Um þriðjungur Suður-Afríkubúa (15,2 milljónir)
eru börn á aldrinum 0-14 ára.
Þegar íbúafjöldi er áætlaður eru ýmsir þættir sem taka þarf tillit til. Þar má nefna frjósemi, það er hversu mörg börn má ætla að hver kona eignist að meðaltali, dánartíðni, meðalævilengd og búferlaflutninga eins og lesa má um í svarinu Hvað munu margir búa á jörðinni árið 2050? Hvernig þessir þættir eru ákvarðaðir hefur svo áhrif á útkomu fólksfjöldaspárinnar og skýrir það þennan mun á spám mismunandi aðila. Einn þeirra þátta sem taka þarf sérstaklega tillit til í Suður-Afríku, eins og mörgum öðrum Afríkulöndum, er tíðni HIV-jákvæðra og alnæmissmitaðra. Sjúkdómurinn hefur meðal annars þau áhrif á tölfræðina að meðalævilengd er áætluð lægri en annars væri, ungbarnadauði og dánartíðni almennt eru áætluð hærri, fólksfjölgun talin hægari og aldurspíramítinn verður skekktur. Það hefur því áhrif á endanlega áætlun fólksfjöldans hver tíðni sjúkdómsins er talin vera. Hjá Hagstofu Suður-Afríku er til dæmis gert ráð fyrir að 16,7% allra á aldrinum 15-49 séu smitaðir af HIV-veirunni en The World Factbook áætlar að þetta hlutfall sé 21,5% og skýrir þetta að einhverju leyti þann mun sem er að finna á tölum um fólksfjölda í þessum heimildum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hverjar eru höfuðborgir Suður-Afríku? eftir ÍDÞ