Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér skal reynt að gera samanburð á ólíkum eiginleikum Mongóla og Kínverja á 9.-13. öld, þá einkum hvað varðar lífsviðurværi, umhverfi og menningu.
Eins og flestar þjóðir í norðurhluta Austur-Asíu voru Mongólar hirðingjar sem fluttu sig stöðugt á milli staða til að tryggja aðgang búfénaðar að góðum graslendum. Til eru óstaðfestar kenningar um að veðurfarsbreytingar með kólnandi veðri á síðustu áratugum 12. aldar hafi neytt Mongóla til að færa út kvíarnar og leita nýrra svæða til búsetu, í fyrsta skipti sem sameinaður þjóðflokkur undir Chinggis Khan[1] árið 1206. Sé það rétt er þó ekki ljóst hvers vegna þeir héldu ávallt lengra í suður og ekki síður vestur á bóginn. Þessi hefðbundna hirðingjaþjóð virðist á einhverjum tímapunkti hafa komist upp á lag með að ræna og rupla í hernaðaraðgerðum.
Svona kann Chinggis Khan, frægasti leiðtogi Mongóla, að hafa litið út. Þessi endursköpun var hluti af sýningu ArtScience Museum í Singapúr árið 2011.
Hafi veðurfarsbreytingarnar átt þátt í þessari þróun virðast þær ekki hafa haft nein sambærileg áhrif á Kínverja, enda voru þeir að langmestu leyti bændaþjóð með fasta búsetu. Hins vegar höfðu miklir búferlaflutningar Kínverja suður á bóginn þegar hafist á 9. öld. Í fyrstu var helsta ástæða þeirra líkast til sú að fólk leitaði betri lífsskilyrða, því suðurhluti Kína, einkum við árósa Yangzi-árinnar, er afar heppilegur til jarðræktar. Þegar komið er fram á 10. og 11. öld jukust flutningarnir verulega, en þá vegna aukins ágangs hirðingjaþjóða að norðan. Hér var einkum um að ræða þjóðirnar Kítana, Tangúta og Djúrhena (einnig nefndir Ruzhen) sem þrengdu mjög að Kínverjum. Árið 1127 misstu Kínverjar stór svæði í norðri til Djúrhena og þótt sumir Kínverjar hefðust áfram við á þessum slóðum undir djúrhenskum yfirráðum fluttu hundruð þúsunda suður á bóginn. Höfuðborg Kínverja var jafnframt flutt frá Kaifeng um 800 kílómetra suður til Hangzhou. Á þessum tíma víkkuðu Kínverjar talsvert út veldi sitt í suðri og vestri frá því sem áður var, en gjöfulu jarðræktarhéröðin sem þeir lögðu undir sig þá virðast hafa nægt þeim að sinni og þeir ekki séð þörf fyrir að ráðast í frekari landvinninga.
Athyglisvert er að Kínverjar voru mörgum sinnum fjölmennari en hirðingjaþjóðirnar í norðri, þar á meðal Mongólar, en hörfuðu samt undan þeim eða voru sigraðir af þeim. Nærtækustu skýringarnar á þessu virðast af menningarlegum toga. Bent hefur til dæmis verið á að áhrif konfúsíanisma, sem almennt var mjög andsnúinn hernaði, hafi haft mikil áhrif á stjórnarstefnu Kínverja. Það gildir vafalaust ekki síst fyrir þennan tíma, veldistíma Song-ættarinnar (960-1272), þegar endurreisn konfúsíanískrar heimspeki átti sér stað og embættismannapróf á grundvelli hennar urðu ráðandi fyrir stöðuveitingar í stjórnsýslukerfi Kínverja.
Stytta af hugsuðinum Konfúsíusi, Hunan, Kína.
Samkvæmt verðmætamati konfúsíanisma var hernaður ekki samboðinn siðmenntuðum mönnum. Áherslan var þvert á móti á helgiathafnir, siðfágun og stjórn á grundvelli dygða sem ættu að vera öðrum þjóðum fordæmi. Í stað þess að leggja aðrar þjóðir undir sig með hernaði var áherslan því fremur lögð á að laða þær að kínverskum siðum og lifnaðarháttum, á vissan hátt að „Kínavæða“ þær. Þess vegna var kínverska hernum að mestu beitt í varnarskyni. Flestir hermenn voru erlendir málaliðar sem gaf ekki alltaf góða raun þar sem hvati þeirra til að leggja sig fram við varnir landsins var skorinn við nögl.
En þótt Kínverjar hafi þurft að hopa í norðri á þessum tíma höfðu þeir þegar hafist handa við að leggja undir sig stór svæði í suður- og vesturhluta Kína þar sem aðrar þjóðir höfðu búsetu. Þessar þjóðir urðu um leið innlimaðar í kínverska keisaraveldið og hluti þeirra 56 þjóðarbrota sem byggja Kína í dag. Keisaraveldið var þannig í raun og veru fjölþjóðlegt heimsveldi sem fór smám saman stækkandi. Nokkrum öldum síðar áttu eftir að bætast við önnur svæði sem áður höfðu verið á útjaðri Kínaveldis, svo sem Mongólía, Mansjúría, Tíbet og Xinjiang. Útþenslustefnan var þannig vissulega til staðar en hún teygði sig ekki jafn víða og jafn hratt og í tilviki Mongóla, sem ríktu yfir gríðarlega stóru svæði í Evrasíu á 13. og 14. öld.
Veldi Mongóla þegar mest lét um miðja 13. öld.
Mongólaveldið kann að hafa verið stórt en það var óstöðugt og frekar skammlíft. Það reyndist erfitt að hafa yfirsýn yfir stjórnsýslu veldis sem var svo víðfeðmt og margbrotið, auk þess sem Mongólar voru fáir og þurftu að treysta á aðra til að sinna stjórnsýslunni fyrir sig. Þegar árið 1368 hnekktu Kínverjar yfirráðum Mongóla þar í landi og fljótlega tók Mongólaveldið að liðast í sundur. Umfang þess dróst saman víðast hvar annars staðar, þótt afsprengi þess hafi raunar enn verið að finna í Múgal-veldinu á Indlandi á átjándu öld.
Tilvísun:
^ Oft ritað Genghis Khan. Það er persnesk umritun á nafninu sem náði útbreiðslu á Vesturlöndum vegna þess að áhrifamestu heimildirnar komu þaðan. Mongólsk umritun er Chinggis Khan.
Heimildir:
Fairbank, John King og Merle Goldman. China: A New History. Cambridge, Mass. og London: The Belknap Press of Harvard University Press, 2006.
Hansen, Valerie. The Open Empire. A History of China to 1600. New York og London: W.W. Norton, 2000.
Rossabi, Morris. The Mongols. A Very Short Introduction. Oxford: Oxford University Press, 2012.
Geir Sigurðsson. „Hverjar voru helstu ástæður þess að Mongólar urðu að heimsveldi á miðöldum en ekki Kínverjar?“ Vísindavefurinn, 7. júní 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81746.
Geir Sigurðsson. (2021, 7. júní). Hverjar voru helstu ástæður þess að Mongólar urðu að heimsveldi á miðöldum en ekki Kínverjar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81746
Geir Sigurðsson. „Hverjar voru helstu ástæður þess að Mongólar urðu að heimsveldi á miðöldum en ekki Kínverjar?“ Vísindavefurinn. 7. jún. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81746>.