Magn þrávirkra lífrænna efna í íslensku vistkerfi hefur talsvert verið rannsakað. Til dæmis var magn þeirra skoðað í fálkum og nokkrum tegundum sem fálkinn veiðir sér til matar eins og rjúpu, lóu og nokkrum andartegundum. Það vakti óhug að magn þrávirkra efna í íslenska fálkanum greindist nokkuð hærra en í sambærilegum tegundum erlendis. Einnig kom í ljós að beint samband var á milli aldurs fálkanna og magns PCB og DDT. Með öðrum orðum, þessi efni safnast upp í líkama fuglanna meðan þeir lifa. Slík þróun getur leitt til minni viðkomu fálkans og að lokum til útdauða. Vísindamenn þurfa því að fylgjast grannt með þessari þróun. Í æðarfugli mælist 10-100 sinnum minna magn þrávirkra efna en í fálkanum enda er hann í næsta þrepi fyrir neðan fálkann í fæðukeðjunni. Helsta fæða æðarfuglsins eru ýmis lagardýr eins og kræklingur. Rjúpan mældist hins vegar með margfalt minna magn (0,0004 mg/kg) en fálkinn (0,1-232 mg/kg) enda sýna rannsóknir að fæða rjúpunnar er að mestu laus við þrávirk lífræn efni. Þekktasta þrávirka lífræna efnið er sennilega skordýraeitrið DDT en fjölmörg önnur skordýraeitur hafa sömu virkni í vistkerfinu. Þegar DDT kom á markaðinn laust fyrir miðja 20. öldina reyndist einkar notadrjúgt gegn skordýraplágum í landbúnaði og útbreiðslu sjúkdóma sem berast með skordýrum eins og til dæmis malaríu. Það var svissneski efnafræðingurinn Paul Hermann Müller sem uppgötvaði DDT og fékk hann Nóbelsverðlaunin fyrir þá uppgötvun sína árið 1948. Sennilega er bókin Raddir vorsins þagna eftir Rachel Carson eitt merkasta og umdeildasta rit um umhverismál síðustu aldar. Þar vakti hún athygli á þeim fjölþættu neikvæðu áhrifum sem DDT hefði á vistkerfið, ekki aðeins moskítóflugur heldur líka mörg hryggdýr eins og fugla sem drápust umvörpum á svæðum sem voru eitruð með DDT. Bókin er umdeild fyrir margra hluta sakir og ýmsir menn í iðnaði víða um heim hafa hallmælt henni og sagt bókina fulla af rangfærslum. En rannsóknir og breytingar sem urðu á vistkerfum, sérstaklega á fuglalífi, staðfestu hin neikvæðu áhrif sem Carson hélt fram í bókinni. Svo fór að notkun DDT var að lokum bönnuð í Bandaríkjunum árið 1972 og fylgdu margar aðrar þjóðir í kjölfarið. Andstæðingar bannsins bentu á að í kjölfar notkunar á DDT í þróunarríkjum hafi tíðni dauðsfalla vegna malaríu hrunið en eftir að bann var samþykkt hafi tíðnin margfaldast á ný. Margir úr þessum röðum hafa haldið því fram að DDT hafi bjargað hálfum milljarði manna frá dauða og kenna umhverfisverndarmönnum um mestu þjóðernishreinsanir í sögu mannkyns! Erfitt er að ímynda sér hver áhrifin hefðu orðið fyrir vistkerfi jarðar ef notkun DDT hefði haldist óheft. Því bera orð þessara manna vott um skammsýni enda er nú talið að tilvist þrávirkra lífrænna efna í vistkerfi jarðar sé einn alvarlegasti umhverfisvandi heimsins. Skoðið einnig svar sama höfundar við spurningunni Hver eru skaðleg áhrif skordýraeitursins DDT? Helstur heimildir:
- BBC Online Network
- Hollustuvernd ríkisins
- Ólafsdóttir K, Petersen Æ, Thórdardóttir S, and Jóhannesson T (1995). „Organochlorine residues in Gyrfalcons (Falco rusticolus) in Iceland.“ Bull Environ Contam Toxicology.