Raunar er einnig að finna mongólskar þjóðir í Rússlandi norðan við núverandi Mongólíu. Þekktastir þeirra eru sennilega Búrjat-Mongólar við Bækalvatn sem eiga þar eigið sjálfstjórnarsvæði. Í kjölfar rússnesku byltingarinnar 1917 var núverandi Mongólía um tíma aðsetur rússneskra hersveita sem börðust gegn bolsévíkum. En um 1920 náðu rússneskir bolsévíkar þar yfirhöndinni. Þeir skipulögðu og komu til valda flokki sem var nánast fullkomin hliðstæða sovéska kommúnistaflokksins. Þessi flokkur, Byltingarflokkur Mongólíu, var síðan einráður í landinu frá 1923 þangað til kommúnisminn hrundi í Sovétríkjunum 1989-1991. Byltingarflokkurinn var sovéska herraflokknum hlýðinn í öllu og fylgdi stefnu hans í öllum málum. Á móti tryggðu Sovétríkin formlegt sjálfstæði Mongólíu sem einkum var mikilvægt gagnvart Kínverjum og tryggði íbúana gegn innflutningi þeirra í landið. Ef Rússar höfðu eða hafa hins vegar nóg af einhverju þá er það landrými, og þeir ágirntust ekki eyðilegar gresjur og eyðimerkur Mongólíu sem studdi Sovétríkin í þeim efnum sem skiptu yfirvöld þar máli: Gagnvart Kína og í hernaðarmálum öllum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna varð Kína aldrei heimsveldi eins og Rómaveldi? eftir Gísla Gunnarsson