Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Smyrillinn (Falco columbarius), sem hefur einnig verið kallaður dvergfálki eða litli skratti, er ránfugl líkt og fálki eða valur og haförn (Haliaeetus albicilla). Smyrillinn er af ætt fálka og af sömu ættkvísl og fálkinn (Falco rusticoulos). Hann er minnstur allra fálka, aðeins 165 til 295 grömm að þyngd og 29-33 cm á lengd, en kvenfuglinn er stærri en karlfuglinn.
Smyrillinn verpir í norðanverðri Evrópu en leitar suður á bóginn á haustin. Vetrarheimkynni hans ná frá Skáni og Danmörku allt suður að ströndum Miðjarðarhafs. Íslenskir smyrlar sem yfirgefa landið á haustin fara til Bretlandseyja og Írlands og snúa aftur til varpstöðvanna seinni partinn í apríl. Utan Evrópu verpir smyrillinn í norðurhluta Norður-Ameríku.
Útbreiðsla smyrils
(Falco columbarius) í Evrópu. Guli liturinn sýnir varpsvæði hans, græni liturinn sýnir þau svæði þar sem hann er allt árið og blái liturinn þau svæði þar sem hann heldur til utan varptíma (á veturna).
Í Norður-Ameríku greinist smyrillinn í 4 deilitegundir en í Evrópu eru deilitegundirnar 7. Aðeins ein deilitegund smyrla verpir hér á landi, Falco columbaris subaesalon, og eru þeir bæði stærri og dekkri en aðrir evrópskir smyrlar.
Varpstofn smyrilsins hér á landi er talsvert stærri en hjá hinum ránfuglategundunum tveimur. Smyrillinn verpir um allt land og er fjöldi varppara sennilega einhvers staðar á bilinu 1000 til 2000. Hann er að mestu leyti farfugl en brot af varpstofninum heldur þó til hér á landi yfir veturinn. Hann heldur sig þá venjulega í eða nærri þéttbýli þar sem hann lifir aðallega á smáfuglum sem sækja í bæi yfir kaldasta hluta ársins.
Smyrillinn velur sér aðallega varpsvæði nærri heiðum, í mólendi og á graslendi. Hér á landi verpir hann yfirleitt á grónum syllum í klettum, hömrum eða sprungum. Í Skandinavíu og Norður-Ameríku verpir hann einnig í grenitrjám, á steppum og í eyðimörkum.
Átthaga- og hjúskapartryggð er rík hjá smyrlinum líkt og hjá flestum öðrum ránfuglum. Þegar kemur að æxlun snemma á vorin mætir karlfuglinn í óðalið á undan kvenfuglinum. Á varptímanum eru smyrlar afar árásargjarnir og má oft sjá þessa smáu fugla fara óhikað á móti miklu stærri fuglum eins og fálkum, hröfnum og mávum til að hrekja þá á brott frá óðalinu.
Hreiðurgerð smyrilsins er einföld, aðeins grunn hreiðurskál á jörðinni. Eggin eru 4-6 og kemur það mest í hlut kvenfuglsins að liggja á þeim. Karlinn liggur þó eitthvað á en hann sér þó aðallega um veiðar. Þegar ungarnir hafa stálpast nokkuð taka hins vegar báðir foreldrarnir þátt í að veiða ofan í þá. Smyrillinn verpir síðar á vorin en bæði aðrir ránfuglar og hrafninn (Corvus corax). Fuglafræðingar telja að hann sé með því að stilla varp sitt eftir öðrum fuglategundum og tryggja þannig að ætið sé sem mest. Þannig eru ungar þúfutittlings að komast á legg og ungar vaðfugla að brölta úr eggjum um það leyti sem ungar smyrilsins skríða úr eggi. Fæðuframboð fyrir nýklakta unga smyrilsins er því með þessu móti ágætt.
Smyrill í Skógræktinni í Fossvogi.
Útungun tekur 25-32 daga og verða ungarnir fleygir 25-30 daga gamlir. Fyrstu vikurnar halda þeir sig nærri hreiðrinu en fara suður á bóginn til vetrarstöðvanna með foreldrum sínum þegar þeir hafa náð nægjanlegum þroska.
Á Íslandi lifir smyrillinn nær eingöngu á smáfuglum svo sem skógarþröstum (Turdus iliacus), sólskríkjum (snjótittlingum) (Plectrophenax nivalis) og ýmsum tegundum mófugla, til dæmis heiðlóu (Pluvialis apricaria). Það getur verið mikið sjónarspil að fylgjast með smyrli elta bráð sína því flughæfni hans á sér vart sinn líkan meðal fugla hér á landi.
Fæðuval smyrla annars staðar getur verið mun fjölbreyttara. Til að mynda sýndi rannsókn sem gerð var á fæðuvali smyrils í austurhluta í Kanada að um 80% af fæðu hans voru fuglar, lítil spendýr voru 5% og skordýr, aðallega drekaflugur, voru 15%. Víða annars staðar er ekki óalgengt að smyrlar éti froskdýr, eðlur og jafnvel smávaxnar slöngutegundir.
Þó smyrillinn sé ekki algengur telst hann ekki vera í útrýmingarhættu. Breski stofninn er sennilega svipaður að stærð og sá íslenski því stofnstærðarmat sem gert var fyrir nokkrum árum sýndi að 1.300 pör verpa á Bretlandseyjum. Heildarstofnstærð evrópska smyrilsins á Íslandi, Bretlandi og Skandinavíu er á bilinu 10-17 þúsund pör, en stofnstærðin í Rússlandi, Síberíu og austur úr er óþekkt.
Smyrillinn hefur ekki orðið fyrir jafn miklum ágangi og aðrir afræningjar hér á landi svo sem örn, hrafn og mávur. Hann hefur þó orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna eitrunar á vetrarstöðvum, aðallega af völdum skordýraeiturs svo sem PCB. Rannsókn sem gerð var í kringum 1990 sýndi að eggjaskurn smyrils hafði þynnst verulega, en slíkt bendir til PCB eitrunar. Höfundi er ekki kunnugt um hvernig þau mál hafa þróast síðan.
Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
Jón Már Halldórsson. „Gæti ég fengið að vita allt um smyrilinn?“ Vísindavefurinn, 12. janúar 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5559.
Jón Már Halldórsson. (2006, 12. janúar). Gæti ég fengið að vita allt um smyrilinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5559
Jón Már Halldórsson. „Gæti ég fengið að vita allt um smyrilinn?“ Vísindavefurinn. 12. jan. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5559>.