Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um skunka?

Jón Már Halldórsson

Skunkar nefnast einnig þefdýr. Til skunka teljast tólf tegundir sem flokkast í fjórar ættkvíslir innan ættarinnar Mephitidae. Tíu af þeim tólf tegundum sem þekktar eru lifa í Norður- og Suður-Ameríku, en tvær tegundir, sem tilheyra ættkvíslinni Mydaus, finnast á eyjum Indónesíu og á Filippseyjum.

Hér verður aðallega fjallað um lífshætti og einkenni rákaskunksins (Mephitis mephitis), sem er sennilega þekktasti fulltrúi skunka enda talsvert áberandi og með mikla útbreiðslu um bæði Bandaríkin og Kanada.

Skunkar eru mest á ferli að næturlagi en á daginn halda þeir til í holum sem þeir grafa með sterkum framfótunum. Einnig er algengt að þeir komi sér fyrir í manngerðu skjóli eða því sem býðst hverju sinni. Bælin eru frekar ósnyrtileg og í inngangsopinu safnast oft saman skítur og daunill lykt. Þetta er ein helsta ástæða þess að þeir eru ekki vinsælir í grennd við mannabústaði og þurfa meindýraeyðar oft að hafa afskipti af þeim.



Rákaskunkur er einn þekktasti fulltrúi þefdýra.

Rannsóknir á óðalshegðun rákaskunka hafa leitt margt athyglisvert í ljós. Skunkar helga sér óðöl eins og svo mörg rándýr, en ólíkt flestum öðrum rándýrum fara þeir óðöl annarra skunka eftir ákveðnum stígum að veiðisvæðum. Þessir þjóðvegir eru vel lyktarmerktir og halda skunkarni sig mjög nákvæmlega við þessar leiðir. Karldýrin eru reyndar mun minna umburðarlynd gagnvart ferðum annarra karldýra nærri sínum landareignum en gagnvart kvendýrum.

Lyktar- og þefskyn skunka er afburðagott eins og algengt er meðal næturdýra sem yfirleitt hafa frekar slæma sjón. Skunkar treysta því einkum á þefskynið en rannsóknir hafa sýnt að þeir geta vart séð lengra en þrjá metra frá sér. Rákaskunkar eru jafnframt stirðir til gangs og frekar hægfara.

Skunkar eru alætur og éta nánast allt sem að kjafti kemur. Á matseðli þeirra getur verið allt frá fuglum og skriðdýrum til ávaxta og matarúrgangs. Rannsóknir á fæðuháttum rákaskunka í Michiganfylki í Bandaríkjunum hafa sýnt að skordýr eru allt að 70% af fæðu þeirra.

Þessi sveigjanleiki í fæðuvali er talin vera ein helsta ástæða þess að skunkar hafa víða náð fótfestu í borgum og bæjum. Þeir þykja yfirleitt mikil meindýr en geta þó reynst gagnlegir við að halda rottum og öðrum nagdýrum í skefjum.

Þekktasta einkenni skunka er vafalaust lyktin sem þeir gefa frá sér. Henni hefur verið lýst sem samblandi af rotnandi eggjum, hvítlauk og brenndu gúmmíi. Þetta ógeðfellda efnasamband kemur úr tveimur kirtlum sem staðsettir eru sitt hvoru megin við endaþarminn og er hluti af varnarviðbrögðum skunka til að fæla frá óvini. Þessi varnaraðferð er afar árangursrík því mörg af öflugustu rándýrum Norður-Ameríku flýja undan þessum "efnahernaði" til dæmis brúnbirnir (Ursus arctos) og úlfar (Canis lupus). Skunkar geta úðað þessu efni allt að 5 metra frá sér og með talsverðri nákvæmni. Þeir fara þó sparlega með efnið, þar sem í kirtlunum rúmast aðeins um 15 rúmsentimetrar af efninu og dugir það til að sprauta efninu fjórum til sex sinnum. Það tekur svo um það bil tíu daga að framleiða sama magn að nýju.



Allir skunkar gefa frá sér illa þefjandi efni þegar þeim er ógnað.

Efnasambandið er ekkert sérlega hættulegt en getur valdið vægum sviða ef það lendir beint á húð. Það getur hins vegar verið afar erfitt að hreinsa efnið, og þar með lyktina, alveg úr fatnaði.

Talið er að hinn áberandi svarti og hvíti feldur skunka gegni sambærilegu hlutverki og skærir litir eitraðra skriðdýra og froskdýra. Það er að vara óvini við því að viðkomandi dýr er "eitrað" og beri að forðast.

Vegna þessa árangursríka efnavopns skunksins verður hann sjaldan fyrir barðinu á stórum rándýrum. Undantekningin er þó stórhyrnda uglan (Bubo virginianus) sem veiðir oft skunka, en uglur hafa nánast ekkert lyktarskyn og því dugar ólyktin ekki á hana.

Sú tegund skunka sem skyldust er rákaskunkinum er hettuskunkur (Mephitis macroura). Óvön augu sjá afar lítinn mun á þessum tegundum og eru þær oft taldar vera sama tegundin. Útbreiðsla hettuskunksins er þó nokkru sunnar en rákaskunksins og er hann jafnframt stærri með hlutfallslegra minna skott.

Flikruskunkur.

Af öðrum tegundum skunka má nefna flikruskunkinn (Spilogatle putorius) sem er talsvert minni en aðrir skunkar og þekkist á því að hvítt randamunstrið á síðunum liggur í óreglulegum sveipum. Útbreiðsla hans er bundin við vesturhluta Norður-Ameríku, allt frá Bresku-Kólumbíu suður um Kalifórníu og allt suður til Mexíkó. Flikruskunkurinn er mun líflegri og fjörugri en aðrar tegundir skunka og hann á auðvelt með að klifra upp í tré. Hann sýnir jafnframt mjög sérstaka hegðun þegar honum er ógnað, en þá stendur hann gjarnan á framfótunum og teygir afturfæturna og skottið beint upp í loft líkt og maður sem stendur á höndum. Talið er að þetta geri hann til að sýnast stærri en hann er og ógna þannig óvini sínum. Dugi þetta hins vegar ekki til gerir hann eins og aðrir skunkar að snúa afturendanum að andstæðingnum og sprauta á hann daunillu efninu.

Heimildir:
  • Darwin, C. 1859. On the Origin of Species by Means of Natural Selection. Íslensk þýðing, 2002.
  • Lariviere S, Messier F. Denning. 1998. Ecology of the Striped Skunk in the Canadian Prairies: Implications for Waterfowl Nest Predation. Journal of Applied Ecology:. 35:2, bls.207-213.
  • Nowak, Ronald M. 1983. Walker's Mammals of the World. The Johns Hopkins University Press, Baltimore, Maryland.
  • Verts, B.J. 1967. The Biology of the Striped Skunk. The University of Illinois Press, Urbana, Illinois.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

8.11.2007

Síðast uppfært

10.2.2022

Spyrjandi

Jón Sigtryggsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um skunka?“ Vísindavefurinn, 8. nóvember 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6894.

Jón Már Halldórsson. (2007, 8. nóvember). Hvað getið þið sagt mér um skunka? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6894

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um skunka?“ Vísindavefurinn. 8. nóv. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6894>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um skunka?
Skunkar nefnast einnig þefdýr. Til skunka teljast tólf tegundir sem flokkast í fjórar ættkvíslir innan ættarinnar Mephitidae. Tíu af þeim tólf tegundum sem þekktar eru lifa í Norður- og Suður-Ameríku, en tvær tegundir, sem tilheyra ættkvíslinni Mydaus, finnast á eyjum Indónesíu og á Filippseyjum.

Hér verður aðallega fjallað um lífshætti og einkenni rákaskunksins (Mephitis mephitis), sem er sennilega þekktasti fulltrúi skunka enda talsvert áberandi og með mikla útbreiðslu um bæði Bandaríkin og Kanada.

Skunkar eru mest á ferli að næturlagi en á daginn halda þeir til í holum sem þeir grafa með sterkum framfótunum. Einnig er algengt að þeir komi sér fyrir í manngerðu skjóli eða því sem býðst hverju sinni. Bælin eru frekar ósnyrtileg og í inngangsopinu safnast oft saman skítur og daunill lykt. Þetta er ein helsta ástæða þess að þeir eru ekki vinsælir í grennd við mannabústaði og þurfa meindýraeyðar oft að hafa afskipti af þeim.



Rákaskunkur er einn þekktasti fulltrúi þefdýra.

Rannsóknir á óðalshegðun rákaskunka hafa leitt margt athyglisvert í ljós. Skunkar helga sér óðöl eins og svo mörg rándýr, en ólíkt flestum öðrum rándýrum fara þeir óðöl annarra skunka eftir ákveðnum stígum að veiðisvæðum. Þessir þjóðvegir eru vel lyktarmerktir og halda skunkarni sig mjög nákvæmlega við þessar leiðir. Karldýrin eru reyndar mun minna umburðarlynd gagnvart ferðum annarra karldýra nærri sínum landareignum en gagnvart kvendýrum.

Lyktar- og þefskyn skunka er afburðagott eins og algengt er meðal næturdýra sem yfirleitt hafa frekar slæma sjón. Skunkar treysta því einkum á þefskynið en rannsóknir hafa sýnt að þeir geta vart séð lengra en þrjá metra frá sér. Rákaskunkar eru jafnframt stirðir til gangs og frekar hægfara.

Skunkar eru alætur og éta nánast allt sem að kjafti kemur. Á matseðli þeirra getur verið allt frá fuglum og skriðdýrum til ávaxta og matarúrgangs. Rannsóknir á fæðuháttum rákaskunka í Michiganfylki í Bandaríkjunum hafa sýnt að skordýr eru allt að 70% af fæðu þeirra.

Þessi sveigjanleiki í fæðuvali er talin vera ein helsta ástæða þess að skunkar hafa víða náð fótfestu í borgum og bæjum. Þeir þykja yfirleitt mikil meindýr en geta þó reynst gagnlegir við að halda rottum og öðrum nagdýrum í skefjum.

Þekktasta einkenni skunka er vafalaust lyktin sem þeir gefa frá sér. Henni hefur verið lýst sem samblandi af rotnandi eggjum, hvítlauk og brenndu gúmmíi. Þetta ógeðfellda efnasamband kemur úr tveimur kirtlum sem staðsettir eru sitt hvoru megin við endaþarminn og er hluti af varnarviðbrögðum skunka til að fæla frá óvini. Þessi varnaraðferð er afar árangursrík því mörg af öflugustu rándýrum Norður-Ameríku flýja undan þessum "efnahernaði" til dæmis brúnbirnir (Ursus arctos) og úlfar (Canis lupus). Skunkar geta úðað þessu efni allt að 5 metra frá sér og með talsverðri nákvæmni. Þeir fara þó sparlega með efnið, þar sem í kirtlunum rúmast aðeins um 15 rúmsentimetrar af efninu og dugir það til að sprauta efninu fjórum til sex sinnum. Það tekur svo um það bil tíu daga að framleiða sama magn að nýju.



Allir skunkar gefa frá sér illa þefjandi efni þegar þeim er ógnað.

Efnasambandið er ekkert sérlega hættulegt en getur valdið vægum sviða ef það lendir beint á húð. Það getur hins vegar verið afar erfitt að hreinsa efnið, og þar með lyktina, alveg úr fatnaði.

Talið er að hinn áberandi svarti og hvíti feldur skunka gegni sambærilegu hlutverki og skærir litir eitraðra skriðdýra og froskdýra. Það er að vara óvini við því að viðkomandi dýr er "eitrað" og beri að forðast.

Vegna þessa árangursríka efnavopns skunksins verður hann sjaldan fyrir barðinu á stórum rándýrum. Undantekningin er þó stórhyrnda uglan (Bubo virginianus) sem veiðir oft skunka, en uglur hafa nánast ekkert lyktarskyn og því dugar ólyktin ekki á hana.

Sú tegund skunka sem skyldust er rákaskunkinum er hettuskunkur (Mephitis macroura). Óvön augu sjá afar lítinn mun á þessum tegundum og eru þær oft taldar vera sama tegundin. Útbreiðsla hettuskunksins er þó nokkru sunnar en rákaskunksins og er hann jafnframt stærri með hlutfallslegra minna skott.

Flikruskunkur.

Af öðrum tegundum skunka má nefna flikruskunkinn (Spilogatle putorius) sem er talsvert minni en aðrir skunkar og þekkist á því að hvítt randamunstrið á síðunum liggur í óreglulegum sveipum. Útbreiðsla hans er bundin við vesturhluta Norður-Ameríku, allt frá Bresku-Kólumbíu suður um Kalifórníu og allt suður til Mexíkó. Flikruskunkurinn er mun líflegri og fjörugri en aðrar tegundir skunka og hann á auðvelt með að klifra upp í tré. Hann sýnir jafnframt mjög sérstaka hegðun þegar honum er ógnað, en þá stendur hann gjarnan á framfótunum og teygir afturfæturna og skottið beint upp í loft líkt og maður sem stendur á höndum. Talið er að þetta geri hann til að sýnast stærri en hann er og ógna þannig óvini sínum. Dugi þetta hins vegar ekki til gerir hann eins og aðrir skunkar að snúa afturendanum að andstæðingnum og sprauta á hann daunillu efninu.

Heimildir:
  • Darwin, C. 1859. On the Origin of Species by Means of Natural Selection. Íslensk þýðing, 2002.
  • Lariviere S, Messier F. Denning. 1998. Ecology of the Striped Skunk in the Canadian Prairies: Implications for Waterfowl Nest Predation. Journal of Applied Ecology:. 35:2, bls.207-213.
  • Nowak, Ronald M. 1983. Walker's Mammals of the World. The Johns Hopkins University Press, Baltimore, Maryland.
  • Verts, B.J. 1967. The Biology of the Striped Skunk. The University of Illinois Press, Urbana, Illinois.
...