Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um Vladimír Pútín?

Jón Ólafsson

Vladimír Pútín var lítt þekktur maður í rússnesku samfélagi þegar hann tók við forsetaembætti af Boris Jeltsín í lok árs 1999, 47 ára gamall. Starfsferill hans hafði að mestu verið innan Öryggismálastofnunar ríkisins (KGB), en um nokkurra ára skeið starfaði hann við hlið hins frjálslynda Anatolís Sobtsjaks sem var borgarstjóri í Pétursborg frá 1991 til 1996.

Í Pétursborg fékk Pútín orð á sig fyrir hollustu og heiðarleika – eiginleika sem sjaldan fara saman í samfélagi jafntröllriðnu af skipulagðri glæpastarfsemi og Rússland var á tíunda áratug síðustu aldar. Hann var kallaður til starfa í Kreml árið 1996. Tveimur árum síðar hafði hann tekið við stöðu forstjóra Rússnesku öryggislögreglunnar (FSB) þar sem hann starfaði í eitt ár en vorið 1999 skipaði Jeltsín hann forsætisráðherra.

Vladimír Pútín árið 2002, með Altynbek Sarsenbaiuly sendiherra Kasakstans.

Þegar leið að lokum forsetatímabils Jeltsíns gerðust menn forsetans áhyggjufullir því ekki hafði tekist að finna sigurstranglegan frambjóðanda sem uppfyllti væntingar elítunnar. Sagan segir að Boris Berezovskí, auðjöfur og á þeim tíma valdamikill í Rússlandi, hafi fyrstur fleytt þeirri hugmynd að Pútín kynni að vera rétti maðurinn til að taka við embætti Jeltsíns. Svo fór að Jeltsín sagði af sér embætti þremur mánuðum áður en tímabil hans rann út og gerði Pútín að starfandi forseta fram að kosningum, sem hann síðar sigraði með yfirburðum.

Allt frá því að hann tók við embætti hefur Pútín verið ótvíræður leiðtogi Rússlands. Vinsældir hans hafa oftast verið yfir 60% og farið hæst í tæp 90%. Árið 2008, þegar Pútín hafði setið í tvö kjörtímabil sem forseti, kom ákvæði rússnesku stjórnarskrárinnar í veg fyrir að hann gæti boðið sig fram í þriðja sinn í röð. Studdi hann þá forsetaframboð aðstoðarmanns síns Dmitrí Medvedevs og tók sjálfur við embætti forsætisráðherra, sem hann gegndi til ársins 2012. Það ár bauð Pútín sig fram til forseta í þriðja sinn og sigraði örugglega.

Fyrstu tvö kjörtímabil sín í embætti sóttist Pútín eftir samstarfi við einstaklinga með fjölbreyttan pólitískan bakgrunn og leitaðist við að halda vandasömu jafnvægi á milli íhaldssamra afla annars vegar og frjálslyndra hins vegar. Á meðan hann gegndi embætti forsætisráðherra mátti þó greina hægfara viðhorfsbreytingu sem kom glögglega í ljós eftir að hann hafði að nýju tekið við forsetaembætti vorið 2012. Veturinn áður hafði óánægja vegna spillingar í stjórnmálum og atvinnulífi farið ört vaxandi og mótmælahreyfing lét að sér kveða á götum Moskvu. Fjölmennur útifundur var haldinn daginn sem Pútín tók aftur við forsetaembættinu þar sem óeirðalögregla gekk hart fram gegn mótmælendum. Hundruð manna voru handtekin og nokkrir tugir einstaklinga síðar ákærðir fyrir óspektir og ofbeldi. Í kjölfar þessara atburða hefur stefna stjórnvalda stöðugt orðið íhaldssamari, en frjálslyndir hópar og einstaklingar hafa jafnvel sætt ofsóknum.

Það má því segja að Vladimír Pútín hafi breyst umtalsvert á þeim tíma sem hann hefur verið forseti og forsætisráðherra Rússlands. Í bókinni Andlitslausi maðurinn bendir Masha Gessen á að í raun hafi enginn vitað nokkuð um Pútín sem máli skipti þegar sú skyndilega ákvörðun var tekin að útnefna hann eftirmann Jeltsíns. Traustið sem hann hafði áunnið sér sem embættismaður var ekki fyrir skýra sýn eða merkilega framgöngu heldur fyrir samviskusemi, heiðarleika og þó umfram allt hollustu.

Pútín tekur við embætti forseta Rússlands í þriðja sinn árið 2012.

Fyrstu tvö kjörtímabil Pútíns sýndu að hann lagar sig að aðstæðum og er fær um að vinna þannig úr flóknum málum að þróun þeirra verði honum hagfelld síðar. Andúðin á Vesturlöndum, sem vart hefur orðið í málflutningi hans í auknum mæli á löngu tímabili, er að hluta í samræmi við samfélagsþróun í Rússlandi, en að hluta má tengja hana við strategíska sýn hans á forsetaembættið og alþjóðlegt hlutverk Rússlands. Pútin er ekki mótaður af pólitískri hugmyndafræði á nokkurn sambærilegan hátt og sovéskir leiðtogar voru en sú sannfæring hans að hrun Sovétríkjanna hafi verið harmleikur og að Rússland þurfi að endurheimta áhrif og vægi Sovétríkjanna hefur hvað eftir annað birst í ræðum hans og opinberum yfirlýsingum.

Eftir að Rússar hernámu Krímskaga og hófu að kynda undir ófriði í austurhluta Úkraínu vorið 2014, hafa vestrænir ráðamenn, álitsgjafar og fjölmiðlar birt fjölbreytilegar greiningar á hugarheimi Pútíns. Angela Merkel, kanslari Þýskalands á að hafa sagt að Pútín hefði tapað öllu veruleikaskyni, eftir símtal þeirra í mars 2014. Áberandi andstæðingur Pútíns, þrautreyndur í rússneskri pólitík, Boris Nemtsov, hefur haldið því fram að Pútín láti áróðursmarkmið stjórna öllum málflutningi sínum. Stuðningsmenn Pútíns halda því hins vegar fram að hann hafi birst sem bjargvættur landsins þegar allt stefndi í óefni og að lífskjör þau sem Rússar búa við í dag og árangur sem náðst hafi í landinu hefði verið óhugsandi án leiðtoga sem hans.

Hvort tveggja er þó sennilega jafnrangt, lofið og lastið. Pútín hefur sýnt sig að því að lesa pólitísk tækifæri úr flókinni taflstöðu. Þessi eiginleiki er eitt af því sem hefur tryggt völd hans innan rússneska stjórnkerfisins og hann virðist sannfærður um að sama gildi um hráskinnaleik austurs og vesturs sem magnaðist upp með Úkraínudeilunni vorið 2014. Þannig getur enginn fullyrt að Pútín hafi tapað veruleikaskyninu fyrr en að leikslokum.

Heimildir:
  • Masha Gessen (2012). The Man without a Face. The unlikely Rise of Vladimir Putin. London: Riverhead.
  • Anna Politkovskaja (2009). Rússland Pútíns. Ísl. þýðing Elín Guðmundsdóttir. Reykjavík: Urður bókafélag.
  • Putin, Russia and the West. (2012). BBC 2. Heimildamynd í fjórum hlutum.

Myndir:

Höfundur

Jón Ólafsson

prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands

Útgáfudagur

9.1.2015

Spyrjandi

Rósa J. Daníelsdóttir f. 1995, Magnús Snær Árnason

Tilvísun

Jón Ólafsson. „Hvað getið þið sagt mér um Vladimír Pútín?“ Vísindavefurinn, 9. janúar 2015, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=28941.

Jón Ólafsson. (2015, 9. janúar). Hvað getið þið sagt mér um Vladimír Pútín? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=28941

Jón Ólafsson. „Hvað getið þið sagt mér um Vladimír Pútín?“ Vísindavefurinn. 9. jan. 2015. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=28941>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Vladimír Pútín?
Vladimír Pútín var lítt þekktur maður í rússnesku samfélagi þegar hann tók við forsetaembætti af Boris Jeltsín í lok árs 1999, 47 ára gamall. Starfsferill hans hafði að mestu verið innan Öryggismálastofnunar ríkisins (KGB), en um nokkurra ára skeið starfaði hann við hlið hins frjálslynda Anatolís Sobtsjaks sem var borgarstjóri í Pétursborg frá 1991 til 1996.

Í Pétursborg fékk Pútín orð á sig fyrir hollustu og heiðarleika – eiginleika sem sjaldan fara saman í samfélagi jafntröllriðnu af skipulagðri glæpastarfsemi og Rússland var á tíunda áratug síðustu aldar. Hann var kallaður til starfa í Kreml árið 1996. Tveimur árum síðar hafði hann tekið við stöðu forstjóra Rússnesku öryggislögreglunnar (FSB) þar sem hann starfaði í eitt ár en vorið 1999 skipaði Jeltsín hann forsætisráðherra.

Vladimír Pútín árið 2002, með Altynbek Sarsenbaiuly sendiherra Kasakstans.

Þegar leið að lokum forsetatímabils Jeltsíns gerðust menn forsetans áhyggjufullir því ekki hafði tekist að finna sigurstranglegan frambjóðanda sem uppfyllti væntingar elítunnar. Sagan segir að Boris Berezovskí, auðjöfur og á þeim tíma valdamikill í Rússlandi, hafi fyrstur fleytt þeirri hugmynd að Pútín kynni að vera rétti maðurinn til að taka við embætti Jeltsíns. Svo fór að Jeltsín sagði af sér embætti þremur mánuðum áður en tímabil hans rann út og gerði Pútín að starfandi forseta fram að kosningum, sem hann síðar sigraði með yfirburðum.

Allt frá því að hann tók við embætti hefur Pútín verið ótvíræður leiðtogi Rússlands. Vinsældir hans hafa oftast verið yfir 60% og farið hæst í tæp 90%. Árið 2008, þegar Pútín hafði setið í tvö kjörtímabil sem forseti, kom ákvæði rússnesku stjórnarskrárinnar í veg fyrir að hann gæti boðið sig fram í þriðja sinn í röð. Studdi hann þá forsetaframboð aðstoðarmanns síns Dmitrí Medvedevs og tók sjálfur við embætti forsætisráðherra, sem hann gegndi til ársins 2012. Það ár bauð Pútín sig fram til forseta í þriðja sinn og sigraði örugglega.

Fyrstu tvö kjörtímabil sín í embætti sóttist Pútín eftir samstarfi við einstaklinga með fjölbreyttan pólitískan bakgrunn og leitaðist við að halda vandasömu jafnvægi á milli íhaldssamra afla annars vegar og frjálslyndra hins vegar. Á meðan hann gegndi embætti forsætisráðherra mátti þó greina hægfara viðhorfsbreytingu sem kom glögglega í ljós eftir að hann hafði að nýju tekið við forsetaembætti vorið 2012. Veturinn áður hafði óánægja vegna spillingar í stjórnmálum og atvinnulífi farið ört vaxandi og mótmælahreyfing lét að sér kveða á götum Moskvu. Fjölmennur útifundur var haldinn daginn sem Pútín tók aftur við forsetaembættinu þar sem óeirðalögregla gekk hart fram gegn mótmælendum. Hundruð manna voru handtekin og nokkrir tugir einstaklinga síðar ákærðir fyrir óspektir og ofbeldi. Í kjölfar þessara atburða hefur stefna stjórnvalda stöðugt orðið íhaldssamari, en frjálslyndir hópar og einstaklingar hafa jafnvel sætt ofsóknum.

Það má því segja að Vladimír Pútín hafi breyst umtalsvert á þeim tíma sem hann hefur verið forseti og forsætisráðherra Rússlands. Í bókinni Andlitslausi maðurinn bendir Masha Gessen á að í raun hafi enginn vitað nokkuð um Pútín sem máli skipti þegar sú skyndilega ákvörðun var tekin að útnefna hann eftirmann Jeltsíns. Traustið sem hann hafði áunnið sér sem embættismaður var ekki fyrir skýra sýn eða merkilega framgöngu heldur fyrir samviskusemi, heiðarleika og þó umfram allt hollustu.

Pútín tekur við embætti forseta Rússlands í þriðja sinn árið 2012.

Fyrstu tvö kjörtímabil Pútíns sýndu að hann lagar sig að aðstæðum og er fær um að vinna þannig úr flóknum málum að þróun þeirra verði honum hagfelld síðar. Andúðin á Vesturlöndum, sem vart hefur orðið í málflutningi hans í auknum mæli á löngu tímabili, er að hluta í samræmi við samfélagsþróun í Rússlandi, en að hluta má tengja hana við strategíska sýn hans á forsetaembættið og alþjóðlegt hlutverk Rússlands. Pútin er ekki mótaður af pólitískri hugmyndafræði á nokkurn sambærilegan hátt og sovéskir leiðtogar voru en sú sannfæring hans að hrun Sovétríkjanna hafi verið harmleikur og að Rússland þurfi að endurheimta áhrif og vægi Sovétríkjanna hefur hvað eftir annað birst í ræðum hans og opinberum yfirlýsingum.

Eftir að Rússar hernámu Krímskaga og hófu að kynda undir ófriði í austurhluta Úkraínu vorið 2014, hafa vestrænir ráðamenn, álitsgjafar og fjölmiðlar birt fjölbreytilegar greiningar á hugarheimi Pútíns. Angela Merkel, kanslari Þýskalands á að hafa sagt að Pútín hefði tapað öllu veruleikaskyni, eftir símtal þeirra í mars 2014. Áberandi andstæðingur Pútíns, þrautreyndur í rússneskri pólitík, Boris Nemtsov, hefur haldið því fram að Pútín láti áróðursmarkmið stjórna öllum málflutningi sínum. Stuðningsmenn Pútíns halda því hins vegar fram að hann hafi birst sem bjargvættur landsins þegar allt stefndi í óefni og að lífskjör þau sem Rússar búa við í dag og árangur sem náðst hafi í landinu hefði verið óhugsandi án leiðtoga sem hans.

Hvort tveggja er þó sennilega jafnrangt, lofið og lastið. Pútín hefur sýnt sig að því að lesa pólitísk tækifæri úr flókinni taflstöðu. Þessi eiginleiki er eitt af því sem hefur tryggt völd hans innan rússneska stjórnkerfisins og hann virðist sannfærður um að sama gildi um hráskinnaleik austurs og vesturs sem magnaðist upp með Úkraínudeilunni vorið 2014. Þannig getur enginn fullyrt að Pútín hafi tapað veruleikaskyninu fyrr en að leikslokum.

Heimildir:
  • Masha Gessen (2012). The Man without a Face. The unlikely Rise of Vladimir Putin. London: Riverhead.
  • Anna Politkovskaja (2009). Rússland Pútíns. Ísl. þýðing Elín Guðmundsdóttir. Reykjavík: Urður bókafélag.
  • Putin, Russia and the West. (2012). BBC 2. Heimildamynd í fjórum hlutum.

Myndir:...