Sá þáttur sem hefur mest áhrif á seyti ÞTH er osmósuþéttni (e. osmolarity) blóðvökvans sem er í raun saltstyrkur hans. Sérstakir osmónemar í undirstúku heilans fylgjast með osmósuþéttni blóðs og örva seyti ÞTH-myndandi taugunganna. Þegar osmósuþéttni blóðs er undir tilteknum þröskuldi eru nemarnir ekki áreittir og seyti ÞTH er hindrað. Þegar osmósuþéttni hækkar upp fyrir þröskuldinn áreitast osmónemarnir og örva seyti ÞTH og í kjölfarið heldur líkaminn í vatnið og dregur úr þvagmyndun. Þorsti helst í hendur við seyti ÞTH. Svo virðist sem hann sé einnig örvaður af osmónemum í undirstúku en þröskuldurinn fyrir hann er hærri en fyrir seyti ÞTH og kemur ekki til sögunnar nema að seyti ÞTH dugi ekki til við að halda osmósuþéttni í skefjum. Aðrir þættir sem hafa áhrif a osmósuþéttni eru blóðþrýstingur en ef hann eða rúmmál blóðs lækkar áreitast þannemar í hjartanu og stóru slagæðunum og örva seyti ÞTH. Enn fremur örva uppköst og niðurgangur seyti ÞTH, en stöðvar sem stjórna þeim eru nátengdar undirstúku. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hefur saltneysla (NaCl) innan skynsamlegra marka slæm áhrif á heilsuna? eftir Björn Sigurð Gunnarsson.
- Er dagleg vatnsdrykkja umfram tvo lítra holl? eftir Björn Sigurð Gunnarsson.
- Hvað gerist ef við drekkum ekki vökva? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur.
- Hvað er osmósa? eftir Ágúst Kvaran.