Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sigmund Freud sagði: Án ástar, ekkert líf - án átaka, enginn þroski. Þessi tvö öfl, meðbyr-mótbyr, sem svo oft takast á, eru líklega forsendur lífsins. Ástin er í upprunalegu merkingunni afl lífsins, "já-ið", lífs- og kynhvötin, afl gleðinnar, hins góða, jákvæða, frjóa, uppbyggilega - líbídó. Hið gagnstæða er afl dauðans, "nei-ið", dauðahvötin, afl hins neikvæða, illa, eyðileggingar. Að bera jákvæðar tilfinningar til annarrar manneskju og finna hið sterka uppbyggilega afl beinast að henni er forsenda þroskaðra tengsla. Þetta ber í sér aðdráttarafl - andlegt og tilfinningalegt, líkamlegt og kynferðislegt.
Tengslakenningar samskiptafræðinga byggja meðal annars á hugmyndinni um að í vitund vanþroska ungabarns séu þessi tvö öfl ósamræmanleg: Hið góða, næringin úr brjósti móðurinnar, og andstæða þess vonskan, höfnunin. Ungbarnið þroskast síðan af stöðugum og nánum tengslum sem veita stundum unað en stundum andbyr frá sömu manneskju. Heilbrigður einstaklingur, sá sem er fær um að höndla ástina, lærir að ráða við hvort um sig og geta fundið það samræmast í sömu persónu (sbr. um kenningar M. Klein hjá Sæunni Kjartansdóttur, 1999).
Þannig er ást foreldris til barns og síðan tengsl foreldris og barns líklega frumástin - og forsenda þess að geta upplifað aðra ást - gefa og taka við í öðrum tengslum. Bandaríski sál- og samskiptafræðingurinn Erik H. Erikson ritaði um þetta afl sem nánast meðfædda, eðlislæga eða líffræðilega (foreldra)hvöt, "generativity", sem við greinum bæði hjá mönnum og dýrum.
Kossinn eftir Gustav Klimt. Olía á striga (1907-1908).
Hjá dýrum lýkur verndinni um leið og ungviðið er fleygt og fært, enda er takmarkið að viðhalda hópnum, tegundinni. Langtíma tilfinningatengsl þróast venjulega ekki, enda tjáskiptaleiðirnar takmarkaðar án tungumálsins, þótt hagstæð hegðun þróist í genunum og berist til næstu kynslóða. Parsambandið hjá dýrum getur þó birst í tryggð sem helst yfir lengri tíma. Hjá manninum er þessi hvöt forsenda kynslóða- og menningararfsins, frumaflið í endurnýjun mannkynsins en um leið hreyfiaflið í þróun þjóðhátta, gilda, vináttu og menningar.
Þessi (foreldra)ástarhvöt er óeigingjörn og lætur eigin (skammtíma)hag víkja fyrir afkomu barnsins og velferð. Erikson segir að anga af þessu sama fyrirbæri megi greina hjá fagfólki sem hefur það hlutverk að koma fólki til þroska, leiðrétta hegðun þess og efla hæfni til að njóta sín í mannlegum samskiptum ("helping professions"). Umhyggja gagnvart vandalausum, sem tengd hefur verið við mannúðarstefnu (philanthropy) og er framlag í þágu annarra, er einnig talin liggja að baki slíkri óeigingirni (altruism).
Þessi tegund ástar er andstæða sjálfsástar. Í nútíma samfélagi er gjarnan hvatt til sjálfselsku undir slagorðinu "elskaðu sjálfan þig". Þá er verið að boða "lækningu" við vanmætti af ýmsu tagi, lágu sjálfsmati og tilfinningalegri ófullnægju sem á oft rætur að rekja til ónógrar ástar eða skorts á innri kjölfestu (Fromm, 1974). Sjálfsást í þeirri merkingu er í eðli sínu eigingjörn (egoism) og dæmi um eiginhagsmunastefnu (sjá einnig umfjöllun um sjálfselsku hjá Páli Árdal, 1982).
Umhyggja og afskiptasemi foreldris lýsir sér í hæfileikanum til að sýna barninu ást, ýmist með viðurkenningu eða gagnrýni, eftirlæti eða ögun, mildi eða mörkum, sætu eða súru. Í klínískri umfjöllun um hvernig megi mæla eða finna mælikvarða á foreldraást eða hið góða foreldri er gjarnan unnið með hugtakið "nægilega mikil ást" sem á meðal annars rætur að rekja til breska samskiptafræðingsins og sálgreinisins Winnicott (sbr. "good enough mothering"). Átt er við að foreldrið sé fært um að mynda nægilega stöðug og samræmd tengsl við barnið, virkja það og trúa á það, til þess að það geti treyst öðrum og orðið heilsteypt manneskja.
Í nánu sambandi fullorðinna, oftast karls og konu, endurspeglast þetta samspil. Þær þarfir sem þar liggja að baki hafa áhrif í makavali, ekki síður en ytri félagslegir þættir, og valda stundum margvíslegri spennu í lífi sambúðarfólks í nánum tengslum. Í hjónameðferð er iðulega unnið með þessi ómeðvituðu öfl sem eru svo oft afdrifarík ekki aðeins í tilfinningasamspili, tjáskiptum og kynlífi heldur einnig í daglegum verkefnum og samstarfi.
Ítalski fræðimaðurinn Alberoni hefur fjallað rækilega um það að ást er ekki það sama og að verða ástfanginn. Flestir reyna það oft að verða ástfangnir af ýmsum persónum, í yfirfærslum, stundum aðeins í huganum eða við ákveðnar aðstæður, misjafnlega heppilegar. Þetta er dýrmætur hæfileiki sem ungt fólk hefur oftast í ríkara mæli en þeir sem eldri eru, sterk tilfinning sem heldur mönnum "föngnum". Fæstir elta ólar við hvert tilvik en geta notið þess í sínum ólíku myndum.
En einnig verður fólk ástfangið á þann veg að það finnur blossa sem verður undanfari langtímaástar. Við tölum um tilhugalíf, samruna (symbiosis, samanber nýfætt barn og móður) sem upphaf kjarnans sem verður eftir þegar nýjabrumið er flosnað af. Fromm segir (1974) að ástin feli í sér fjögur grundvallaratriði: virka umhyggju, ábyrgðarkennd, virðingu og þekkingu.
Í rannsóknum í félagssálfræði, einkum á tengslum foreldris og barns og á makatengslum, hefur verið reynt að skilgreina og mæla ást eða styrk tengsla. Aðferðirnar sem notaðar eru byggjast á því að nota ýmis tilbúin matstæki. Ákveðnar spurningar eru lagðar fyrir með svarskvarða, fólk látið raða upp myndum og fígúrum eða teikna tengslalínur. Þannig er reynt að mæla tíðni eða birtingarform ákveðinna atriða í samskiptum sem þá hafa verið fyrirfram skilgreind sem mælikvarði á ást. Hið klíníska viðtal er einnig notað til að fá fram eðli tengsla og hjálpa fólki til að átta sig sjálft á í hvað mæli tilfinningar þess snúast um ást - eða eitthvað annað henni óskylt, eða skylt og ef til vill jafn mikilvægt.
Þannig er ljóst að ástin er mælanleg í þeim skilningi að þeir sem standa utan ástarsambandsins geta oft greint hana og metið. Einnig má vinna með forsendur hennar og þroska í meðferðarvinnu, með einstaklingum og pörum.
Að lokum er bent á svar sama höfundar, Kemur lauslæti í veg fyrir að maður finni sanna ást?Íslenskt lesefni og mynd
Fromm, Erich, Listin að elska [The art of Loving]. Jón Gunnarsson íslenskaði. Reykjavík: Mál og menning, 1974.
Páll Árdal, Siðferði og mannlegt eðli. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1982.
Sæunn Kjartansdóttir, Hvað gengur fólki til?: Leit sálgreiningar að skilningi. Reykjavík: Mál og menning, 1999.
Myndin er af Gustav Klimt. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
Sigrún Júlíusdóttir. „Hvað er ást? Er hún mælanleg?“ Vísindavefurinn, 22. febrúar 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=136.
Sigrún Júlíusdóttir. (2000, 22. febrúar). Hvað er ást? Er hún mælanleg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=136
Sigrún Júlíusdóttir. „Hvað er ást? Er hún mælanleg?“ Vísindavefurinn. 22. feb. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=136>.