Eru kyrkislöngur hentugustu gæludýrin af slöngutegundum Hvaða tegund þá?Fyrst er rétt að taka skýrt fram að innflutningur á slöngum er stranglega bannaður hér á landi og ef slíkt á sér stað og kemst upp eru dýrin strax aflífuð og þeim eytt. Eins og fram kemur í svari Sigurðar Guðmundssonar við spurningunni Hvaða reglur gilda um innflutning dýra til landsins? er landbúnaðarráðherra heimilt að veita leyfi fyrir innflutningi lifandi dýra að fengnu áliti frá yfirdýralækni. Hins vegar er alls ekki auðsótt að fá leyfi fyrir innflutningi á slöngum og því má ætla að þau dýr sem hér eru hafi flest verið flutt ólöglega til landsins, með öðrum orðum að þeim hafi verið smyglað hingað. Ýmsar tegundir af slöngum og önnur skriðdýr eru hins vegar vinsæl gæludýr erlendis. Ekki eru allar slöngur sem hafðar eru sem gæludýr af ætt kyrkislanga heldur eru smásnákar einnig vinsælir og reyndar vinsælli en kyrkislöngurnar þegar á heildina er litið. Hér á eftir eru taldar upp vinsælustu slöngutegundirnar í gæludýrahaldi: Fyrst má nefna svokallaðan kornsnák (Elaphe guttata, e. corn snake) sem er af ætt rottusnáka (e. rat snakes). Af rottusnákum eru tugir tegunda notaðar sem gæludýr og er kornsnákurinn að jafnaði vinsælastur. Reyndar eru kornsnákar líklega vinsælustu „gælusnákar“ í Bandaríkjunum í dag. Snákarnir hafa verið álitnir góðir fyrir byrjendur þar sem þeir eru skapgóðir og verða ekki sérlega stórir. Fullvaxnir eru þeir um 80 cm á lengd. Kornsnákar eru fóðraðir á dauðri rottu eða mús einu sinni í viku. Kjörhitastig þeirra er um 25° C og gott er að hafa lítinn afkima í búrinu svo snákarnir geti falið sig og fundið til öryggiskenndar. Kornsnákar verða 10-15 ára gamlir. Helsti ókosturinn við kornsnáka er að þeir eru næturdýr og því virkastir á þeim tíma sólarhringsins. Kornsnákaeigendur sem vilja fylgjast með atferli dýranna verða því að vaka fram eftir. Önnur mjög vinsæl snákategund er Kaliforníu konungssnákurinn (Lampropeltis getulus californiae, e. Californian kingsnake) og hentar hann einnig vel fyrir byrjendur í snákauppeldi. Þessir snákar eru jafnlyndir, smáir að vexti og hægt að fá þá í mörgum litaafbrigðum. Helsti vandinn er að ekki er hægt að hafa tvo eða fleiri saman í búri. Af kyrkislöngum má nefna tegund sem á ensku kallast Redtail boa eða common boa (Boa constrictor) og er af ætt bóaslanga. Náttúruleg heimkynni hennar eru við miðbaug í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu. Þessi tegund er auðveld sem gæludýr enda fremur róleg. Sérfræðingar um slönguhald telja þó að hún sé ekki góð byrjendategund vegna stærðarinnar, en slöngurnar geta orðið allt að 3-3,5 metrar á lengd og vegið 35 kg eða meira. Til þess að slöngur þessarar tegundar þrífist vel þarf umhverfið að vera tiltölulega heitt og rakt líkt og náttúrlegt umhverfi þeirra. Ball python (Python regius) er önnur kyrkislanga af kunnri ætt slanga. Slöngur þessarar tegundar verða um 1,2-1,5 metra langar en hafa tiltölulega gildan skrokk. Ball python getur verið erfið sem fyrsta gæludýr vegna undarlegs skapferlis. Gæludýraeigendur hafa til dæmis rekið sig á það að slangan fúlsi við mat í langan tíma án neinna sýnilegra ástæðna. Engu að síður er slangan ein vinsælasta gæludýraslangan í Bandaríkjunum í dag, sérstaklega vegna fegurðar sinnar. Þeir sem kaupa sér skriðdýr ættu að hafa hugfast að dýrin er flest tekin úr náttúrunni, úr villtum stofnum sem fara óðum minnkandi. Í Bandaríkjunum eru fluttar inn á hverju ári nokkur hundruð þúsund slöngur, aðallega frá Suður- og Mið-Ameríku. Ætla má að vel yfir 95% þessara dýra séu tekin úr villtri náttúru. Það er á ábyrgð kaupanda að skipta við viðurkennda aðila sem gefa sig út fyrir að vera „umhverfisvænir“, það er að segja þá aðila sem versla með slöngur úr varpi dýra sem hafa verið í haldi manna en ekki teknar úr náttúrunni. Auk þess sem villtir stofnar fara minnkandi hafa sérfræðingar mælst til þess að gæludýraeigendur kaupi ekki slöngur sem hafa verið teknar úr náttúrunni vegna þess að ýmis vandamál geta komið upp í hátterni þeirra. Reynslan hefur enn fremur sýnt að villtar slöngur reynast mun skammlífari í haldi manna en þær sem eru komnar af búrslöngum. Helsta hættan í umgengni við skriðdýr er sú staðreynd að langflest þeirra bera með sér salmonellu og er það aðalástæðan fyrir því að innflutningur á þessum hópi skriðdýra er bannaður hér á landi. Að lokum má bæta því við að í könnun sem gerð var í Bandaríkjunum kom í ljós að kettir eru langvinsælustu gæludýrin þar í landi en þar eru um 69 milljón kettir. Því næst koma hundar og í þriðja sæti eru skriðdýr sem talin eru vera tæplega 3 milljónir. Það skal þó tekið fram að ekki er gerður greinarmunur í könnuninni á eðlum, slöngum og skjaldbökum en vitað er að skjaldbökur eru vinsælastar skriðdýra og því næst eðlurnar. Heimildir og myndir:
Hvaða slöngur eru hentugastar sem gæludýr?
Útgáfudagur
23.6.2004
Spyrjandi
Jónína Magnúsdóttir
Tilvísun
Jón Már Halldórsson. „Hvaða slöngur eru hentugastar sem gæludýr?“ Vísindavefurinn, 23. júní 2004, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4368.
Jón Már Halldórsson. (2004, 23. júní). Hvaða slöngur eru hentugastar sem gæludýr? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4368
Jón Már Halldórsson. „Hvaða slöngur eru hentugastar sem gæludýr?“ Vísindavefurinn. 23. jún. 2004. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4368>.