Komið þið sæl. Geta komið nýjar tegundir af snákum á Íslandi sem eru með heitt blóð? Kv. Mikael, sem hefur mikinn áhuga á snákum.Þrátt fyrir að ekki sé leyfilegt að flytja snáka til Íslands er ljóst að þeim er af og til smyglað hingað og flestir þeirra eru væntanlega hafðir sem gæludýr. Ómögulegt er hins vegar að segja með einhverri vissu hvaða snákategundir finnast í heimahúsum landsmanna. Líklega eru það aðallega tegundir sem ekki eru mjög hættulegar, eins og kornsnákur (Pantherophis guttatus), sem er af fjölskipaðri ætt rottusnáka. Hann er afar vinsæll sem gæludýr í Bandaríkjunum. Snákar hafa ekki heitt blóð heldur það sem líffræðingar kalla misheitt blóð. Oft er sagt að skriðdýr hafi kalt blóð en það er rangnefni. Blóðið í þeim er ekki kalt í eiginlegum skilningi, heldur misheitt þar sem miklar sveiflur verða á líkamshita þeirra. Hins vegar helst líkamshiti spendýra og fugla stöðugur og þau hafa því jafnheitt blóð. Afar ólíklegt er að hér á landi komi fram nýjar tegundir af meiði snáka sem yrðu með „heitt“ blóð. Hins vegar er það annað mál hvort snákar geti lifað hér á landi. Flestir vistfræðingar telja það ólíklegt vegna rysjótts veðurfars en snákar lifa ekki í nágrannalöndunum Grænlandi eða á Færeyjum. Snákar finnast hins vegar í Noregi. Syðst þar í landi lifir naðra (Vipera berus) sem er eitruð og getur verið varasöm. Tvær aðrar hættulausar tegundir finnast einnig í Noregi, önnur þeirra er grassnákur (Natrix natrix) og hin heslisnákur (Coronella austriaca). Það er ekki hægt að útiloka að einhver þessara tegunda geti aðlagast lífinu hér á landi þar sem næg fæða er til staðar, svo sem mýs og fuglar. Snákar hafa í þróunarsögunni sýnt mjög mikla aðlögunarhæfni að mismunandi búsvæðum, meðal annars á norðlægum breiddargráðum eins og í Noregi og Kanada. Heimildir og frekara lesefni:
- Skei, J. K. Amphibians and reptiles in Norway - monitoring and research. Council of Europe.
- Voru risaeðlur með heitt eða kalt blóð? eftir Jón Má Halldórsson.
- Pixabay. (Sótt 8.5.2018).
- Wikimedia Commons. (Sótt 8.5.2018).