Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Bæði heilaköngull og heiladingull eru innkirtlar og framleiða því hormón.
Heilaköngull (e. pineal gland, lat. epiphysis) er lítið líffæri, um 1 cm á lengd, sem er í laginu eins og furuköngull. Það er staðsett rétt fyrir ofan miðheilann og fyrir framan litla heilann. Hlutverk heilaköngulsins er að mynda og seyta hormóninu melatóníni. Melatónín hefur áhrif á svokallaðan líftakt (e. biological rhythm) dýra, það er reglubundnar lífeðlisfræðilegar sveiflur. Þannig hefur hormónið meðal annars áhrif á það hvenær sum dýr eru tilbúin til æxlunar og hvenær einstaklingar vissra tegunda leggjast í vetrardvala.
Líkaminn virðist nota upplýsingar um birtustig bæði sem mælingu á tíma dags og tíma árs, en næturnar eru lengri á veturna. Þegar ljós fellur á sjónu augans berast boð frá henni til tiltekinna kjarna í undirstúku heilans. Þessi boð berast að lokum til heilakönguls og virðast stjórna seytingu melatóníns þar. Melatóníni er sem sagt ekki seytt þegar bjart er heldur aðeins í myrkri og magn þess í blóði er í beinu hlutfalli við lengd nætur. Það er því ekki að undra að melatónín er stundum kallað myrkurhormón.
Það er vel staðfest að melatónín hefur áhrif á ársveiflur (e. seasonal rhythm), svo sem fengitíma tiltekinna dýrategunda. Nýlegar rannsóknir benda til þess að hormónið hafi líka áhrif á dægursveiflur (e. circadian rhythm), svo sem vöku og svefn. Áhrif melatóníns á æxlun dýra eru í stuttu máli þau að það hindrar seyti kynstýrihormóna frá heiladingli, líklega með því að hindra seyti losunarhormóns kynstýrihormóna frá undirstúku. Með því að gefa dýrum melatónín má framkalla fengitíma oftar en einu sinni á ári.
Myndin sýnir þversnið af mannsheila. Horft er á heilann á hlið, og er fremsti hluti heilans sýndur til vinstri á mynd en aftasti hlutinn til hægri.
Melatónín er líklega ekki bráðnauðsynlegt þegar kemur að stjórnun eðlilegra svefnmynstra en hefur þó án efa einhver áhrif. Nokkur áhugi hefur verið síðustu árin á notkun melatóníns, ýmist einu sér eða með ljósmeðferð, til að meðhöndla svefnleysi. Ýmislegt bendir til að aldraðir sem þjást af svefnleysi hafi minna af melatóníni í blóðinu en þeir sem sofa vel og að melatónín gagnist þeim til að sofa betur. Sömuleiðis virðist melatónín hjálpa blindu fólki að sofa betur, en blint fólk getur að öllu jöfnu ekki nýtt sér birtustig til þess að stjórna líkamsklukkunni.
Svefntruflanir eru einnig algengar meðal þeirra sem vinna vaktavinnu, einkum þegar þeir eru á næturvöktum. Ljósmeðferð virðist bæta ástand þessara einstaklinga meira en melatónín. Flugþreyta (e. jet lag) háir fólki sem ferðast með þotum milli tímabelta. Þá samræmist dægursveifla viðkomandi ekki staðartíma. Melatónín hefur gagnast vel flugþreyttu fólki ef það er tekið inn í kringum háttatíma á komustaðnum, sér í lagi þegar flogið er í gegnum mörg tímabelti.
Melatónínseyti hefur enn fremur verið sett í samband við skammdegisþunglyndi. Ljósmeðferð hefur verið notuð til að stemma stigu við þessu með góðum árangri. Þá eru sérstakir ljósskjáir settir upp sem fólk horfir á í vissan tíma á degi hverjum. Þetta örvar niðurbrot melatóníns og eykur enn fremur myndun serótóníns sem vinnur gegn þunglyndi.
Heiladingullinn (e. pituitary gland) er einnig lítið líffæri á stærð við baun í miðjum heila beint undir undirstúkunni. Hann hefur stundum verið kallaður yfirinnkirtill líkamans og stafar það af því að hann framleiðir og seytir hvorki meira né minna en sjö hormónum, þar af fjórum stýrihormónum. Hormónin sjö eru vaxtarhormón (e. growth hormone), mjólkurhormón (e. prolactin), hríðahormón (e. oxytocin), eggbússtýrihormón (e. follicle-stimulating hormone), gulbússtýrihormón (e. luteinizing hormone) og stýrihormón skjaldkirtils (e. thyroid-stimulating hormone) og nýrnahettubarkar (e. adrenocorticotropic hormone). Nánar er fjallað um heiladingul og hormón hans í ýmsum öðrum svörum á Vísindavefnum, svo sem þessum:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver eru hlutverk heilakönguls og heiladinguls?“ Vísindavefurinn, 8. desember 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6427.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2006, 8. desember). Hver eru hlutverk heilakönguls og heiladinguls? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6427
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver eru hlutverk heilakönguls og heiladinguls?“ Vísindavefurinn. 8. des. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6427>.