Hér er einnig svarað spurningu Loga Helgusonar:
- Hver er uppruni orðsins ljósmóðir?
Orðið ljósmóðir er gamalt í málinu. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans er í Guðbrandsbiblíu sem gefin var út árið 1584. Þar segir í Fyrstu Mósebók (35.17):
Og sem hun þiakadist meir og meir a Sængarførunne / sagde Liosmodurin til hennar ... (1981: Og er hún kom svo hart niður í barnsburðinum, sagði ljósmóðirin við hana: ... .
Sama orð er notað í færeysku ljósmóðir, í nýnorsku ljosmor og í sænskum mállýskum ljosmor eða ljusmor.
Rómverska gyðjan Lûcîna.
Líklegast er talið að uppruna orðsins megi rekja til rómverska gyðjuheitisins Lûcîna. Þessi gyðja hjálpaði konum við fæðingu, dró úr sársauka og sá til þess að allt færi vel. Nafn gyðjunnar er dregið af latneska orðinu lux ‘ljós’, í eignarfalli lûcis, að viðbættu viðskeytinu -îna sem notað var til að búa til kvenmannsnafn eins og vel þekkist í íslensku (Jón–Jónína). Merkingin er þá eiginlega ‘kona ljóssins’ og vísar til þess að ljósmóðirin hjálpar til að koma börnum úr móðurkviði út í ljósið.
Mynd: www.goddesmyths.com