Hvaða ástæður gætu verið fyrir því að engin villt skriðdýr eru á Íslandi?Líklegasta skýringin á því að skriðdýr finnast ekki í fánu Íslands er hversu afskekkt landið er. Skriðdýr lifa ekki heldur á Grænlandi eða í Færeyjum. Hins vegar lifa nokkrar tegundir skriðdýra í Noregi, til dæmis smávaxin eðla sem Norðmenn kalla nordfirfisle eða bara firfisle (Zootoca vivipara). Hún finnst allt norður til Finnmerkur. Það sama má segja um stálorminn (Anguis fragilis), sem er í raun útlimalaus eðlutegund, og örfáar tegundir snáka, meðal annars grassnákur (Natrix natrix) og höggormur (Vipera berus). Einnig lifa fáeinar tegundir skriðdýra á norðlægum slóðum í Rússlandi og Kanada. Það er því ljóst að kalt veðurfar er ekki ástæðan fyrir skorti á skriðdýrum hér á landi. Ef veðurfarið er ekki stærsta hindrunin heldur einangrun landsins þá gæti það hugsanlega gerst að einhverjar snákategundir mundu nema hér land. En það gerist ekki nema með liðsinni manna, því ekki komast þeir yfir Atlantshafið hjálparlaust. Eitt skriðdýr kemur þó hingað stöku sinnum en það er leðurskjaldbakan (Dermochelys coriacea) sem er stórvaxin sæskjaldbaka. Leðurskjaldbakan á heimkynni í hlýsjónum við miðbaug en á það til að flækjast fjarri heimahögum sínum norður á bóginn og sést reglulega við Bretlandseyjar og við strendur Noregs. Á síðustu 60 árum hefur að minnsta kosti í tvígang sést til skjaldböku af þessari tegund hér við land, í seinna skiptið árið 2007 þegar farþegar á hvalaskoðunarbáti sáu eina á sundi við Reykjanes. Myndir:
- Zootoca vivipara BS11.jpg. (Sótt 08.06.2016).
- Leatherback sea turtle - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 23.06.2016).