Minkar eru greindari en frettur, skunkar, kettir og sumir prímatar og þeir aðlaga sig aðstæðum mjög vel. Ef aðkomuminkar sem ekki þekkja til aðstæðna komast inn í hænsnakofa eða æðarvörp þá geta þeir valdið miklum skaða á stuttum tíma. Rannsóknir hafa aftur á móti sýnt að staðbundnir minkar sem þekkja til aðstæðna eru líklegri til að nýta sér fæðuauðlindir án þess að valda miklum usla. Þekkt eru dæmi um minka sem hafa komið sér fyrir undir hænsnakofum og tekið bara eina og eina hænu í einu. Minkalæða verður að vera búin að safna matarforða í greni sitt áður en kemur að goti því hvolparnir fæðast hárlausir og hjálparvana. Ef læðan bregður sér á veiðar er hætta á að þeir drepist úr kulda á meðan. Það er því góð ástæða fyrir því að minkalæður stundi afrán umfram þarfir á vorin. Þær eru einungis að reyna að halda lífi í hvolpunum sínum. Kynmök minka virðast ofbeldisfull þar sem steggurinn bítur í hnakka læðunnar. Þetta hefur þróast á löngum tíma og er kallað örvað egglos en án þessa atferlis verður ekki egglos í læðunni. Yfirleitt eru bæði kyn örmagna eftir mökunina sem getur tekið klukkustund eða meira og karldýrin reyna að makast við sem flest kvendýr. Ofbeldisfullt mökunaratferli í líkingu við þetta er þekkt víða í dýraríkinu og hefur að líkindum þróast til að hámarka æxlunarárangur hjá báðum kynjum, það er að þau eignist sem flest og sterkust afkvæmi. Heimildir:
- Doty, Barbara A., C. Neal Jones og Larry A. Doty (1967). Learning-Set Formation by Mink, Ferrets, Skunks, and Cats. Science 155(3769): 1579-1580.
- Dunstone, N. 1993. The mink. T & AD Poyser Ltd. London.
- Jennifer L. Maupin og Susan E. Riechert, 2001. Superfluous killing in spiders: a consequence of adaptation to food-limited environments? Behavioral Ecology Vol. 12 No. 5: 569-576.
- Wikipedia - surplus killing.
- Tests for superfluous killing in five species of webbuilding spiders. Skýrsla um rannsókn gerð af Jennifer L. Maupin 1997.
- Wikipedia. Sótt 4. 7. 2011.