Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær fóru Íslendingar að borða af diskum?

Ágústa Edwald Maxwell

Upprunalega spurningin var:
Hvenær byrjaði fólk á Íslandi að borða af diskum?

Til að byrja með ætla ég að gefa mér að hér sé spurt um leirdiska, en það eru diskarnir sem við borðum af í dag. Áður en askurinn tók við sem algengasta matarílátið á 18. öld borðuðu Íslendingar af trédiskum og tindiskum. Þannig diskar voru líka oft hafðir til sparinota samfara askinum (Hallgerður Gísladóttir 2004). Það er ekki fyrr en á 19. öld að leirdiskar komu til sögunnar og þá hurfu askarnir smám saman. Ritheimildir og fornleifar gefa til kynna að Íslendingar hafi almennt verið farnir að borða af leirdiskum á áttunda áratugi 19. aldar.

Árið 1855 öðluðust Íslendingar verslunarfrelsi og jukust þá viðskipti með ýmsa kramvöru og er líklegt að framboð á borðbúnaði hafi við það aukist. Um 100 árum fyrr hafði enski frumkvöðullinn Josiah Wedgewood (1730-1795) hafið verksmiðjuframleiðslu á borðbúnaði úr hvítum leir. Þá varð leirtau, eins og við þekkjum það í dag, í fyrsta sinn fáanlegt á viðráðanlegu verði. Diskar, skálar og bollar voru flutt um heimsins höf fyrir tilstilli breskrar heimsveldisstefnu og má finna samskonar leirkerabrot í fornleifauppgröftum í Karíbahafinu, Suður-Afríku, Ameríku og Evrópu frá 18. og 19. öld.

Við lok 19. aldar notuðu flest íslensk heimili talsvert af leirtaui með ýmiss konar skreytingum sem framleidd voru víða um álfuna. Á myndinni sést diskabrot úr dönskum fajans-leir. Barmur með hvítum glerungi með bláu mynstri.

Eftirspurnin jókst samfara neyslu á nýlendudrykkjum eins og kaffi, kakói og tei. Íslendingar voru seinni til að tileinka sér þessa efnismenningu en margar aðrar þjóðir. Heimildir benda til að upp úr miðri 19. öld hafi leirkeraeign verið orðin nokkuð almenn og gripasöfn úr uppgröftum bera skýr merki þess að við lok aldarinnar hafi flest íslensk heimili notað talsvert af leirtaui með ýmiss konar skreytingum sem framleidd voru víða um álfuna, til dæmis í Frakklandi, Danmörku, Englandi og Skotlandi.

Breytingar á borðbúnaði tengjast ekki einungis framboði og eftirspurn heldur almennum breytingum á samfélagsgerðinni. Ýmsar samfélagslegar breytur stjórna því hvernig við neytum matar okkar og hvar og úr hverskonar ílátum. Þessar breytur eru til dæmis húsagerð, matarhæfi og mannasiðir. Tilkoma asksins á 18. öld hefur til dæmis verið tengd kólnandi veðurfari og breytingum í húsagerð Íslendinga. Gangabærinn sem Íslendingar fóru að byggja á síðmiðöldum (Hörður Ágústsson 1987) var orðinn algengur um land allt á 18. öld (Haraldur Helgason 2004). Hann var torfbær með löngum gangi sem önnur hús, svo sem eldhús, búr og baðstofa, lágu inn af. Í gangabænum varð baðstofan að aðalíveruhúsi heimilisfólks. Þar vann fólk, svaf og mataðist. Askar henta vel til þess að halda á í kjöltunni þegar setið er á rúmstokki frekar en við borð. Þeir hentuðu því baðstofulífinu betur en flatir diskar. Átmatur var borðaður úr lokinu en grautar úr bumbunni (Hallgerður Gísladóttir 2004). Þessar breytingar í húsagerð og uppgangur baðstofunnar hafa á þennan hátt verið tengdar uppruna asksins.

Askar henta vel til þess að halda á í kjöltunni þegar setið er á rúmstokki frekar en við borð. Mynd af hefðbundnum íslenskum aski.

Á sama hátt eru eldavélar oft nefndar sem helsti hvati þess að til urðu sérstök eldhús og í kjölfarið eldhúsborð, stólar og jafnvel diskarekkar og skápar fyrir leirtau (Hallgerður Gísladóttir 2004) sem þá hafi orðið hentugur borðbúnaður. Eldavélaeign fer þó ekki að verða almenn fyrr en um og upp úr aldamótunum 1900 (Árni Björnsson 2003) en leirdiskar koma til sögunnar nokkuð fyrr.

Fornleifafræðingar hafa talsvert rannsakað hvenær leirdiskar og borðbúnaður fer að verða almennur á Íslandi enda mynda þessir hlutir oft bróðurhluta þeirra gripa sem finnast í uppgröftum frá síðari öldum. Í uppgreftri á bænum Hornbrekku á Höfðaströnd í Skagafirði fundust mörg leirker frá síðari hluta 19. aldar. Hornbrekka var lítill bær og frekari greining á leiratauinu leiddi í ljós að notkun leirkera hafi ekki verið orðið almenn á bænum fyrr en um 1870 (Ágústa Edwald og Karen Milek 2013).

Grímur í Koti að borða mat úr spilkomu á rúmstokki. Myndin er tekin á seinni hluta 19. aldar.

Fornleifa- og sagnfræðingar hafa leitt líkur að því að áður en leirdiskar urðu almennir hafi leirskálar tekið við af öskunum (Hallgerður Gísladóttir 204, Gavin Lucas 2007). Skálar eru betur til þess fallnar að borða úr án þess að setið sé við borð og auk þess henta þær vel til að drekka heita drykki úr, en kaffidrykkja jókst mikið meðal Íslendinga upp úr miðri 19. öld. Litlar leirskálar eru jafnan nefndar spilkomur í heimildum[1] og má leiða líkur að því að þær brúi bilið milli asksins og leirdisksins. Þá hafa fræðimenn getið sér þess til að skálarnar hafi í upphafi, líkt og askarnir, verið persónuleg eign hvers heimilismeðlims. Á 19. öld og í byrjun 20. aldar var mjög algengt að lagfæra leirker þegar þau brotnuðu og voru þau þá sprengd. Það má vera að persónuleg tenging við ílátin hafi aukið þá tilhneigingu.

Í úrtaki af dánarbúum frá Skagafirði frá 19. öld sést að ríkari heimili áttu leirdiska á fimmta áratugi 19. aldar. Bú Rannveigar Skúladóttur frá Mælifellsá í Skagafjarðarsýslu var skrifað upp árið 1816 og þá tilheyrðu því þrír tindiskar og átta askar. Bú Rannveigar var fremur ríkt en þrátt fyrir það átti hún enga leirdiska (ED1/2,1:282). Sömu sögu er að segja af búi Sigurðar Ólafssonar bónda á Þrasastöðum sem var virt yfir meðallagi árið 1820 (ED2/3,22:1). Sigurði tilheyrði einn askur og einn tindiskur. Árið 1845, var bú hjónanna Regínu Christinu Örum og C.C. Graa Örum faktors við Grafaróss-verslun í Skagafirði skrifað vegna skilnaðar hjónanna (ED2/11,1:6). Þá áttu þau 17 bláflekkótta grunna postulínsdiska, 24 bláflekkótta grunna diska, 6 blálfekkótta diska minni, 19 hvíta djúpa diska og 16 hvíta grunna diska en engan ask.

Litlar leirskálar eru jafnan nefndar spilkomur í heimildum og má leiða líkur að því að þær brúi bilið milli asksins og leirdisksins. Mynd af spilkomu frá árunum 1900-1950 sem tilheyrði bænum Reynistað í Skagafirði.

Ljóst er að bú kaupmannshjónanna var ekki dæmigert sveitaheimili í Skagafirði en upp úr miðri öldinni fer leirkeraeign að breiðast út. Prestsekkjan Anna Kristín Runólfsdóttir í Hofsstaðaseli í Skagafirði átti 6 bláflekkótta diska, fimm hvíta diska og tvo litla diska árið 1865 þegar dánarbú hennar var skráð (ED2/19,21:1). Búi Önnu tilheyrðu líka níu askar og tvær bláleitar skálar. Gunnar Bjarnason bóndi á Glæsibæ í sömu sýslu átti 34 diska og fimm skálar þegar hann lést árið 1885 en engan ask (ED2/27,1886:20). Um aldamótin 1900 eru askar nánast horfnir úr dánarbús uppskriftum og má gera ráð fyrir að leirdiskar hafi þá verið búnir að ná yfirhöndinni á flestum heimilum.

Tilvísun:
  1. ^ Orðið er líklega ættað úr dönsku, ‚spølkum‘ sem merkir þvottaskál.

Prentaðar heimildir:

  • Ágústa Edwald og Karen Milek. 2013. Building and Keping House in 19th-Century Ieland. Domestic Improvements t Hornbrekka, Skagafjörður. Archaeologica Islandica 10: 9-27.
  • Árni Björnsson 2003. Úr torfbæjum inn í tækniöld. Fyrsta bindi. Reykjavík: Örn og Örlygur.
  • Gavin Lucas. 2007. The Widespread Adoption of Pottery in Iceland 1850-1950. Í Benedikt Eyþórsson og Hrafnkell Lárusson (ritsj.) Þriðja íslenska söguþingið 18.-21. maí 2006. Ráðstefnurit. Reykjavík: Aðstandendur Þriðja íslenska söguþingsins. 62-68.
  • Hallgerður Gísladóttir. 2004. Af mörgu skal mat hafa. Í Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (ritstj.) Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.96-105.
  • Haraldur Helgason 2004. Bæjarhús á síðari öldum. Byggingararfur í húsasafni þjóðminjasafnsins. Í Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (ritstj.) Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands. 140-149.
  • Hörður Ágústsson 1987. Íslenski torfbærinn. Í Frosti F Jóhannsson (ritstj.) Íslensk Þjóðmenning I. Uppruni og umhverfi. Rekjavík:Bókaútgáfan Þjóðsaga. 227-346.

Óprentaðar heimildir:
  • Þjóðskjalasafn Íslands, Skagafjarðarsýsla:
    Skiptabók 1808-1821: ED1/02,1:282.
    Dánarbú 1798-1826:ED2/03,22:1.
    Dánarbú 1845-1852: ED2/11,1:6.
    Dánarbú 1865-1866: ED2/19,21:1.
    Dánarbú 1872-1910: ED2/27,1886:20.

Myndir:

Höfundur

Ágústa Edwald Maxwell

sérfræðingur hjá Sagnfræðistofnun

Útgáfudagur

16.3.2018

Síðast uppfært

3.5.2018

Spyrjandi

Krakkarnir í 6. N í Laugarnesskóla

Tilvísun

Ágústa Edwald Maxwell. „Hvenær fóru Íslendingar að borða af diskum?“ Vísindavefurinn, 16. mars 2018, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=12091.

Ágústa Edwald Maxwell. (2018, 16. mars). Hvenær fóru Íslendingar að borða af diskum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=12091

Ágústa Edwald Maxwell. „Hvenær fóru Íslendingar að borða af diskum?“ Vísindavefurinn. 16. mar. 2018. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=12091>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær fóru Íslendingar að borða af diskum?
Upprunalega spurningin var:

Hvenær byrjaði fólk á Íslandi að borða af diskum?

Til að byrja með ætla ég að gefa mér að hér sé spurt um leirdiska, en það eru diskarnir sem við borðum af í dag. Áður en askurinn tók við sem algengasta matarílátið á 18. öld borðuðu Íslendingar af trédiskum og tindiskum. Þannig diskar voru líka oft hafðir til sparinota samfara askinum (Hallgerður Gísladóttir 2004). Það er ekki fyrr en á 19. öld að leirdiskar komu til sögunnar og þá hurfu askarnir smám saman. Ritheimildir og fornleifar gefa til kynna að Íslendingar hafi almennt verið farnir að borða af leirdiskum á áttunda áratugi 19. aldar.

Árið 1855 öðluðust Íslendingar verslunarfrelsi og jukust þá viðskipti með ýmsa kramvöru og er líklegt að framboð á borðbúnaði hafi við það aukist. Um 100 árum fyrr hafði enski frumkvöðullinn Josiah Wedgewood (1730-1795) hafið verksmiðjuframleiðslu á borðbúnaði úr hvítum leir. Þá varð leirtau, eins og við þekkjum það í dag, í fyrsta sinn fáanlegt á viðráðanlegu verði. Diskar, skálar og bollar voru flutt um heimsins höf fyrir tilstilli breskrar heimsveldisstefnu og má finna samskonar leirkerabrot í fornleifauppgröftum í Karíbahafinu, Suður-Afríku, Ameríku og Evrópu frá 18. og 19. öld.

Við lok 19. aldar notuðu flest íslensk heimili talsvert af leirtaui með ýmiss konar skreytingum sem framleidd voru víða um álfuna. Á myndinni sést diskabrot úr dönskum fajans-leir. Barmur með hvítum glerungi með bláu mynstri.

Eftirspurnin jókst samfara neyslu á nýlendudrykkjum eins og kaffi, kakói og tei. Íslendingar voru seinni til að tileinka sér þessa efnismenningu en margar aðrar þjóðir. Heimildir benda til að upp úr miðri 19. öld hafi leirkeraeign verið orðin nokkuð almenn og gripasöfn úr uppgröftum bera skýr merki þess að við lok aldarinnar hafi flest íslensk heimili notað talsvert af leirtaui með ýmiss konar skreytingum sem framleidd voru víða um álfuna, til dæmis í Frakklandi, Danmörku, Englandi og Skotlandi.

Breytingar á borðbúnaði tengjast ekki einungis framboði og eftirspurn heldur almennum breytingum á samfélagsgerðinni. Ýmsar samfélagslegar breytur stjórna því hvernig við neytum matar okkar og hvar og úr hverskonar ílátum. Þessar breytur eru til dæmis húsagerð, matarhæfi og mannasiðir. Tilkoma asksins á 18. öld hefur til dæmis verið tengd kólnandi veðurfari og breytingum í húsagerð Íslendinga. Gangabærinn sem Íslendingar fóru að byggja á síðmiðöldum (Hörður Ágústsson 1987) var orðinn algengur um land allt á 18. öld (Haraldur Helgason 2004). Hann var torfbær með löngum gangi sem önnur hús, svo sem eldhús, búr og baðstofa, lágu inn af. Í gangabænum varð baðstofan að aðalíveruhúsi heimilisfólks. Þar vann fólk, svaf og mataðist. Askar henta vel til þess að halda á í kjöltunni þegar setið er á rúmstokki frekar en við borð. Þeir hentuðu því baðstofulífinu betur en flatir diskar. Átmatur var borðaður úr lokinu en grautar úr bumbunni (Hallgerður Gísladóttir 2004). Þessar breytingar í húsagerð og uppgangur baðstofunnar hafa á þennan hátt verið tengdar uppruna asksins.

Askar henta vel til þess að halda á í kjöltunni þegar setið er á rúmstokki frekar en við borð. Mynd af hefðbundnum íslenskum aski.

Á sama hátt eru eldavélar oft nefndar sem helsti hvati þess að til urðu sérstök eldhús og í kjölfarið eldhúsborð, stólar og jafnvel diskarekkar og skápar fyrir leirtau (Hallgerður Gísladóttir 2004) sem þá hafi orðið hentugur borðbúnaður. Eldavélaeign fer þó ekki að verða almenn fyrr en um og upp úr aldamótunum 1900 (Árni Björnsson 2003) en leirdiskar koma til sögunnar nokkuð fyrr.

Fornleifafræðingar hafa talsvert rannsakað hvenær leirdiskar og borðbúnaður fer að verða almennur á Íslandi enda mynda þessir hlutir oft bróðurhluta þeirra gripa sem finnast í uppgröftum frá síðari öldum. Í uppgreftri á bænum Hornbrekku á Höfðaströnd í Skagafirði fundust mörg leirker frá síðari hluta 19. aldar. Hornbrekka var lítill bær og frekari greining á leiratauinu leiddi í ljós að notkun leirkera hafi ekki verið orðið almenn á bænum fyrr en um 1870 (Ágústa Edwald og Karen Milek 2013).

Grímur í Koti að borða mat úr spilkomu á rúmstokki. Myndin er tekin á seinni hluta 19. aldar.

Fornleifa- og sagnfræðingar hafa leitt líkur að því að áður en leirdiskar urðu almennir hafi leirskálar tekið við af öskunum (Hallgerður Gísladóttir 204, Gavin Lucas 2007). Skálar eru betur til þess fallnar að borða úr án þess að setið sé við borð og auk þess henta þær vel til að drekka heita drykki úr, en kaffidrykkja jókst mikið meðal Íslendinga upp úr miðri 19. öld. Litlar leirskálar eru jafnan nefndar spilkomur í heimildum[1] og má leiða líkur að því að þær brúi bilið milli asksins og leirdisksins. Þá hafa fræðimenn getið sér þess til að skálarnar hafi í upphafi, líkt og askarnir, verið persónuleg eign hvers heimilismeðlims. Á 19. öld og í byrjun 20. aldar var mjög algengt að lagfæra leirker þegar þau brotnuðu og voru þau þá sprengd. Það má vera að persónuleg tenging við ílátin hafi aukið þá tilhneigingu.

Í úrtaki af dánarbúum frá Skagafirði frá 19. öld sést að ríkari heimili áttu leirdiska á fimmta áratugi 19. aldar. Bú Rannveigar Skúladóttur frá Mælifellsá í Skagafjarðarsýslu var skrifað upp árið 1816 og þá tilheyrðu því þrír tindiskar og átta askar. Bú Rannveigar var fremur ríkt en þrátt fyrir það átti hún enga leirdiska (ED1/2,1:282). Sömu sögu er að segja af búi Sigurðar Ólafssonar bónda á Þrasastöðum sem var virt yfir meðallagi árið 1820 (ED2/3,22:1). Sigurði tilheyrði einn askur og einn tindiskur. Árið 1845, var bú hjónanna Regínu Christinu Örum og C.C. Graa Örum faktors við Grafaróss-verslun í Skagafirði skrifað vegna skilnaðar hjónanna (ED2/11,1:6). Þá áttu þau 17 bláflekkótta grunna postulínsdiska, 24 bláflekkótta grunna diska, 6 blálfekkótta diska minni, 19 hvíta djúpa diska og 16 hvíta grunna diska en engan ask.

Litlar leirskálar eru jafnan nefndar spilkomur í heimildum og má leiða líkur að því að þær brúi bilið milli asksins og leirdisksins. Mynd af spilkomu frá árunum 1900-1950 sem tilheyrði bænum Reynistað í Skagafirði.

Ljóst er að bú kaupmannshjónanna var ekki dæmigert sveitaheimili í Skagafirði en upp úr miðri öldinni fer leirkeraeign að breiðast út. Prestsekkjan Anna Kristín Runólfsdóttir í Hofsstaðaseli í Skagafirði átti 6 bláflekkótta diska, fimm hvíta diska og tvo litla diska árið 1865 þegar dánarbú hennar var skráð (ED2/19,21:1). Búi Önnu tilheyrðu líka níu askar og tvær bláleitar skálar. Gunnar Bjarnason bóndi á Glæsibæ í sömu sýslu átti 34 diska og fimm skálar þegar hann lést árið 1885 en engan ask (ED2/27,1886:20). Um aldamótin 1900 eru askar nánast horfnir úr dánarbús uppskriftum og má gera ráð fyrir að leirdiskar hafi þá verið búnir að ná yfirhöndinni á flestum heimilum.

Tilvísun:
  1. ^ Orðið er líklega ættað úr dönsku, ‚spølkum‘ sem merkir þvottaskál.

Prentaðar heimildir:

  • Ágústa Edwald og Karen Milek. 2013. Building and Keping House in 19th-Century Ieland. Domestic Improvements t Hornbrekka, Skagafjörður. Archaeologica Islandica 10: 9-27.
  • Árni Björnsson 2003. Úr torfbæjum inn í tækniöld. Fyrsta bindi. Reykjavík: Örn og Örlygur.
  • Gavin Lucas. 2007. The Widespread Adoption of Pottery in Iceland 1850-1950. Í Benedikt Eyþórsson og Hrafnkell Lárusson (ritsj.) Þriðja íslenska söguþingið 18.-21. maí 2006. Ráðstefnurit. Reykjavík: Aðstandendur Þriðja íslenska söguþingsins. 62-68.
  • Hallgerður Gísladóttir. 2004. Af mörgu skal mat hafa. Í Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (ritstj.) Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.96-105.
  • Haraldur Helgason 2004. Bæjarhús á síðari öldum. Byggingararfur í húsasafni þjóðminjasafnsins. Í Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (ritstj.) Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands. 140-149.
  • Hörður Ágústsson 1987. Íslenski torfbærinn. Í Frosti F Jóhannsson (ritstj.) Íslensk Þjóðmenning I. Uppruni og umhverfi. Rekjavík:Bókaútgáfan Þjóðsaga. 227-346.

Óprentaðar heimildir:
  • Þjóðskjalasafn Íslands, Skagafjarðarsýsla:
    Skiptabók 1808-1821: ED1/02,1:282.
    Dánarbú 1798-1826:ED2/03,22:1.
    Dánarbú 1845-1852: ED2/11,1:6.
    Dánarbú 1865-1866: ED2/19,21:1.
    Dánarbú 1872-1910: ED2/27,1886:20.

Myndir:

...