Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Haförninn (Haliaeetus albicilla) er einn þriggja ránfugla sem verpir hér á landi, hinar tveir eru smyrillinn (Falco columbarius) og fálkinn (Falco rusticolus). Haförninn er í senn sjaldgæfasti og langstærsti ránfuglinn í íslensku fuglafánunni, vænghaf hans getur orðið rúmir tveir metrar og fuglarnir vega allt frá 4 til 7 kg. Haförninn var í mikilli útrýmingarhættu alla síðustu öld en 1913 ákvað Alþingi að vernda hann með lögum og hefur hann verið verndaður allar götur síðan.
Haförn (Haliaeetus albicilla).
Örninn er mjög átthagabundinn og er umráðasvæði hans, sem oftast er kallað óðal, mjög viðáttumikið. Arnarhjón dveljast meira og minna allt árið um kring í eða í nánd við óðalið enda getur samkeppni um góð óðöl valdið illdeilum milli arna. Þeir eru þó lausastir við í október fram í desember en eftir áramót fer tilhugalífið að byrja á nýjan leik. Tilhugalíf arnanna hefst með tilkomumikilli fluglistarsýningu arnarhjónanna snemma á vorin en á eftir fylgir mökun og varp. Slíkir loftfimleikar eru einnig algeng sjón hjá öðrum ránfuglum og hröfnum, en borgarbúar geta notið slíks háttalags snemma á vorin hjá hröfnum sem halda til í Reykjavík.
Arnarhreiðrið er ekki mjög merkileg smíð miðað við hreiður margra annarra fuglategunda -- aðeins grunn lautarskál með litlu aðfluttu efni. Kvenfuglinn verpir oftast þremur eggjum í hverju varpi en mjög sjaldgæft er að þrír ungar komist á legg. Það hefur þó gerst einstaka sinnum í mjög góðu árferði. Langalgengast er þó að aðeins einn ungi komist á legg úr hverju varpi í meðalárferði. Ástæða þess er sú að stærri og sterkari unginn étur aðra unga út á gaddinn ef ekki er nægileg fæða í boði. Einnig þekkist það að stærri unginn hreki litla systkinið sitt úr hreiðrinu af sömu ástæðu. Hin harða lífsbarátta getur því byrjað strax á meðal arna, en slíkt atferli er mjög algengt á meðal dýra.
Útungunartíminn er að meðaltali um 38 dagar. Á þeim tíma fara báðir foreldranir til veiða en oft kemur þó fyrir að karlfuglinn færi kvenfuglinum bráð í hreiðrið meðan kvenfuglinn liggur á eggjunum. Eftir klak annast báðir foreldrarnir ungana en fyrstu vikurnar víkur kvenfuglinn varla frá þeim og sér karlfuglinn þá einvörðungu um fæðuöflun. Þegar karlfuglinn kemur í hreiðrið með bráð tekur kvenfuglinn strax við henni og tilreiðir hana fyrir ungana en karlfuglinn snýr sér strax aftur að veiðiskapnum enda eru arnarungar óvenju þurftarfrekir fyrstu vikurnar og vaxa hratt á þessu tímabili.
Þegar ungarnir eru orðnir 4-5 vikna gamlir eru þeir farnir að geta unnið betur á matnum sínum og kvenfuglinn er farin að skilja þá meira eftir eina í hreiðrinu meðan hún stundar veiðar með karli sínum. Þegar ungarnir eru orðnir 8 vikna gamlir fara þeir að fara úr hreiðri og hírast þá í nánd við það, oft daglangt. Þeir verða fleygir á 11.-12. viku og fylgja þá oft foreldrum sínum á flugferðum þeirra um veiðilendurnar. Foreldrarnir halda þó áfram að afla ungunum ætis og fara þá með það nálægt hreiðrinu þar sem ungarnir rífa það í sig.
Rannsóknir hafa sýnt að helsta fæða arna hér á landi er æðarfugl, fýll, máfur og hrognkelsi. Örninn leggst einnig í talsverðum mæli á hræ og er því einnig hræfugl.
Síðasta stigið í þroska ungfuglanna er að neyta fæðunnar þar sem bráðin veiðist, oftast langt frá hreiðurstæðinu. Þá eru þeir orðnir nokkuð sjálfstæðir og styttist í það að þeir yfirgefi foreldra sína að hausti og hefji lífsbaráttuna einir síns liðs. Mikil vanhöld verða á ungörnunum á fyrsta vetri sínum vegna hungurs. Þeir eru þó duglegir við að leggjast á hræ til að bjarga sér og dreifast því víða um landið. Tiltölulega algengt er að sjá til ungra arna á stöðum þar sem varpernir halda ekki til eins og á Suðurlandi. Árlega sést til arna í Hvalfirði og undanfarin ár hafa ernir sést í Kollafirði og einnig við Sogið í Árnessýslu og nú nýlega sást ungörn á Reyðarfirði.
Talið er að haförninn verði ekki kynþroska fyrr en á 6. ári en þá finnur hann sér maka til æviloka. Hér við land eru eyjar og hólmar algengustu hreiðurstæðin. Fræðimenn telja að áður en hin mikla herför var háð gegn tilvist arnarins hafi hann verið algengari í hömrum við strönd landsins en hann var mun berskjaldaðri þar.
Nú verpir haförninn einungis á vestanverðu landinu og er hann algengastur við Breiðafjörð en einnig verpa nokkur pör við norðanverðan Faxaflóa. Varpútbreiðsla hans var mun meiri á 19. öld áður en herför æðarræktenda gegn örnum hófst á síðari hluta 19. aldar. Dæmi eru um að ernir hafi orpið í Hvalfirði í upphafi 20. aldar og einnig var arnarvarp í Úlfarsfelli við Mosfellsbæ. Svo virðist sem arnarstofninn sé smátt og smátt að rétta úr kútnum og er líklegt að hann fari að nema að nýju sín gömlu lönd þaðan sem hann var hrakinn fyrir mörgum áratugum.
Frá því að Fuglaverndarfélag Íslands var stofnað árið 1963 hefur verndun hafarnarins verið aðalbaráttumál félagsins og svo er enn. Vandlega er fylgst með framgangi arnarstofnsins frá ári til árs. Hann stækkaði ekki mikið framan af 20. öldinni eftir að hann var friðaður. Fuglafræðingar telja að eitur sem var borið í hræ til að halda refum og vargfuglum niðri sé aðalástæða þess. Örninn lenti mjög illa í þessari eiturherferð á fyrri hluta síðustu aldar. Dæmi eru um að þrjú arnarhræ hafi fundist við eitrað rolluhræ. Eftir að notkun strýkníns var bönnuð hér á landi tók arnarstofninn við sér og hefur verið nokkur stöðugur síðustu áratugi. Undanfarin þrjú ár hafa óvenju margir arnarungar komist á legg miðað við árin á undan eða 22-28 ungar árlega.
Fuglafræðingar telja að 42 pör séu nú hér á landi og er heildarfjöldinn talinn vera um 150 fuglar að hausti. Til þess að varpárangur verði góður þarf veðurfar að vera hagstætt fyrir örninn, sérstaklega í apríl og maí. Landeigendur þurfa einnig að sýna erninum tillitsemi en því miður virðist hafa borið á því að menn hafi visvítandi spillt fyrir erninum á undanförnum áratugum sem veldur því að varpárangur hefur verið afar slakur á sumum svæðum ár eftir ár. Það virðist því sem hið rótgróna arnarhatur meðal æðarræktarbænda sé enn við lýði.
Ljósmyndirnar eru úr bókinni Fuglar Íslands eftir Hjálmar R. Bárðasona en voru fengnar af heimasíðu Jóhannesar Aðalbjörnssonar um ránfugla með góðfúslegu leyfi hans.
Jón Már Halldórsson. „Hvernig lifir haförninn á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 10. apríl 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2283.
Jón Már Halldórsson. (2002, 10. apríl). Hvernig lifir haförninn á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2283
Jón Már Halldórsson. „Hvernig lifir haförninn á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 10. apr. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2283>.