Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fjórða iðnbyltingin er hugtak sem vísar til tækniframfara undanfarinn ára og þeirra sem eru í vændum. Þar er aðallega átt við gervigreind, róbótatækni, sjálfkeyrandi bíla, Internet hlutanna (Internet of Things, IoT), sjálfvirknivæðingu og fleira sem mun líklega valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu árum og áratugum.
En af hverju er talað um fjórðu iðnbyltinguna – hverjar voru þar á undan? Iðnbyltingin, sú eina sanna sem við lærum um í grunnskóla, hófst um 1760 og stóð til um 1840. Um hana má lesa hér á Vísindavefnum í svari við spurningunni Getið þið sagt mér eitthvað um iðnbyltinguna? Þegar líða fór á seinni hluta 19. aldarinnar komu fram fjölmargar uppfinningar sem áttu eftir að gjörbreyta samfélaginu. Þar komu við sögu menn eins og Thomas Alva Edison og Nikola Tesla. Margar þessara uppfinninga voru byggðar á rafmagni, eins og ljósið sem lýsti upp hús og götur. Einnig ljósmyndir, kvikmyndir, sími, útvarp og svo kom olían, bílarnir og fjöldaframleiðslan. Þessi önnur iðnbylting stóð fram að fyrri heimsstyrjöld árið 1914. Eftir seinni heimsstyrjöldina árið 1945 komu tölvurnar og upplýsingatæknibyltingin hófst. Hún er nefnd þriðja iðnbyltingin. Nú er hins vegar talað um að mannkynið sé að upplifa þá fjórðu.
Lengi vel var aðeins talað um eina iðnbyltingu og þá átt við þær miklu breytingar sem urðu seint á 18. öld og fram á þá 19. Nú er hins vegar talað um fjórar iðnbyltingar og sú fjórða á sér einmitt stað núna.
Hugtakið fjórða iðnbyltingin komst fyrst í almenna notkun í ársbyrjun 2016 eftir að Klaus Schwab stjórnarformaður Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) gaf út samnefnda bók (The Fourth Industrial Revolution). Árlegur fundur samtakanna í Davos í Sviss 2016 var tileinkaður þessu hugtaki og síðan hefur það verið samheiti yfir tækniframfarir samtímans. Í bók sinni fallar Schwab um það að ólíkt fyrri iðnbyltingum þá gangi sú fjórða mun hraðar yfir en sé um leið breiðari og dýpri. Hún byggir á stafrænum grunni sem tengir saman ýmiskonar tækni sem getur leitt til grundvallarbreytinga á hagkerfum, fyrirtækjum og þjóðfélögum.
Þessar tækniframfarir eru fjölmargar en skoðum nánar þrjár þeirra sem eru hluti af þessari byltingu; gervigreind, Internet hlutanna og róbótatækni. Gervigreindin á sér langa sögu en á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í fræðigreininni. IBM ofurtölvan Watson sigraði bandaríska sjónvarpsleikinn Jepardy árið 2011, en í þeim leik birtast svör og keppendur eiga að finna spurninguna. Árið 2012 notuðu vísindamenn hjá Stanford háskóla og Google X-rannsóknastofunni í Kaliforníu 16.000 tölvur og ógrynni af kattamyndum til að finna hvað væri sameiginlegt á þeim öllum. Gervigreindin var svokallað tauganet (e. neural network) sem lærði að þekkja ketti á mynd. Það er einmitt það sem við þurfum að átta okkur á, gervigreind er ekki forrituð fyrir fram heldur lærir hún með því að greina gögn. Skáktölvan AlphaGo Zero frá DeepMind-fyrirtækninu fékk upplýsingar um mannganginn og síðan telfdi hún við sjálfa sig í fjóra tíma. Að því loknu gat hún sigrað öflugustu skákforrit sem voru á markaðnun.
Internet hlutanna á við um ótal nettengda hluti sem geta sent og safnað gögnum. Þetta eru meðal annars hlutir sem notaðir eru í daglegu lífi, ýmiskonar heimilistæki, símar, snjallúr og svo framvegis.
Internet hlutanna er önnur bylting sem á sér stað. Örtölvur og annars konar tölvubúnaður er orðinn það smár, en samt öflugur, að hægt er að útbúa alls kyns smáa skynjara sem hægt er að koma fyrir í hvers kyns tækjum. Í venjulegum snjallsíma eru um 20-30 skynjarar sem greina ýmsa hluti, til dæmis hraðamælir, snúður (e. gyroscope) sem mælir snúning eða hvernig síminn snýr, segulmælir sem mælir segulsviðið og veit því í hvaða átt er farið og GPS sem staðsetur símann. Mikil útbreiðsla snjallsíma hefur búið til markað fyrir alls kyns ódýra skynjara. Með því að setja skynjara á hluti eins og bíla, færibönd, hús, sjúkrarúm, kornakur, kartöflugarða og svo framvegis, má afla alls kyns upplýsinga um hluti í umhverfinu. Slíkar upplýsingar má nota til að leysa verkefni sem áður var mjög erfitt að leysa.
Róbotar hafa lengi verið mannkyninu hugleiknir. Þegar iðnbyltingin hófst var farið að nota vélarafl til hreyfa hluti sem áður voru hreyfðir með handafli. Líklega var mesta breytingin í landbúnaði en einnig voru verksmiðjur fullar af vélum. Bílar voru smíðaðir með iðnaðarþjörkum sem voru sér framleiddir til að vinna ákveðin verk. Róbotar dagsins í dag skynja hins vegar umhverfi sitt. Þeir hafa sjón og geta þekkt hluti. Þeir hafa heyrn og því er hægt að tala við þá. Róbotar geta verið færanlegir eða fastir á sama stað. Þeim síðarnefndu er til dæmis komið fyrir við færiband og þeim falin ákveðin verkefni. Róbotar sem geta fært sig eru til dæmis spítalaróbotar sem fara um spítalann með aðföng fyrir starfsfólk og sjúklinga. Róbotar eru líka komnir inn á heimili fólks og geta átt samræður við menn.
Róbotar koma að ýmiskonar gagni á sjúkrahúsum.
Fjórða iðnbyltingin mun hafa áhrifa á störf fólks. Í sumum starfsgreinum fækkar störfum, til að mynda störfum við framleiðslu ýmis konar, störfum við meðhöndlun og dreifingu pappírs, störfum við innslátt á gögnum og símsvörun. Einnig má nefna öryggisgæslu og eftirlit sem gera má rafrænt. En þetta á líka við um ýmiskonar skrifstofustörf sem munu koma til með að breytast og verða sjálfvirk á vefsíðu eða í appi í símanum. Þetta geta til dæmis verið störf í ráðgjöf, svo sem við fjármálaráðgjöf, tryggingaráðgjöf og jafnvel sjúkdómsgreiningar. Hefðbundin fyrirtæki og stofnanir eins og bankar, tryggingafélög, verslanir, bílafyrirtæki, skólar og heilsugæsla eiga eftir að taka miklum breytingum. Það sama á í raun við um margt af því sem við gerum í dag og við sjáum þess merki nú þegar. Verslun er að færast á Netið í meira mæli, kvikmyndum er streymt yfir netið með þjónustum eins og Netflix og það sama á við um tónlist með til dæmis Spotify. Samskipti eru í rauntíma með Snapchat, leigubílar eru í gegnum Uber (þó ekki hérlendis þegar þetta er skrifað) og húsnæði gegnum Airbnb.
Ef við hugsum um þjónustur eins og Uber og Airbnb og heimfærum þær á venjulegan fyrirtækjarekstur þá sjáum við hversu gríðalega möguleika til framfara við höfum. Hefðbundin fyrirtæki nota miðla eins og snjallsíma og láta fólk afgreiða sig sjálft. Fólk sem vinnur á vöktum notar vaktaforrit í snjallsímanum til að halda utan um vaktirnar, breyta og skrá sig á nýjar. Bókun á borði á veitingastað er hjá mörgum orðin að formi á vefsíðu. Pantanir á þjónustu eru að verða rafrænar, samningar eru rafrænt undirritaðir, kennsla er orðin að vefsíðu og hópaverkefni er hægt að vinna með spjallforritum. Ýmis störf munu breytast, önnur hverfa og ný verða til. Störf sem eru einhæf rútínustörf hverfa og önnur arðbærari koma í staðinn. Þannig verður mikil framleiðniaukning.
Í bók sinni varar Klaus Schwab við því að ef of mörg störf hverfa of hratt gæti fólk átt erfitt með að aðlaga sig. Hann varar við því að með miklum tækniframförum er hætta á að einhverjir hópar verði skildir eftir og misskipting aukist. Það er því full ástæða til að átta sig á eðli fjórðu iðnbyltingarinnar og horfa bæði á tækifærin sem og hætturnar sem skapast.
Myndir:
Christoph Roser, AllAboutLean.com. Birt undir CC-BY-SA 4.0 leyfi. (Sótt 24.1.2018).
Ólafur Andri Ragnarsson. „Hvað er fjórða iðnbyltingin?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75164.
Ólafur Andri Ragnarsson. (2018, 14. febrúar). Hvað er fjórða iðnbyltingin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75164
Ólafur Andri Ragnarsson. „Hvað er fjórða iðnbyltingin?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75164>.