Hvaða ástæður gætu verið fyrir því að engin villt skriðdýr eru á Íslandi?Líklegasta skýringin á því að skriðdýr finnast ekki í fánu Íslands er hversu afskekkt landið er. Skriðdýr lifa ekki heldur á Grænlandi eða í Færeyjum. Hins vegar lifa nokkrar tegundir skriðdýra í Noregi, til dæmis smávaxin eðla sem Norðmenn kalla nordfirfisle eða bara firfisle (Zootoca vivipara). Hún finnst allt norður til Finnmerkur. Það sama má segja um stálorminn (Anguis fragilis), sem er í raun útlimalaus eðlutegund, og örfáar tegundir snáka, meðal annars grassnákur (Natrix natrix) og höggormur (Vipera berus). Einnig lifa fáeinar tegundir skriðdýra á norðlægum slóðum í Rússlandi og Kanada. Það er því ljóst að kalt veðurfar er ekki ástæðan fyrir skorti á skriðdýrum hér á landi.

Eðlan Zootoca vivipara er önnur tveggja eðlutegunda í Noregi. Engin önnur skriðdýrategund teygir útbreiðslu sína eins langt norður og þessi eðla. Þetta er líka meðal fárra eðlutegunda sem gýtur lifandi ungum í stað þess að verpa eggjum.

Leðurskjaldbaka (Dermochelys coriacea) er skriðdýr. Hún hefur sést að minnsta kosti tvisvar sinnum hér við land.
- Zootoca vivipara BS11.jpg. (Sótt 08.06.2016).
- Leatherback sea turtle - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 23.06.2016).