Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Öldum saman voru öll íbúðarhús Íslendinga með veggi hlaðna úr torfi og grjóti og timburþök þakin torfi. Undantekningar voru örfáar; einna elst þeirra líklega timburstofa á Hólum í Hjaltadal sem norskur biskup, Auðunn rauði Þorbergsson, lét reisa þar á fyrri hluta 14. aldar og stóð öldum saman. Strax á miðöldum voru sumar kirkjur byggðar úr timbri, þar á meðal dómkirkjurnar á báðum biskupsstólunum, Skálholti og Hólum. Fá hús voru til á Íslandi af öðru tagi þangað til á einokunartímanum, eftir 1600, að tekið var að reisa verslunarhús á verslunarstöðum. Þau munu jafnan hafa verið úr timbri og voru jafnframt íbúðarhús kaupmanna og verslunarmanna þegar þeir höfðu aðsetur hér á landi. Óvíst er hvenær æðstu embættismenn konungs á Íslandi tóku að búa í timburhúsum. En á teikningu af Bessastöðum frá 1720 er hús amtmanns, æðsta konungsmanns á landinu, úr timbri en hús landfógeta þakið torfi.
Bærinn Sænautasel á Jökuldalsheiði var byggður árið 1843 og var búið í honum til ársins 1943. Bærinn var endurbyggður árið 1992 og aftur árið 2010 eftir að hluti hans féll árið áður.
Á síðari hluta 18. aldar var fyrst tekið að reisa hús úr höggnum og límdum steini, fyrst Viðeyjarstofu, sem var tekin í notkun 1752, síðan Bessastaðastofu, Nesstofu á Seltjarnarnesi, þar sem landlæknir bjó, hús biskups í Laugarnesi rétt fyrir innan Reykjavík, hús amtmanns á Möðruvöllum í Hörgárdal. Áður en biskupssetur var lagt niður á Hólum var byggð þar fyrsta steinhlaðna kirkjan. Fangelsi úr steini var reist í Reykjavík og er nú vinnustaður forsætisráðherra. Á sama skeiði tók íbúðarhúsum úr timbri að fjölga, meðal annars vegna þess að verslunareinokun var aflétt 1787 og kaupmenn fóru að setjast að á Íslandi, bæði danskir og íslenskir. Þéttbýli byrjaði að myndast, og þar var jafnan meira um timburhús en í sveitum.
Á síðari hluta 19. aldar tóku húsbyggingar úr timbri og steini nýjan kipp. Að hluta til stafaði þetta af vexti þéttbýlis, einkum eftir að kom fram yfir aldamótin 1900. Um 1890 bjuggu um 87% þjóðarinnar í sveitum; árið 1923 urðu strjálbýlisbúar færri en þéttbýlisbúar. Þeir sem stofnuðu heimili í þéttbýli á þessu tímabili settust flestir að í timburhúsum. Litríka timburhúsabyggðin í Reykjavík, til dæmis við Tjarnargötu, Hverfisgötu, Lindargötu og Grettisgötu, er frá þessu tímabili. Á síðustu áratugum 19. aldar var um skeið byggt í Reykjavík talsvert af litlum íbúðarhúsum úr hlöðnum steini, stundum með timburgöflum. Þau minna mikið á torfhús í laginu og voru kölluð steinbæir. Örfáir þeirra standa enn. Svo uppgötvuðu Íslendingar steinsteypuna á þessu tímabili. Í fyrstu reyndu þeir að bæta sér upp skortinn á múrsteinaefni á Íslandi og steypa steina til að hlaða úr hús. En svo gerðist það árið 1895 að bóndinn í Sveinatungu í Norðurárdal og húsasmiður sem hann hafði ráðið til að byggja hús á bænum fundu upp það ráð að steypa veggi í heilu lagi í steypumótum. Það hús stendur enn og er auðvitað friðað, þótt bærinn sé löngu kominn í eyði. Sama ár er raunar sagt að byggt hafi verið fjós í steinsteypumótum fyrir spítalann á Akureyri. Kannski var steinsteypan uppgötvuð á tveimur stöðum á landinu samtímis. Hvernig sem það var sló aðferðin heldur betur í gegn, og næstu kynslóðir Íslendinga notuðu steinsteypuna til að bylta húsakosti þjóðarinnar.
Torfkirkja á Hofi í Öræfum, byggð 1884. Ein af fáum torfkirkjum sem enn standa á Íslandi.
Gamlar ljósmyndir og minningar þeirra sem eru komnir á efri ár vitna um að margs konar millistig var á milli torf- og timburbæja. Torfbæir höfðu stundum timburgafla eða aðra hliðina fram á hlaðið úr timbri. Um útveggi bæja sem voru að öðru leyti úr timbri og klæddir bárujárni voru oft hlaðnir torfveggir til einangrunar. Samt hafa skýrslugerðarmenn haft leið til að skilja þarna á milli því engir milliflokkar eru í skýrslum um byggingarefni í íbúðarhúsnæði landsmanna sem eru til frá hálfrar aldar bilinu 1910–60. Samkvæmt því bjuggu árið 1910 um 52% þjóðarinnar í torfbæjum, um 44% í timburhúsum og 4% í steinhúsum (hlöðnum og steyptum). Í sveitum bjuggu þá enn 74% í torfbæjum og flestir hinna í timburhúsum, aðeins 2% í steinhúsum. Í kaupstöðum og þorpum voru timburhús langalgengust; þar bjuggu 84% en tæp 10% í torfbæjum og tæp 7% í steinhúsum.
Síðan lækkaði hlutfall torfbæja stöðugt, árið 1920 niður í 45% í heildina, árið 1930 í 27%, árið 1940 (eftir áratug kreppunnar) í 11%, árið 1950 í 4% og 1960 í 1%. Þá taldist þessi eini hundraðshluti vera annars vegar 234 sveitabæir, sem voru 4,4% íbúðarhúsnæðis í sveitum, hins vegar 15 torfbæir í þéttbýli og 0,4% af íbúðarhúsnæði þess. Þá má lesa út úr skýrslunni að búið sé í einum torfbæ í kaupstað. Það hlýtur að hafa verið Litla-Brekka á Grímsstaðaholtinu í Reykjavík, svo fast við Suðurgötu að austan að gatan varð að taka á svo svolítinn hlykk. Þar átti heima Eðvarð Sigurðsson, formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Verkamannasambands Íslands, líka alþingismaður um skeið. Sá bær var ekki rifinn fyrr en árið 1980.
Litla-Brekka í Grímsstaðaholtinu var síðasti torfbærinn í Reykjavík. Bærinn var rifinn árið 1980 og var búið í honum fram á það ár.
Saga Litlu-Brekku sýnir að það var ekki endilega snautt fólk eða frumstætt sem bjó lengst í torfbæjum á Íslandi. Í æsku minni á sjötta áratug 20. aldar kom ég stundum á einn bæ þar sem enn var búið í torfbaðstofu. Það var í Tungufelli í Hrunamannahreppi, og þar bjó fólk sem hafði sannarlega efni á að byggja sér steinhús. Þar var rekinn stórbúskapur miðað við það sem þá tíðkaðist, og þar var að sumu leyti fylgst fyllilega með tímanum. Í Tungufelli var til dæmis einn af fáum Willys-jeppum í uppsveitum Árnessýslu. Það er bara eins og sumir hafi kunnað best við sig milli torfveggja undir torfþaki. En einhvern tímann um 1960 kom myndarlegt steinhús í Tungufelli, og svo mun hafa verið á flestum bæjum þar sem búið var í torfbæjum um 1960, ef þeir lögðust ekki í eyði. Ellefu hundruð ára torfhúsaöld á Íslandi var á enda.
Heimildir:
Finsen, Helge og Esbjørn Hiort: Steinhúsin gömlu á Íslandi. Kristján Eldjárn þýddi. Reykjavík, Iðunn, 1978.
Gamlar þjóðlífsmyndir. Árni Björnsson skrifaði texta. Halldór J. Jónsson sá um myndaval. Reykjavík, Bjallan, 1984.
Guðmundur Hannesson: „Húsagerð á Íslandi.“ Iðnsaga Íslands I. Ritstjóri Guðm. Finnbogason. Reykjavík, Iðnaðarmannafélagið, 1943, 1–317.
Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson, Páll Líndal: Landið þitt Ísland III. L–R. Reykjavík, Örn og Örlygur, 1982.
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvenær fluttu Íslendingar úr torfbæjunum?“ Vísindavefurinn, 3. febrúar 2012, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60608.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2012, 3. febrúar). Hvenær fluttu Íslendingar úr torfbæjunum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60608
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvenær fluttu Íslendingar úr torfbæjunum?“ Vísindavefurinn. 3. feb. 2012. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60608>.