Ghenghis Kahn, eða Temüjin eins og hann hét áður en hann varð keisari, fæddist einhvern tímann á árunum milli 1155 og 1167. Margt er óljóst um fæðingu hans og fyrstu æviár en sögurnar sem voru skrifaðar um hann eru ævintýri líkastar og ber að taka þeim með fyrirvara. Í einni frásögninni er til dæmis sagt frá því að hann hafi fæðst með blóðuga tusku í hendinni og í annarri er sagt að forfaðir hans hafi verið grár úlfur. Á þessum tíma var mongólska ríkið klofið og hirðingjaættbálkar börðust um völdin. Samsæri og svik í samskiptum ættbálkanna voru daglegt brauð og ófriður var mikill. Þegar Temüjin var níu ára var eitrað fyrir föður hans sem var höfðingi ættbálksins Borjigin. Morðingjarnir voru úr öðrum ættbálki sem hét Tartar og var mikið hatur milli ættbálkana tveggja. Fjölskylda ein í ættbálk Temüjin hrifsaði til sín völdin og fjölskylda hans var þvinguð til að lifa við sult og seyru. Þrátt fyrir þetta harðræði sýndi Temüjin snemma óvenjulega hæfileika. Hann naut mikilla vinsælda og var snjall að fá fólk í lið með sér. Smám saman byggði Temüjin upp ættbálkinn á ný og safnaði mörg þúsund manna herliði. Þetta var upphafið að stórveldi Ghenghis Khans. Temüjin barðist af hörku og hver ættbálkurinn á fætur öðrum varð að játa sig sigraðan. Hann fullvissaði sig alltaf um að enginn í óvinahernum væri á lífi eftir bardagann til að tryggja að enginn væri eftir til að gera uppreisn gegn honum. Foringjarnir í óvinaættbálknum voru nær undantekningarlaust drepnir en fólkið sjálft var gert að hermönnum og þjónum. Temüjin fékk á sig orð fyrir að vera bæði grimmur og miskunnarlaus. Þegar hann var í stríði gegn óvinum sínum í Tartara-ættbálkinum drap hann til dæmis alla sem voru hærri en öxull á vagni. Smátt og smátt sameinuðust ættbálkarnir undir stjórn Temüjins og árið 1206 var hann gerður að keisara, eða Khan, yfir öllum ættbálkum Mongóla. Þá tók Temüjins sér nafnið Ghenghis sem trúlega þýðir alþjóðlegur. Þó að hirðingjaættbálkarnir væru sameinaðir undir hans stjórn vildi Ghenghis Khan stækka ríki sitt enn frekar og her Mongóla vígbjóst. Fyrst gerðu ríðandi bogaskyttur árásir á borgir en fljótlega komst herinn upp á lag með að hertaka borgir með valslöngvum sem skutu örvum og steinum og með stigum, grjótkasti og eldsprengjum. Genghis Kahn var slunginn skipuleggjandi. Hann var hreyfanlegur, markviss og miskunnarlaus og lagði þannig grunninn að hernaðarsigrum sínum. Ruddaskapur, miskunnarleysi og grimmd Mongólanna var alræmd. Margir hræddust þá svo mjög að þeir lögðu heldur niður vopn sín en að hætta á að berjast við heri Ghenghis Khans. Að hertaka Kína var helsta markmið Ghenghis Khans. Árið 1215 hertók hann Peking en landvinningáformunum lauk ekki með því. Genghis Kahn hélt áfram að berjast þangað til hann lést árið 1227. Síðasta stríðið sem hann háði var í konungsríkinu Hsi Hsia árið 1226 til 1227 en það lá á því svæði sem nú er Norðvestur-Kína. Á þessum tíma náði ríki Mongóla alla leið frá Peking til Kaspíahafs. Genghis Khan sá og lærði margt á þessum herferðum sínum sem hann vissi ekki áður eins og til dæmis að til væri ritmál, borgarskipulag og skattlagning. Kúblai Khan var fjórði sonur Tolui, sem var yngsti sonur Ghenghis Khans og eftirlætiseiginkonu hans. Kúblai Khan fæddist árið 1215 en hóf ekki þátttöku í landvinningum Mongóla fyrr en hann varð 35 ára. Bróðir hans Möngke sem var keisari eða khan lést árið 1259 og Kúblai Khan sætti lagi og tók völdin í ríkinu þó að fleiri í ættinni hugsuðu sér að ná hásætinu. Deilan um hásætið stóð allan tímann meðan Kúblai var Khan. Ýmsum ættingjum hans mislíkaði að hann hafði snúið baki við hirðingjalífinu sem einkenndi Mongólíu og tekið upp kínverska siði í staðinn. En Kúblai Khan sýndi lítinn áhuga á því að snúa aftur til hirðingjalífsins. Áður en Kúblai Khan komst til valda höfðu Mongólar sótt fram allt að landamærum Ungverjalands og Póllands og reynt að ná Sung-héraði í Suður-Kína á sitt vald. Hann ákvað að halda baráttunni áfram og freista þess að ná yfirráðum yfir öllu Kína. Það tók allmörg ár að ná valdi á Sung-héraði en árið 1279 tókst það að lokum og Kína var þá allt undir stjórn Kúblai Khan. Þá sætti hann lagi og sameinaði Kína sem hafði áður verið sundrað. Kúblai Khan, eða „Hinn vísi Khan“ eins og Mongólarnir kölluðu hann, ákvað árið 1271 að keisaraætt hans ætti að heita Ta Yüan sem mætti útleggja á íslensku sem „hið mikla upphaf“. Hann hafði aðsetur í Peking sem á þessum tíma hét Ta-tu sem þýðir borgin stórkostlega. Hann ríkti einnig yfir Suður-Rússlandi, Il-Khanid í Persíu í núverandi Íran, Mongólíu og Kína. Kúblai Khan áttaði sig á því að Kínverjarnir voru að sumu leyti komnir lengra en Mongólar, sérstaklega í stjórnsýslu og fræðimennsku. Kúblai Khan valdi sér ráðgjafa úr hópi hæfileikaríkra manna og komu margir þeirra frá Evrópu. Til dæmis var hinn frægi landkönnuður Marco Polo frá Feneyjum í hópi ráðgjafa Kúblai Khans. Stjórnarhættir urðu í kjölfarið með öðru og mannúðlegra sniði en þegar Ghengis Khan var við völd. Kúblai Khan skipaði til dæmis herforingjum sínum að sýna þeim náð sem þeir unnu sigur á í bardögum. Kúblai Khan þótti virðulegur og hann naut vinsælda meðal þeirra þjóða sem hann hertók. En hann stóð frammi fyrir miklum vanda. Áttu Mongólar að samlagast menningu Kínverja og tapa sinni eigin menningu og mongólskum siðum? Áttu embættismenn stórveldisins að sjá um samskiptin við Kínverjana? Kúblai Khan fannst hann taka áhættu ef hann samlagaðist Kínverjum ekki og hann var hræddur um að hann myndi missa völdin í kjölfarið. Honum fannst sem valið stæði milli þess að tapa menningu Móngóla eða missa völdin og fann aldrei leið til lausnar á þessu vandamáli. Smátt og smátt urðu kínverskir þegnar Kúblai Khan óánægðir með stjórn hans. Þeim fannst þeir vera fátækir og kúgaðir en Mongólar og embættismennirnir nytu forréttinda. Sú eyðslusemi sem viðgekkst undir stjórn Kúblai Khan og fjárhagsóreiðan sem fylgdi í kjölfarið er sennileg skýring á uppreisninni sem var gerð í Kína á fjórtándu öld og varð stórveldi Móngóla að falli. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig í ósköpunum hefur Mongólía getað haldið landamærum í öll þessi ár á móti Rússlandi í norðri og Kína í suðri? eftir Gísla Gunnarsson
- Ýmis vefsetur um Ghenghis Khan og Kúblai Khan. Sjá til dæmis Britannica Online
- Söguatlas Máls og menningar. Reykjavík, 2001.