Sókrates lagði áherslu á að sú þekking sem þessi heimspekilega samræða kynni að leiða til væri ekki þekking sem hann byggi sjálfur yfir og miðlaði til viðmælendanna, heldur byggju viðmælendurnir í raun sjálfir yfir þekkingunni og hans hlutverk væri einungis að hjálpa þeim að gera sér hana ljósa. Þess vegna líkti hann heimspekilegri iðju sinni við starf móður sinnar sem var ljósmóðir. Ljósmóðirin leggur ekki til börnin heldur hjálpar hún þunguðum konum að fæða börn sem þær ganga með. Á sama hátt sagðist Sókrates ekki leggja til þekkingu heldur hjálpaði hann viðmælendum að „fæða“ þá þekkingu sem byggi innra með þeim. Að stunda heimspeki, í þessum skilningi, er því fyrst og fremst viðleitni til að hugsa skýrt og grafast fyrir um hvaða þekking kunni að búa innra með manni. Að ná árangri í heimspekilegri iðju í þessum skilningi felst þá í því að vera flinkur að laða fram þekkingu sem fólk býr yfir en gerir sér ekki endilega grein fyrir. Sókratesi var ekki bara líkt við ljósmóður, heldur einnig broddfluga – flugu sem á það til að stinga fólk og valda því óþægindum. Markmið Sókratesar var nefnilega ekki bara að laða fram þá þekkingu sem kynni að búa innra með viðmælendunum, heldur einnig að leggja próf fyrir skoðanir sem fólk hafði til að meta réttmæti þeirra. Markmið Sókratesar með þessari iðju var að afhjúpa ósannar skoðanir. Til að ná árangri sem broddfluguheimspekingur verður maður að vera næmur á hvaða skoðanir eru hæpnar og hafa lag á að láta reyna á áreiðanleika þeirra. Sókrates var einstaklega laginn við að koma auga á veikleika í skoðunum fólks og oftar en ekki enduðu viðmælendur hans á að komast í mótsögn við sjálfa sig – áður en þeir vissu af voru þeir búnir að neita því sem þeir höfðu staðfastlega haldið fram skömmu áður.
Dauði Sókratesar (1787) eftir Jacques-Louis David.
- Já, vegna þess að Sókrates hafði afgerandi áhrif á alla heimspeki á Vesturlöndum og enn í dag er hann fyrirmynd heimspekinga – og margra annarra – um það hvernig stunda eigi heimspeki.
- Nei, vegna þess að heimspekiiðkun hans, ekki síst sá háttur hans að efast um viðtekin sannindi, leiddi til þess að hann var tekinn af lífi og það getur ekki verið að maður hafi náð góðum árangri í einhverju ef það kostar mann lífið – jafnvel þótt fólk sé enn að tala um mann 2500 árum síðar.
- Hvort eru konur eða karlar fremri í heimspeki? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur