Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Thomas Alva Edison og hvaða uppgötvanir gerði hann?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Thomas Alva Edison fæddist í þorpinu Milan í Ohio-ríki í Bandaríkjunum árið 1847, en ólst upp í Port Huron í Michigan. Hann var aðeins þrjá mánuði í skóla og kennarinn taldi hann „ruglaðan“ enda var hann alla tíð heyrnardaufur. Hann sýndi þó snemma gott viðskiptavit með því að selja sælgæti og dagblöð í lestum sem áttu leið um Port Huron, og einnig seldi hann grænmeti til að afla sér aukatekna.

Edison varð síðan símritari en skapaði sér jafnframt tíma til að lesa og fór að gera hvers konar tilraunir. Í einni tilraun sem hann gerði missti hann brennisteinssýru á gólfið og hún lak niður á skrifborð yfirmannsins á næstu hæð fyrir neðan. Edison var þá sagt upp.

Thomas Alva Edison (1847-1931) var einn af afkastameiri uppfinningamönnum á seinni hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. Hér sést hann við plötuspilara (e. phonograph) sem hann hannaði. Myndin er líklega frá 1877 eða 1878.

Edison fékk fyrsta einkaleyfið árið 1869, 22ja ára að aldri, fyrir rafknúna kosningavél. Frægðarsól hans tók að rísa eftir að hann fann upp svonefndan fjórfaldan ritsíma (e. quadruplex telegraph) þar sem hægt er að senda tvær merkjarunur í einu í hvora áttina eftir sama þræði. Hann seldi þessa uppgötvun til stórfyrirtækisins Western Union og notaði ágóðann til að koma upp uppfinningastöð þar sem þá hét Menlo Park í New Jersey en heitir nú einfaldlega Edison. Þetta var fyrsta starfstöð sögunnar sem var alfarið helguð uppfinningum og tækninýjungum.

Þarna fundu Edison og samstarfsmenn hans upp plötuspilarann eða hljóðritann árið 1877 og byggðu hann á símahljóðnema sem hann hafði áður hannað. Þessi uppfinning var þá svo óvænt að hún þótti göldrum líkust. Þessi tæki eru forverar símtækja og hljómflutningstækja nútímans þó að við notum yfirleitt ekki lengur nálar og rásaðar plötur. Edison framleiddi líka símabúnað og hagnaðist vel á því. Enn er mikil fyrirtækjasamsteypa í orkugeiranum kennd við hann (Edison International).

Hér fyrir neðan geta lesendur heyrt hljóðupptöku með tækjum Edisons þar sem hann les úr þekktri bandarískri barnaþulu. Upptakan er ekki góð en mjór er mikils vísir!
This text will be replaced

Um þetta leyti höfðu margir vísindamenn og uppfinningamenn spreytt sig á því að búa til glóðarperu (e. incandescent lamp), það er að segja hlut sem gefur frá sér ljós af því að hann er glóandi heitur. Þetta reyndist þrautin þyngri því að fyrstu ljósaperurnar voru ýmist skammlífar, rándýrar í framleiðslu eða afar straumfrekar. Eftir þrotlausa leit fundu Edison og félagar hans þá lausn að hafa glóþráðinn (e. filament) í perunni úr kolefni með miklu viðnámi (bambustrefjum) og hafa hann í lofttæmi, meðal annars til að hamla gegn efnahvörfum og skemmdum á þræðinum.

Fyrsta nothæfa ljósapera Edisons, sem var meðal annars sýnd opinberlega í Menlo Park árið 1879.

Margir telja ljósaperuna eina róttækustu og mikilvægustu uppgötvun tæknibyltingarinnar. Öll efni sem menn höfðu áður notað til ljósa gáfu bæði veika lýsingu og þurftu mikið viðhald og umhirðu, en meðal þeirra má nefna grútarlampa, kerti og olíulampa. Gasljósin voru einna hentugust og voru talsvert notuð í borgum þegar kom fram á seinni hluta 19. aldar, en þau voru auðvitað hreint ekki hættulaus.

Mikilvægi ljósaperunnar sést meðal annars af því að rafmagn var fyrst í stað nær eingöngu notað til ljósa, þrátt fyrir það sem við vitum nú á dögum, að rafmagn hentar vel til fjölmargra annarra nota. Margir sem upplifðu tilkomu ljósaperunnar töldu hana eina mestu tækniframför ævi sinnar, en mörg okkar sem nú lifum mundum trúlega hafa þau orð um tölvuna. Svo mikið er víst að ljósaperan gerbreytti öllu lífi manna og umhverfi. Til dæmis fór sögum af draugum og öðrum kynjaverum myrkursins snarfækkandi hér á landi eftir að peran kom til.

Árið 1880 kom Edison á fót rafveitu með jafnstraumi. Hún olli að sjálfsögðu straumhvörfum í aðgangi manna að rafmagni og rafknúnum tækjum á borð við rafljós. Edison festist í því fari að best væri að nota jafnstraum í rafveitum, það er að segja rafstraum sem fer sífellt í sömu átt. Gallinn við þá aðferð er einkum sá að erfitt er að breyta spennu jafnstraums og hún verður því ekki há. Ef menn vilja flytja verulega orku þarf því mikinn straum og gildar leiðslur en jafnframt verður mikið orkutap ef straumurinn fer umtalsverða vegalengd. Aðrir héldu því þess vegna fram að betra væri að nota riðstraum, það er að segja straum sem skiptir í sífellu um stefnu með ákveðinni tíðni. Þess konar straum er auðvelt að „spenna upp“ sem kallað er, flytja orkuna með háspenntum straum milli staða en lækka svo spennuna áður en rafmagnið kemur til notandans því að háspennan mundi annars skapa hættu hjá notandanum.

Andstæðingar Edisons í „straumastríðinu“, deilunni um jafnstraum eða riðstraum, voru bæði voldugir og glöggskyggnir. Ber þar hæst verkfræðinginn George Westinghouse (1846-1914) sem byggði á rannsóknum serbnesk-bandaríska verkfræðingsins Nikola Tesla (1856-1943). Þeir héldu fast fram yfirburðum riðstraumsins í venjulegum orkuflutningi í rafveitum og hann ruddi sér smám saman til rúms á þeim vettvangi þó að straumur frá rafhlöðum sé hins vegar yfirleitt jafnstraumur.



Í Menlo Park starfaði fjöldi manns við uppfinningar og tækninýjungar.

Í kjölfar ljósaperu og rafveitu fann Edison bæði upp röntgenmyndavél, kvikmyndavél, rafmagnslestir og fjöldamargt annað. Vinnustofa hans í Menlo Park var þá orðin líkust verksmiðju með fjölda starfsmanna en þar var þó eingöngu unnið að hvers kyns uppgötvunum. Auk þess stofnaði Edison og átti stór fyrirtæki þar sem uppgötvanir hans voru hagnýttar í þágu almennings á markaði, svo sem verksmiðjuna General Electric sem síðar varð eitt stærsta fyrirtæki á hlutabréfamarkaði í heiminum.

Edison þótti löngum harður í horn að taka í viðskiptum, allt frá því að hann fór að selja smávörur sem ungur drengur eins og áður var sagt. Helsta tómstundaáhugamál hans var hvers kyns hollusta í mataræði. Hann var algyðistrúar (e. deist) og hafnaði til dæmis afdráttarlaust tilvist yfirnáttúrlegra afla í tengslum við líf og dauða. Einnig var hann andsnúinn ofbeldi og taldi fyrirtæki sín eingöngu framleiða varnarvopn.

Thomas Alva Edison lést af völdum sykursýki árið 1931 á heimili sínu í West Orange í New Jersey. Hann var tvíkvæntur og lét eftir sig sex börn; sum þeirra urðu þekktir borgarar í Bandaríkjunum.

Helsta heimild og myndir:

Margir hafa spurt um Edison og uppfinningar hans. Þeirra á meðal eru:
Friðrik Magnússon, Andri Arnarsson, Magni Þór Óskarsson, Ingi Rúnar, Atli Freyr, Jóhann Jóhannsson, Svava Stefanía Sævarsdóttir, Hjörtur Erlendsson og Júlía Þóra Oddsdóttir.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

1.9.2011

Síðast uppfært

18.6.2018

Spyrjandi

Almar Daði Kristjánsson, Kjartan Ólafsson, Jóhann Jóhannsson og fleiri spyrjendur

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var Thomas Alva Edison og hvaða uppgötvanir gerði hann?“ Vísindavefurinn, 1. september 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7676.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2011, 1. september). Hver var Thomas Alva Edison og hvaða uppgötvanir gerði hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7676

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var Thomas Alva Edison og hvaða uppgötvanir gerði hann?“ Vísindavefurinn. 1. sep. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7676>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Thomas Alva Edison og hvaða uppgötvanir gerði hann?
Thomas Alva Edison fæddist í þorpinu Milan í Ohio-ríki í Bandaríkjunum árið 1847, en ólst upp í Port Huron í Michigan. Hann var aðeins þrjá mánuði í skóla og kennarinn taldi hann „ruglaðan“ enda var hann alla tíð heyrnardaufur. Hann sýndi þó snemma gott viðskiptavit með því að selja sælgæti og dagblöð í lestum sem áttu leið um Port Huron, og einnig seldi hann grænmeti til að afla sér aukatekna.

Edison varð síðan símritari en skapaði sér jafnframt tíma til að lesa og fór að gera hvers konar tilraunir. Í einni tilraun sem hann gerði missti hann brennisteinssýru á gólfið og hún lak niður á skrifborð yfirmannsins á næstu hæð fyrir neðan. Edison var þá sagt upp.

Thomas Alva Edison (1847-1931) var einn af afkastameiri uppfinningamönnum á seinni hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. Hér sést hann við plötuspilara (e. phonograph) sem hann hannaði. Myndin er líklega frá 1877 eða 1878.

Edison fékk fyrsta einkaleyfið árið 1869, 22ja ára að aldri, fyrir rafknúna kosningavél. Frægðarsól hans tók að rísa eftir að hann fann upp svonefndan fjórfaldan ritsíma (e. quadruplex telegraph) þar sem hægt er að senda tvær merkjarunur í einu í hvora áttina eftir sama þræði. Hann seldi þessa uppgötvun til stórfyrirtækisins Western Union og notaði ágóðann til að koma upp uppfinningastöð þar sem þá hét Menlo Park í New Jersey en heitir nú einfaldlega Edison. Þetta var fyrsta starfstöð sögunnar sem var alfarið helguð uppfinningum og tækninýjungum.

Þarna fundu Edison og samstarfsmenn hans upp plötuspilarann eða hljóðritann árið 1877 og byggðu hann á símahljóðnema sem hann hafði áður hannað. Þessi uppfinning var þá svo óvænt að hún þótti göldrum líkust. Þessi tæki eru forverar símtækja og hljómflutningstækja nútímans þó að við notum yfirleitt ekki lengur nálar og rásaðar plötur. Edison framleiddi líka símabúnað og hagnaðist vel á því. Enn er mikil fyrirtækjasamsteypa í orkugeiranum kennd við hann (Edison International).

Hér fyrir neðan geta lesendur heyrt hljóðupptöku með tækjum Edisons þar sem hann les úr þekktri bandarískri barnaþulu. Upptakan er ekki góð en mjór er mikils vísir!
This text will be replaced

Um þetta leyti höfðu margir vísindamenn og uppfinningamenn spreytt sig á því að búa til glóðarperu (e. incandescent lamp), það er að segja hlut sem gefur frá sér ljós af því að hann er glóandi heitur. Þetta reyndist þrautin þyngri því að fyrstu ljósaperurnar voru ýmist skammlífar, rándýrar í framleiðslu eða afar straumfrekar. Eftir þrotlausa leit fundu Edison og félagar hans þá lausn að hafa glóþráðinn (e. filament) í perunni úr kolefni með miklu viðnámi (bambustrefjum) og hafa hann í lofttæmi, meðal annars til að hamla gegn efnahvörfum og skemmdum á þræðinum.

Fyrsta nothæfa ljósapera Edisons, sem var meðal annars sýnd opinberlega í Menlo Park árið 1879.

Margir telja ljósaperuna eina róttækustu og mikilvægustu uppgötvun tæknibyltingarinnar. Öll efni sem menn höfðu áður notað til ljósa gáfu bæði veika lýsingu og þurftu mikið viðhald og umhirðu, en meðal þeirra má nefna grútarlampa, kerti og olíulampa. Gasljósin voru einna hentugust og voru talsvert notuð í borgum þegar kom fram á seinni hluta 19. aldar, en þau voru auðvitað hreint ekki hættulaus.

Mikilvægi ljósaperunnar sést meðal annars af því að rafmagn var fyrst í stað nær eingöngu notað til ljósa, þrátt fyrir það sem við vitum nú á dögum, að rafmagn hentar vel til fjölmargra annarra nota. Margir sem upplifðu tilkomu ljósaperunnar töldu hana eina mestu tækniframför ævi sinnar, en mörg okkar sem nú lifum mundum trúlega hafa þau orð um tölvuna. Svo mikið er víst að ljósaperan gerbreytti öllu lífi manna og umhverfi. Til dæmis fór sögum af draugum og öðrum kynjaverum myrkursins snarfækkandi hér á landi eftir að peran kom til.

Árið 1880 kom Edison á fót rafveitu með jafnstraumi. Hún olli að sjálfsögðu straumhvörfum í aðgangi manna að rafmagni og rafknúnum tækjum á borð við rafljós. Edison festist í því fari að best væri að nota jafnstraum í rafveitum, það er að segja rafstraum sem fer sífellt í sömu átt. Gallinn við þá aðferð er einkum sá að erfitt er að breyta spennu jafnstraums og hún verður því ekki há. Ef menn vilja flytja verulega orku þarf því mikinn straum og gildar leiðslur en jafnframt verður mikið orkutap ef straumurinn fer umtalsverða vegalengd. Aðrir héldu því þess vegna fram að betra væri að nota riðstraum, það er að segja straum sem skiptir í sífellu um stefnu með ákveðinni tíðni. Þess konar straum er auðvelt að „spenna upp“ sem kallað er, flytja orkuna með háspenntum straum milli staða en lækka svo spennuna áður en rafmagnið kemur til notandans því að háspennan mundi annars skapa hættu hjá notandanum.

Andstæðingar Edisons í „straumastríðinu“, deilunni um jafnstraum eða riðstraum, voru bæði voldugir og glöggskyggnir. Ber þar hæst verkfræðinginn George Westinghouse (1846-1914) sem byggði á rannsóknum serbnesk-bandaríska verkfræðingsins Nikola Tesla (1856-1943). Þeir héldu fast fram yfirburðum riðstraumsins í venjulegum orkuflutningi í rafveitum og hann ruddi sér smám saman til rúms á þeim vettvangi þó að straumur frá rafhlöðum sé hins vegar yfirleitt jafnstraumur.



Í Menlo Park starfaði fjöldi manns við uppfinningar og tækninýjungar.

Í kjölfar ljósaperu og rafveitu fann Edison bæði upp röntgenmyndavél, kvikmyndavél, rafmagnslestir og fjöldamargt annað. Vinnustofa hans í Menlo Park var þá orðin líkust verksmiðju með fjölda starfsmanna en þar var þó eingöngu unnið að hvers kyns uppgötvunum. Auk þess stofnaði Edison og átti stór fyrirtæki þar sem uppgötvanir hans voru hagnýttar í þágu almennings á markaði, svo sem verksmiðjuna General Electric sem síðar varð eitt stærsta fyrirtæki á hlutabréfamarkaði í heiminum.

Edison þótti löngum harður í horn að taka í viðskiptum, allt frá því að hann fór að selja smávörur sem ungur drengur eins og áður var sagt. Helsta tómstundaáhugamál hans var hvers kyns hollusta í mataræði. Hann var algyðistrúar (e. deist) og hafnaði til dæmis afdráttarlaust tilvist yfirnáttúrlegra afla í tengslum við líf og dauða. Einnig var hann andsnúinn ofbeldi og taldi fyrirtæki sín eingöngu framleiða varnarvopn.

Thomas Alva Edison lést af völdum sykursýki árið 1931 á heimili sínu í West Orange í New Jersey. Hann var tvíkvæntur og lét eftir sig sex börn; sum þeirra urðu þekktir borgarar í Bandaríkjunum.

Helsta heimild og myndir:

Margir hafa spurt um Edison og uppfinningar hans. Þeirra á meðal eru:
Friðrik Magnússon, Andri Arnarsson, Magni Þór Óskarsson, Ingi Rúnar, Atli Freyr, Jóhann Jóhannsson, Svava Stefanía Sævarsdóttir, Hjörtur Erlendsson og Júlía Þóra Oddsdóttir.
...