Það sem við vitum um Sókrates er að mestu fengið úr ritum lærisveins hans, Platons. Sjálfur skrifaði Sókrates ekkert. Platon var heimspekingur -- einn áhrifamesti hugsuður allra tíma -- en öll rit hans eru byggð upp sem samræður milli Sókratesar og annarra manna. Þetta hefur torveldað mönnum að skilja milli þess sem raunverulega er komið frá Sókratesi og hins sem Platon leggur til. Í dag er þó almenn sátt um að flokka ákveðin rit sem fyrstu rit Platons og önnur sem síðari rit, og að í þeim fyrstu birtist mál Sókratesar en hinum síðari frekar kenningar Platons. Sókrates gekk um götur og talaði -- það er sú iðja sem gerði hann manna ódauðlegastan í verkum Platons. Sókrates kvaðst leita að þekkingu með samræðum við menn. Aðferð Sókratesar, sem hann beitti í samræðu, heitir elenkos á grísku. Elenkos felst í því að leiða niðurstöður af skoðunum eða hugmyndum viðmælanda sem ýmist eru í mótsögn hvor við aðra eða við augljósar staðreyndir, og varpa þannig ljósi á hvað í skoðun felst og sýna hvernig hún stenst í raun ekki. Sókrates beitir elenkos í bland við ljósmóðurtækni sína. Hún felst í því að spyrja aðeins spurninga en veita engin svör sjálfur, leiða þannig samræðuna áfram en láta öll málsatriði koma úr munni viðmælanda – hjálpa til við fæðingu hugmynda úr annarra skauti. Móðir Sókratesar var ljósmóðir; þaðan hefur hann líkinguna. Sókrates kveðst sjálfur fávís og spyr þann sem mest þykist vita um tiltekið efni, til dæmis þekkingu: Hvað er þekking? Og sá sem telur sig vita skýrir frá hugmyndum sínum -- þekking er skynjun. Þá segir Sókrates: En tveir menn finna sama vind leika um sig og annar segir hann hlýjan en hinn kaldan, báðir skynja þeir; hvor hefur þekkinguna? Þá betrumbætir viðmælandinn kenninguna en Sókrates finnur enn á henni einhverja meinbugi. Þannig heldur samræðunni áfram þar til báðir standa upp og hafa komið því til leiðar að allar fyrri hugmyndir um efnið eru ónýtar en engin niðurstaða fengin, ekkert svar við spurningunni: Hvað er þekking? (Sjá Þeætetus eftir Platón í þýðingu Arnórs Hannibalssonar). Þetta þótti mörgum lítilsvert -- að fá ekki botn í samræðuna -- sérstaklega á dögum fræðaranna (sófistanna) sem fóru um Grikkland og kváðust sumir geta komist að niðurstöðu í hvaða máli sem er og sannfært viðmælendur án mikillar fyrirhafnar.
- Hvar get ég lesið um Sókrates og alla heimspekingana? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvað hét kona Sókratesar og hvað er vitað um hana? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- „Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hver var afstaða Sókratesar til ástarinnar? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvernig er dæmigerð sókratísk samræða? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvenær varð grísk heimspeki til? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hver er saga grískrar heimspeki? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvenær var blómatími grískrar heimspeki og hvenær lauk honum? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvernig er best að „læra“ eða stunda heimspeki með það að sjónarmiði að ná framúrskarandi árangri? eftir Ólaf Pál Jónsson
- Platón, Menón, þýð. Sveinbjörn Egilsson. Hið íslenska bókmenntafélag. 2. útg. 1993.
- Platón, Þeætetus, þýð. Arnór Hannibalsson. (Bóksala stúdenta selur).
- Platón, Síðustu dagar Sókratesar, þýð. Sigurður Nordal. Hið íslenska bókmenntafélag. 4. útg. 1996.
- Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfanda hveli I. Mál og menning, 1986.
- Wikipedia.com - Socrates. Sótt 25.3.2011.
- Pinacotheca Philosophica - Socrates and His Students. Sótt 25.3.2011.