Baðstofa? Af hverju í ósköpunum voru vistarverur manna kallaðar baðstofur - það læðist að manni sá grunur að orðið eigi ekki rætur í líkamshirðu.
Arnheiður Sigurðardóttir mag.art. skrifaði ítarlega bók og gaf út 1966 undir heitinu Híbýlahættir á miðöldum. Í fimmta kafla rekur hún sögu baðstofunnar frá elstu heimildum og fram á 16. öld. Hún byrjar á að gera grein fyrir orðinu baðstofa og skrifar (69):
Orðið baðstofa, sem kunnugt er í fornsænsku (badstufva) og miðaldadönsku (badstue), mun á Norðurlöndum í öndverðu hafa táknað hús, þar sem gufubað var framleitt með þeim hætti, að köldu vatni var stökkt á glóandi steina í hinum svonefnda grjótofni.Arnheiður tekur fram að fornleifarannsóknir frá þjóðveldisöld hafi enn sem komið er enga örugga vitneskju gefið um hvenær byrjað var að nota baðstofu hérlendis. Hún nefnir að víða hafi fundist menjar um gufubaðstofur á Grænlandi, sem ýmist stóðu sér eða áfastar bæjarhúsum. Frásögn í Eyrbyggja sögu er, samkvæmt Arnheiði, talin óyggjandi sönnun þess að gufubaðstofur hafi þekkst hér á söguöld. Áfram segir Arnheiður:
Baðstofur eru nefndar í öllum landsfjórðungum í aðalsamtíðarheimild íslenzkri frá 13. öld eða Sturlungu. Orðið bað og orðasamböndin ganga til baðs og ganga frá baði eru það algeng í Sturlungu, að ekki verður betur séð en baðstofuböð hafi tíðkazt um land allt á 13. öld (70).Hún nefnir fleiri áhugaverð dæmi um böð og baðstofuofninn og vísast til þeirra í bókinni. Á 15. öld er baðstofan almennt að verða aðalíveruherbergið á venjulegum bændabýlum en eldstæði í bakhýsum virðast þó eitthvað hafa tíðkast (73). Af samtímaheimildum á 16. öld telur Arnheiður ljóst að grjótofnar voru almennir í baðstofum, að sumu leyti notaðir til upphitunar og að sumu leyti til baða. Af framansögðu má sjá að baðstofa vísaði upphaflega til staðar þar sem unnt var að fara í gufubað. Smám saman þróaðist merkingin yfir í íveru-, vinnu- og matarstað (16. öld) og áfram í helsta íbúðarhús í torfbæjum, svefn-, vinnu- og dvalarstaður. Mynd:
- Baðstofa, Glaumbaer | Flickr - Photo Sharing! (Sótt 20.03.2014).