Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
1) Hvað skýrir togstreituna sem nú ríkir milli Rússlands og Úkraínu? 2) Er eitthvað í sögu Rússlands og Úkraínu sem gæti útskýrt spennuna á milli þessara landa?
Það er viss rangtúlkun á samskiptum Úkraínu og Rússlands að segja þau einkennast af „togstreitu“ eða „spennu“. Ásælni Rússa gagnvart Úkraínu er yfirgangur stórríkis gagnvart veikari nágranna, og söguskilningur Vladimírs Pútín Rússlandsforseta sem hann hefur alið á undanfarin ár, er tilraun Moskvuvaldsins til að grafa undan Úkraínumönnum sem þjóð. Hér verður reynt að skýra yfirgang Rússa – ekki litið svo á að um deilu eða togstreitu sé að ræða þar sem báðir aðilar kunni að hafa nokkuð til síns máls.
Í lok árs 1953 sendi miðstjórn Sovéska kommúnistaflokksins frá sér yfirlýsingu í tilefni af því að þrjú hundruð ár voru liðin í janúar 1954 frá örlagaríkum samningi milli Rússakeisara og úkraínska „hetmansins“ – foringja kósakka – Bohdans Khmelnitskís (um 1595-1657). Í samningi þessum fallast kósakkar á að lúta yfirráðum keisarans gegn vernd hans.
Bohdan Khmelnitskí kemur til Kænugarðs. Málverk frá lokum 19. aldar. Bohdan var foringi kósakka og gerði samning við Rússakeisara árið 1654.
Í yfirlýsingu miðstjórnarinnar birtast helstu hugmyndirnar sem nú er haldið á lofti til að réttlæta innrás Rússa í Úkraínu. Þar segir: „Úkraínsk þjóð, sem sprottin er af sömu rót og hin forna rússneska þjóð, er bundin hinni rússnesku ævarandi böndum uppruna, landfræðilegrar nálægðar og sameiginlegrar sögulegrar þróunar enda hefur hún um aldir leitast við að sameinast hinni rússnesku bræðraþjóð.“[1] Sameiningunni er lýst í ljósi sameiginlegrar sigurgöngu þjóðanna undir fána kommúnismans. Það er gagnlegt að hafa yfirlýsingu miðstjórnarinnar til hliðsjónar þegar viðhorf Rússlands til Úkraínu í dag eru greind. Gremjan sem látin er í ljós á æðstu stöðum er yfir vanþakklætinu sem birtist í því að þýðast ekki Rússa. Og þá er við úkraínsk yfirvöld að sakast: Þau séu höll undir fasisma og á valdi hinna sálarlausu og menningarlega snauðu Vesturlanda. Þau afvegaleiði fólkið – og haldi því í gíslingu.
Bæði Rússar og Úkraínumenn rekja upphaf ríkja sinna til Garðaríkis sem á níundu öld tók á sig mynd á bökkum fljótsins Dnipro. Volodymyr sem tók þar við völdum 972 kom á kristni meðal hinna slavnesku þjóðflokka á svæðinu sem játuðust Austurkirkjunni á hönd. Á elleftu öld taka völd að dreifast á fleiri furstadæmi frá Galisíu í vestri og til Vladimir og Suzdal í austri og síðar Moskvu. Kænugarður – Kyiv er hin menningarlega miðstöð. Það breytist með innrás Mongóla á 13. öld. Kyiv fellur 1240 og þar með er eining svæðisins úr sögunni. Yfirráð Mongóla birtast með ólíkum hætti í sögulegu minni austur- og vesturhlutans. Rússnesk sagnaritun hefur jafnan gert mikið úr mongólskri harðstjórn, en í vestri, á því svæði sem nú heyrir undir Úkraínu eru spor Mongóla grynnri.
Eftir brotthvarf Mongólanna styrkist Moskvufurstadæmið jafnt og þétt en vestursvæðið kemst undir pólsk og litháísk yfirráð. Samfélagsþróun næstu alda innan Úkraínu einkennist af stöðu samfélagsins á milli þriggja ríkisheilda – Ottómanveldisins sunnan Svartahafs, Pólsk-Litháíska konungdæmisins í vestri og norðri og Moskvuveldisins í austri – en á steppum Úkraínu birtast kósakkar sem forystuafl án þess þó að mynda eiginlegt ríki. Þeir ná valdastöðu sem gerir ríkjandi öflum ómögulegt að leiða þá hjá sér.
Þróun kirkjunnar í Úkraínu er hluti valdataflsins því þar mætast Vestur- og Austurkirkjan. Sameiningartilraunir skila sér í grísk-kaþólsku kirkjunni. Hún verður til þegar margir biskupar úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar, sem vildu losna undan ásælni nýs patríarka í Moskvu, gangast páfa á hönd en fá þó að halda kirkjusiðum rétttrúaðra. Þessi umbreyting kirkjunnar endurspeglar pólitísk bandalög frekar en trúarlegan ágreining.
Mikil uppreisn kósakka hófst 1648 undir forystu Bohdans Khmelnitskís. Í bandalagi við Krímtatara styrktu kósakkar stöðu sína. Khmelnitskí gerði innreið í Kænugarð og lagði drög að nýju ríki. En það varð ekki langlíft og tilraunir hans til að ná samningum við pólsku furstadæmin mistókust. Í vandræðum sínum enduðu kósakkar með því að gera samning við Moskvukeisarann Aleksei Romanov árið 1654 – samning sem síðar var dásamaður sem staðfesting endurreisnar hins sameiginlega ríkis. Ófriður einkenndi næstu áratugi en síðasta uppreisn kósakka innan rússneska ríkisins braust út 1708 undir forystu Ivans Mazepa sem samið hafði við Karl XII. Svíakonung. Eftir hrakfarir hans fyrir Pétri mikla í orrustunni við Poltava 1709 voru kósökkum flestar bjargir bannaðar. Katrín mikla batt þá endanlega á klafa hins rússneska ríkis. 1783 innlimuðu Rússar ríki Krímtatara og lögðu þar með grundvöll að yfirráðum sínum í Úkraínu næstu aldir.
Úkraínsk sjálfstæðishreyfing varð til í framhaldi af Napóleonsstríðum og óx á 19. öld samhliða pólskri sjálfstæðisbaráttu. Taras Shevtsjenko (1814-1861) telst ein helsta hetja úkraínskrar sjálfstæðisbaráttu. Myndin er póstkort sem sýnir gröf Taras, krossinn var fjarlægður af gröfinni á þriðja áratugi 20. aldar.
Úkraínsk sjálfstæðishreyfing varð til í framhaldi af Napóleonsstríðum og óx á 19. öld samhliða pólskri sjálfstæðisbaráttu. Forystumenn í menningarlífi léku stórt hlutverk – þar á meðal Taras Shevtsjenko (1814-1861), sem í dag telst ein helsta hetja úkraínskrar sjálfstæðisbaráttu. Viðbrögð keisarastjórnarinnar voru meðal annars að banna úkraínsku á opinberum vettvangi. Slíkum hömlum var aflétt eftir byltinguna 1905. Eftir byltingarnar tvær 1917 var unnið ötullega að sjálfstæðu úkraínsku ríki en um tíma naut Úkraína verndar Þjóðverja og Austurríkismanna. Þeir sömdu í Brest-Litovsk 1918 við bolsévíka sem afsöluðu sér tilkalli til stórra landsvæða, þar á meðal Úkraínu. Eftir hræringar fram og til baka náðu bolsévíkar loks vopnum sínum í Úkraínu 1921 og í lok árs 1922 varð Úkraína eitt stofnlýðvelda Sovétríkjanna.
Tímaskeiðinu sem Úkraína var hluti Sovétríkjanna má skipta í tímabil Úkraínuvæðingar og Rússlandsvæðingar. Á þriðja áratugnum voru sovésk yfirvöld áfram um að koma til móts við hugmyndir fólks um að byggja upp úkraínska þjóðmenningu – úkraínska væri töluð á opinberum vettvangi, skólar gætu haldið upp kennslu á úkraínsku. Þetta, ásamt efnhagslegri uppbyggingu á svæðum utan hins rússneska meginstraums, var kallað „rótarstefna“ (коренизация). Frá sjónarmiði Stalíns var Úkraína krúnudjásn Sovétríkjanna. Hún skyldi verða fyrirmynd annarra sovétlýðvelda á sviði iðnvæðingar. En þjóðmenning átti þar lítið erindi – ofsóknir á hendur fólki í menningarlífinu hófust 1929 og héldu áfram með hléum allt til dauða Stalíns 1953. Samyrkjuvæðing landbúnaðarins leiddi til hroðalegrar hungursneyðar fyrst vorið 1932 og svo hálfu verri 1933 þegar stjórnvöld létu hreinlega tæma helstu landbúnaðarhéruð af korni og matvælum. Fjórar milljónir manna lágu í valnum. Í dag er litið svo á að hungursneyðin hafi ekki aðeins átt rætur í misheppnaðri landbúnaðarstefnu heldur verið kerfisbundin útrýming bændastéttarinnar í Úkraínu. Eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk voru aðstæður í Úkraínu skelfilegar og á árunum 1946 til 1947 geisaði aftur hungursneyð í Suður-Úkraínu og um ein milljón manna lét lífið. Á síðustu æviárum Stalíns var enn á ný ráðist gegn rithöfundum og menntafólki í Úkraínu (eins og reyndar víðar um Sovétríkin) en í Úkraínu var ásökunin um þjóðernishyggju jafnan efst á lista stjórnvalda.
Í dag er litið svo á að hungursneyðin í Úkraínu 1932-33 hafi ekki aðeins átt rætur í misheppnaðri landbúnaðarstefnu heldur verið kerfisbundin útrýming bændastéttarinnar í Úkraínu. Myndin sýnir hungurmorða bændur á götum Kharkiv árið 1933.
Eftir dauða Stalíns tók Nikita Khrusjov við leiðtogahlutverkinu. Hann hafði áður leitt úkraínska kommúnistaflokkinn og jók áhrif hans innan miðstjórnar Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Þíðan svokallaða sem stjórnarstefnu Khrúsjovs fylgdi gerði úkraínskum forystumönnum kleift að auka veg úkraínsku og úkraínskrar menningar í opinberum stofnunum Úkraínu á ný, þar á meðal skólakerfinu. Þessi þróun hélt áfram undir forystu Petro Shelest (1908-1996) sem leiddi Úkraínska kommúnistaflokkinn allan sjöunda áratuginn. Jafnvel þótt þíða Khrúsjovs tæki enda þegar Leonid Brezhnev tók við forystu sovéska kommúnistaflokksins, var þjóðlegur kommúnismi áfram við lýði í Úkraínu, allt til 1972, þegar Politburóið í Moskvu svipti Shelest völdum. Í hans stað kom skjólstæðingur Brezhnevs, Volodymyr Scherbitskí (1918-1990) sem á næstu árum sneri aftur til Rússlandsvæðingar. Úkraínskum skólum var lokað, dregið úr útgáfu á úkraínsku og herör skorin upp gegn þeim sem taldir voru ganga erinda úkraínskrar þjóðernishyggju. Næsta tækifæri Úkraínu beið perestrojkuáranna – þegar Mikhail Gorbatsjov var kominn til valda í Moskvu og hömlum var létt af endurreisn þjóðmenningar ekki bara í Úkraínu heldur um öll Sovétríkin.
Í mælskulist Pútíns felst afneitun á margra alda baráttu Úkraínufólks fyrir sjálfsögðum réttindum og sjálfstæðri ríkisheild. Þegar haldið er fram sögulegum rétti Rússa yfir austur- og suðurhéruðum Úkraínu gleymist að flókið þrátafl ólíkra aðila var undanfari rússneskra yfirráða ekki sögulegar sættir. Þetta gildir ekki síst um samning Khmelnitskís og Rússakeisara 1654, sem í stað þess að færa kósökkum vernd og sjálfstæði var upphafið að Rússlandsvæðingu úkraínskra landa. Þegar Pútín notar heiti eins og „Litla Rússland“ (Малороссия) um Austur-Úkraínu og „Nýja Rússland“ (Новороссия) um Suður-Úkraínu beitir hann tungutaki nýlendukúgarans. Skýrast birtist sú afstaða í þeirri greiningu hans á „Úkraínu“ að orðið vísi til „jaðarsvæða“ frekar en til lands eða þjóðernis og „Úkraínumenn“ séu því þeir sem gættu slíkra svæða. Úkraína er ekki til.
„Það var ekki bara afleiðing pólitískra og diplómatískra ákvarðana að rússnesk lönd í vestri voru sameinuð í einu ríki“ segir Pútín. „Sameiginleg trú og menningarlegar hefðir ásamt ... nánum skyldleika tungumála lágu að baki sameiningunni.“[2] Hrakfarir Úkraínufólks túlkar hann sem sigurgöngu rétt eins og miðstjórn kommúnistaflokksins áður. Það er ekki alveg út í hött að sú mynd sem Úkraína tók á sig eftir hrun Sovétríkjanna feli í sér hið fullkomna – póetíska – réttlæti. Úkraínu var hampað innan Sovétríkjanna og alið á hugmyndum um hana sem sýningarskáp hinnar sovésku uppbyggingar. En til að ná því markmiði þurfti bæði að sameina Úkraínu alla – og viðurkenna þar með í raun einingu hennar sem ríkis – og beita Úkraínufólk hrottafenginni kúgun. Fyrir bragðið átti Úkraína sín sovésku landamæri skuldlaust eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur. Rússland hafði ekki á þeim tíma burði til að tæta landið í sundur. Það er þetta glataða tækifæri sem er uppspretta gremju Vladimirs Pútíns og orsök öfugsnúinnar mælskulistar hans. Þess vegna eru sjónarmið hans ekki annað en óbilgjarnar kröfur byggðar á rangtúlkun sögunnar.
Tilvísanir:
Roman Adrian Cybriwsky. Kyiv, Ukraine: The City of Domes and Demons from the Collapse of Socialism to the Mass Uprising of 2013 - 2014. Amsterdam: Amsterdam University Press, 2016.
Taras Kuzio. Ukraine: Perestroika to Independence. New York, NY: St. Martin’s Press, 2000.
Lubomyr Luciuk og Lisa Grekul, ritstj. Holodomor: Reflections on the Great Famine of 1932-1933 in Soviet Ukraine. Kingston, Ont: Kashtan Press, 2008.
Serhii Plokhy. The Gates of Europe: A History of Ukraine. New York: Basic Books, 2015.
Ukraine and Russia: Representations of the Past. Toronto; Buffalo: University of Toronto Press, 2008.
Ivan L Rudnytsky og John-Paul Himka, ritstj. Rethinking Ukrainian History. Edmonton: Canadian Institute of Ukrainian Studies, University of Alberta, 1981.
Orest Subtelny. Ukraine: A History. Toronto: University of Toronto Press, 2009.
Jón Ólafsson. „Hvað skýrir togstreituna sem nú ríkir milli Rússlands og Úkraínu?“ Vísindavefurinn, 24. febrúar 2023, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83079.
Jón Ólafsson. (2023, 24. febrúar). Hvað skýrir togstreituna sem nú ríkir milli Rússlands og Úkraínu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83079
Jón Ólafsson. „Hvað skýrir togstreituna sem nú ríkir milli Rússlands og Úkraínu?“ Vísindavefurinn. 24. feb. 2023. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83079>.