Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Upplýsingar um íbúafjölda í Afríku (og annars staðar í heiminum) eru nokkuð breytilegar eftir því hvaða heimild er skoðuð. Svarið hér á eftir byggist að mestu leyti á upplýsingum á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna en þar er að finna ýmsar lýðfræðiupplýsingar.
Afríka er önnur fjölmennasta heimsálfan á eftir Asíu. Talið er að íbúar Afríku hafi verið um 1.186 milljónir milljónir árið 2015 sem samsvarar um 16,1% alls mannkyns. Áætlað er að Afríkubúum fjölgi um 2,6% á ári. Til samanburðar má nefna að um 4.393 milljónir manna (59,8% jarðarbúa) eiga heimkynni sín í Asíu og er náttúruleg fjölgun þar um 1% á ári. Íbúar Evrópu, þriðju fjölmennustu heimsálfunnar, eru um 738 milljónir (10% mannkyns) og fjölgar um 0,1% árlega.
Afríku er gjarnan skipt upp í svæði og er oft talað um Afríku sunnan Sahara sem sérstakt svæði. Mikill meirihluti íbúa Afríku býr sunnan Sahara eða yfir 900 milljónir. Önnur skipting sem algengt er að nota er að skipta heimsálfunni upp í Norður-, Suður-, Austur-, Vestur- og Mið- Afríku. Á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna má sjá hvaða lönd tilheyra hverju þessara svæða.
Austur-Afríka er fjölmennasta svæðið, en áætlað er að árið 2015 búi þar um 394,5 milljónir manna. Þar á eftir kemur Vestur-Afríka með um 353,2 milljónir íbúa, þá Norður-Afríka þar sem íbúar eru um 223,9 milljónir, Mið-Afríka með um 151,9 milljónir íbúa og loks Suður-Afríka þar sem talið er að íbúar árið 2015 hafi verið um 62 milljónir.
Nígería í Vestur-Afríku er lang fjölmennasta Afríkuríkið með um 182,2 milljón íbúa árið 2015 og telst Nígería sjöunda fjölmennasta ríki heims. Önnur fjölmenn Afríkuríki eru Eþíópía með 99,4 milljónir, Egyptaland með 91,5 milljónir, Kongó (Lýðstjórnarlýðveldið Kongó) þar sem íbúar eru um 77,3 milljónir og Suður-Afríka með um 54,5 milljón íbúa.
Um 40% Afríkubúa búa í þéttbýli. Þó hlutfallið sé ekki hærra eru nokkrar mjög fjölmennar borgir í Afríku. Fimm stórborgarsvæði í álfunni hafa yfir 5 milljónir íbúa hvert en það eru: Kaíró í Egyptalandi (um 18,7 milljónir), Lagos í Nígeríu (13,1 milljónir), Kinshasa í Kongó (11,6 milljónir), Jóhannesarborg í Suður-Afríku (9,4 milljónir) og Khartum í Súdan (5,1 milljónir).
Heimild og kort
Kort: Unnið af ritstjórn Vísindavefsins, grunnur fenginn af Blank Map-Africa.svg - Wikimedia Commons og upplýsingar um fólksfjölda af heimasíðu Sameinuðu þjóðanna.
Þetta svar var upphaflega birt árið 2002 en upplýsingar voru uppfærðar í nóvember 2015.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hversu margir búa í Afríku?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2002, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2518.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2002, 22. júní). Hversu margir búa í Afríku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2518
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hversu margir búa í Afríku?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2002. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2518>.