn, sem annaðhvort man þá tíma sjálfur eða þekkti einhvern annan sem þá var á dögum. Á hverju byggir þá þekking okkar á fornöldinni?

Þekking okkar á atburðum fornaldar byggir í raun á þremur ólíkum rannsóknarleiðum. Í fyrsta lagi eru til fornleifar, það er að segja áþreifanlegir hlutir sem hafa varðveist frá fornum tíma, svo sem húsarústir eða hlutir grafnir úr jörðu: vopn, listaverk, skartgripir, mynt og þar fram eftir götunum. Í öðru lagi hvílir svolítið af þekkingu okkar á samanburðarmálvísindum. Til að mynda byggir sú vitneskja okkar að Seifur var að uppruna indóevrópskur guð meðal annars á slíkum rannsóknum. Að lokum eru til ritaðar heimildir eftir forna höfunda, bæði sagnaritara og aðra, svo sem ræðuhöfunda, skáld, heimspekinga og vísindamenn. Heildarmynd okkar af fornöldinni byggjum við á öllum þessum rannsóknarleiðum: fornleifafræði, samanburðarmálvísindum og fornfræði.

Rituðu heimildirnar um fornöldina eru svolítið öðruvísi en dagblöðin á bókasafninu því að í fæstum tilvikum eru eintökin okkar frá tíma höfundanna sjálfra. Við höfum yfirleitt handrit, sem voru rituð mörgum öldum eftir að höfundarnir sjálfir voru á dögum. Handritin voru afrit af öðrum, eldri handritum sem voru sjálf afrit af öðrum, eldri handritum og svo framvegis en upprunaleg eintök frá höfundunum sjálfum eru ekki til. Þegar langur texti er afritaður með þessum hætti hvað eftir annað slæðast óhjákvæmilega inn villur. Þess vegna ber handritum ekki alltaf saman í smáatriðum um hvernig textinn á að vera og það er hlutverk textafræðinga að greiða úr því.


Handrit frá síðari hluta 13. aldar sem geymir nokkur verk eftir Aristóteles.

En til að bæta gráu ofan á svart eru textarnir okkar ekki alltaf varðveittir í heild sinni, heldur eru margir textar einungis varðveittir í brotum. Stundum vantar endinn á verkið, stundum vantar upphafið og stundum eru einungis varðveittar nokkrar línur og þá getur verið erfitt að átta sig á hvert samhengi orðanna var. Og svo eru ekki nærri því allir textar varðveittir, raunar einungis minni hluti af öllu því sem fornmenn skrifuðu. Í ákveðnum skilningi hafa þeir textar, sem við eigum varðveitta, verið valdir handa okkur því að í hvert sinn sem texti var afritaður valdi einhver að afrita þann texta frekar en einhvern annan texta (eða í stað þess að sleppa því alfarið að afrita texta) og jók þar með líkurnar á að afritaði textinn varðveittist. Valið endurspeglar vitaskuld gildismat þess sem valdi. En það getur verið tilviljanakennt hvað hefur varðveist. Þetta verðum við allt að hafa í huga.

Snúum okkur þá að vísindamönnunum. Þekking okkar á vísindamönnum fornaldar hvílir fyrst og fremst á rituðum heimildum en hvorki á samanburðarmálvísindum né fornleifum. En þá ber að hafa í huga að bæði getur það verið tilviljunum háð hvaða vísindamenn við vitum um og hvað við vitum um þá en jafnframt að það sem þó er varðveitt um og eftir forna vísindamenn hefur verið valið til afritunar og endurspeglar gildismat, áhuga og þarfir þess sem valdi að afrita þá þótt varðveislan sé einnig að einhverju marki háð tilviljunum.

Upphaf vísindanna í fornöld er samofið sögu heimspekinnar og margir af elstu vísindamönnunum voru ef til vill öðru fremur heimspekingar. Sem dæmi má nefna Aristóteles. Auk þess sem hann stundaði heimspeki eins og við þekkjum hana má segja að hann hafi fyrstur fengist við líffræði sem fræðigrein. Ýmis rit Aristótelesar eru varðveitt (líklega um fjórðungur þess sem hann samdi), þar á meðal ritin Rannsóknir á dýrum, Um hluta dýra, Um hreyfingu dýra, Um göngulag dýra og Um tilurð dýra. Þekking okkar á vísindastarfi hans, til dæmis í sjávarlíffræði, byggir því öðru fremur á lestri á hans eigin verkum. Sömu sögu er að segja um vísindastarf Þeófrastosar, nemanda og samstarfsmanns Aristótelesar.



Upphaf vísindanna í fornöld er samofið sögu heimspekinnar. Hér má sjá tvo áhrifamestu heimspekinga fornaldar: Platon (t.v.) og Aristóteles (t.h.). Myndin er hluti af málverkinu Aþenuskólinn (1510-11) eftir Rafael.

Það sama er að segja um Arkímedes, sem er ef til vill frægastur forngrískra vísindamanna. Ýmis rita hans um stærðfræði eru varðveitt á frummálinu (forngrísku) og í arabískum þýðingum. Sá sem vill fræðast um stærðfræði Arkímedesar getur því lesið hans eigin rit. Á hinn bóginn eru öll verk hans um stjörnufræði glötuð. En frægustu sögurnar um Arkímedes eru þó úr ritum annarra höfunda, svo sem Vitruviusar, Plútarkosar og Simplikkíosar.

Sú er einnig raunin um fjölmarga aðra höfunda eftir hverja engin rit eru varðveitt. Vitneskja okkar um þá byggir eingöngu á frásögnum annarra höfunda. Til dæmis er nánast ekkert varðveitt úr ritum Eratosþenesar, einungis örfáar beinar tilvitnanir en annars má rekja vitneskju okkar um störf hans til frásagna annarra. Eratosþenes er sennilega frægastur fyrir að hafa reiknað ummál jarðar af prýðilegri nákvæmni en frá því segir meðal annars í ritinu Náttúrurannsóknum (Naturalis Historia) eftir rómverska höfundinn Plinius eldri. Einnig mætti nefna Erasistratos sem var vísindamaður sem lagði stund á líffærafræði en rit hans eru ekki varðveitt í heilu lagi svo að þekking okkar á vísindastarfi hans byggir ekki síður á frásögnum annarra, til dæmis rómverska rithöfundarins Celsusar í riti sínu Um læknisfræði (De medicina). Erasistratos var annar tveggja vísindamanna fornaldar sem sagður var hafa stundað að kryfja lík. Hinn var Herófílos.

Í stuttu máli er vitneskja okkar um forna vísindamenn fengin úr rituðum heimildum, annaðhvort úr þeirra eigin ritum eða varðveittum brotum úr ritum þeirra; eða úr frásögnum annarra fornra höfunda. Í öllum tilvikum eru rituðu heimildirnar yfirleitt öðrum skiljanlegar vegna textafræðirannsókna, túlkana og þýðinga fornfræðinga.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir: