Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver kynslóð er að vísu nýtt lauf á stofninum, hver kynslóð reisir að einhverju leyti nýtt hús á eldra grunni. En giftusamlegt jafnvægi er í því fólgið að vera í senn lauf á stofninum og færa honum meira gróðrarmagn, – að reisa hús sitt á bjargi, en ekki á sandi, og úr ósviknum efniviði, sem kemur framtíðinni að notum.
Svo komst prófessor Sigurður Nordal að orði í ræðu um Sveinbjörn Egilsson, rektor Lærða skólans, sem flutt var 16. júní árið 1946. Sigurður Nordal fæddist að Eyjólfsstöðum í Vatnsdal 14. september 1886. Foreldrar hans voru Björg Sigurðardóttir síðar húsfreyja á Hamri í Svínavatnshreppi, og Jóhannes Nordal síðar íshússtjóri í Reykjavík. Hann ólst upp hjá föðurbróður sínum, Jónasi Guðmundssyni, bónda á Eyjólfsstöðum, og konu hans Steinunni Steinsdóttur. Sigurður varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1906 og lauk meistaraprófi í norrænum fræðum frá Hafnarháskóla 1912. Hann samdi doktorsritgerð sína um Ólafs sögu helga og kom hún út 1914. Hann var styrkþegi Árnastofnunar í Höfn 1913–1916, og síðan úr sjóði Hannesar Árnasonar 1915–1919. Hann stundaði heimspekinám á vegum Hannesarsjóðsins fyrst í Kaupmannahöfn, þá í Berlín sumarið 1916 og loks í Oxford 1917–1918.
Sigurður var kallaður til embættis prófessors í íslenskri málfræði og menningarsögu við Háskóla Íslands 1918 að ráði dr. Björns M. Ólsens, fyrsta rektors Háskólans, sem þá lét af kennslu vegna heilsubrests. Sigurður gegndi embættinu til 1945 en eftir það var hann prófessor í íslenskum fræðum við Háskólann, án kennsluskyldu og aldurstakmarks. Hann kenndi og flutti fyrirlestra um fræði sín víða um lönd, meðal annars var hann prófessor í skáldskap við Harvard-háskóla veturinn 1931–1932. Sigurður var heiðursdoktor við Háskólann og marga erlenda háskóla.
Sigurður Nordal var útgáfustjóri Íslenzkra fornrita 1933–1951, ritstjóri Studia Islandica 1937–1953 og Monumenta typographica Islandica I–V, en meðritstjóri Nelson’s Icelandic Texts og meðútgefandi tímaritsins Vöku 1927–1929.
Sigurður var sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn frá 1951–1957, einkum til að vinna að lausn handritamálsins.
Sigurði Nordal var umhugað um að við Íslendingar „kynnum að tala íslenzku, bæði meðal sjálfra vor og í dýpri skilningi við hvern þann erlendan mann og erlenda þjóð, sem vér eigum við að skipta“. Hann var þjóðernishyggjumaður og lagði rækt við íslenskt mál og íslenska hugsun. Þegar hann kom til starfa við Háskóla Íslands var skólinn ung stofnun og fámenn. Þótt íslensk fræði hafi verið stunduð hér á landi á undan Sigurði Nordal af mönnum eins og Sveinbirni Egilssyni og Birni M. Ólsen var það fyrst með honum, frumleik hans og stílsnilld, að verulega fór að kveða að rannsóknum í íslenskum fræðum við æðri menntastofnanir og áhrifa þeirra að gæta út fyrir landsteinana. Ritskýringar hans og lýsing á þróun íslenskra bókmennta voru um eitt skeið viðteknar þar sem þessi fræði eru stunduð.
Sigurður aðhylltist svokallaða bókfestukenningu um uppruna Íslendinga sagna. Sögurnar ættu ekki uppruna sinn í munnmælum, eins og margir töldu þá og telja enn, heldur væru verk mikilla rithöfunda eins og Snorra Sturlusonar, sem hann áleit að hefði samið Egils sögu Skallagrímssonar. Í ritgerð hans um Snorra, sem var gefin út 1920, koma fram meginhugmyndir hans um íslenskar fornbókmenntir. Á þeim byggðist útgáfa hans á Egils sögu 1933 og ritstjórnarstefna Íslenzkra fornrita. Þróun sagnaritunarinnar og hnignun lýsti hann síðar nákvæmar í Sagalitteraturen (Nordisk kultur VIII b) 1953 og gerði grein fyrir skoðunum sínum á aldri fornsagna.
Sigurður setti saman Íslenzka lestrarbók 1400–1900 árið 1924. Þar birti hann ritgerð sína um samhengið í íslenskum bókmenntum sem er stórsaga íslenskra bókmennta um aldir. Þetta bókmenntasöguyfirlit hafði mikil áhrif og ekki síður val hans á bókmenntaverkum til lestrar því að lestarbókin var notuð í skólum í áratugi.
Sigurður beitti ævisögulegri aðferð við bókmenntaskýringar og átti drjúgan þátt í vinsældum þessarar bókmenntanálgunar hér á landi. Áhugi hans beindist þó einkum að lífernislist og þroska höfundanna og manneðlisfræði verka þeirra. Áhugi hans á lífsstefnu og lífsskoðun kom strax fram í fyrirlestrum þeim, sem hann flutti í Reykjavík nýkominn frá námi í Oxford um Einlyndi og marglyndi. Þar teflir hann fram andstæðum í mannlífinu og manninum og leitar eftir að samræma þær. Heimspekirit hans, Líf og dauði, er sama marki brennt. Skáldaævir hans um Stephan G. Stephansson (1939), Þorstein Erlingsson (1942), Einar Benediktsson (1964) og Hallgrím Pétursson (1970) lýsa fremur andstæðunum í lífi höfundanna og hvernig þeir vinna úr þeim en gerð verka þeirra.
Í fyrirlestri sem Sigurður Nordal flutti um framtíð íslenskrar menningar í Vesturheimi og birtist í Tímariti Þjóðræknisfélagsins 1937 nefndi hann þrjá meginþætti þjóðrækninnar: tunguna, þjóðernisvitundina og menninguna. Sigurður sýndi vald sitt á íslenskri tungu þegar í sögum sínum sem gefnar voru út undir heitinu Fornar ástir árið 1919. Í verkum sínum leitaðist hann við að efla þjóðrækni meðal Íslendinga og eitt helsta verk hans var að lýsa Íslenzkri menningu, jafnvel þótt aðeins kæmi út eitt bindi þess um hans daga (1942).
Halldór Laxness sagði um dr. Sigurð þegar hann varð sextugur:
Á samheingið milli fortíðar og nútíðar annarsvegar, sambandinu milli upplýstrar alþýðu og höfundarins hinsvegar, grundvallast höfundareiginleikar Nordals sjálfs – og um leið ástsældir hans hjá þjóðinni. Sjálfur er hann ekki hvað síst dæmi þessarar tvöföldu líftaugar sem bæði uppiheldur íslenskum bókmenntum og er réttum skilníngi andi þeirra og eðli.
Síðan helstu ritverk Sigurðar voru samin hafa ekki aðeins orðið miklar breytingar á íslensku samfélagi heldur hefur fræðaumhverfið þróast og nýjar leiðir verið farnar í rannsóknum á íslensku máli, bókmenntum og sögu. Mörg helstu verk hans voru skrifuð fyrir lýðveldisstofnunina 1944 og þau bera merki tíma síns. Sigurði Nordal var sjálfum ljóst að fræðimaðurinn „þekkir aldrei nema lítil brot af efninu, skilur þaðan af minna í þessum brotum. Hversu langt mál sem hann ritar, verður það ekki annað en þáttur úr ævisögu hans sjálfs.“ Sigurði var jafnumhugað um efla íslenska menningu í samtíðinni og að breytingarnar í þjóðfélaginu leiddu ekki til menningarrofs. Hann var því ekki aðeins menningarfrömuður heldur einnig varðveislumaður. Áhrifa hans hér á landi gætti því ekki síður í menningarumræðu en rannsóknum og gætir enn. En lengst verður hans líklega minnst sem eins helsta rithöfundar hér á landi á 20. öld.
Mynd:
Úlfar Bragason. „Hver var Sigurður Nordal og hvert var hans framlag til íslenskra fræða?“ Vísindavefurinn, 1. júní 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59646.
Úlfar Bragason. (2011, 1. júní). Hver var Sigurður Nordal og hvert var hans framlag til íslenskra fræða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59646
Úlfar Bragason. „Hver var Sigurður Nordal og hvert var hans framlag til íslenskra fræða?“ Vísindavefurinn. 1. jún. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59646>.