Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kristín Jónsdóttir er eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur og starfar sem hópstjóri í náttúruváreftirliti hjá Veðurstofu Íslands. Hún er einnig virk í vísindaráði Almannavarna, heldur iðuglega erindi á íbúafundum víða um land og hefur starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands.
Helstu rannsóknasvið Kristínar eru jarðskjálftavirkni á brotabeltum og í eldstöðvum landsins og rannsóknir sem styðja við náttúruváreftirlit. Rannsóknir Kristínar á jarðskjálftavirkni í tengslum við umbrotin í Bárðabungu sýndu skýr tengsl milli skjálftavirkni í Bárðarbunguöskjunni og í gosstöðvunum í Holuhrauni. Þær renna stoðum undir þá kenningu að kvikugeymir undir Bárðarbunguöskjunni sé beintengdur gosstöðvunum þrátt fyrir um 40 km fjarlægð milli þeirra. Þúsundir smáskjálfta voru notaðir í rannsókninni og var tímadreifing þeirra rannsökuð með tölfræðilegum aðferðum. Um þetta er fjallað í grein sem birtist í vísindatímaritinu Science sumarið 2016.
Kristín er hópstjóri í náttúruváreftirliti á Veðurstofu Íslands, en þar fer meðal annars fram vöktun á jarðskjálftavirkni og eldfjöllum landsins.
Kristín hefur einnig rannsakað svonefnd innhljóð, meðal annars frá Eyjafjallajökulsgosinu 2010 og beitt aðferðum þéttra mælafylkja til að greina sprengingar í gosrásinni. Fylkjaaðferðinni beitti hún þó fyrst til að staðsetja ógreinilega lágtíðniskjálfta í Mýrdalsjökli í stað hefðbundinna staðsetningaraðferða. Rannsóknir á skjálftunum í vesturhluta Mýrdalsjökuls benda til að þeir séu grunnir og megi rekja til jöklahreyfinga en ekki kvikuhreyfinga eins og áður hafði verið talið. Þessar niðurstöður birtust í Geophysical Research Letters og var greinin valin „journal highlight“.
Þessa dagana vinnur Kristín í því að rannsaka umhverfissuð sem mælist á skjálftamælingum til að vakta breytingar á bylgjuhraða í eldstöðvum. Nýlegar erlendar vísindarannsóknir sýna að slíkar breytingar á bylgjuhraða geta gefið nokkurra vikna fyrirboða um eldsumbrot og vonast Kristín til að aðferðin geti hjálpað við túlkun fyrirboða eldgosa hér á landi.
Kristín Jónsdóttir er fædd árið 1973 og lauk stúdentsprófi frá eðlisfræðibraut í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Árið 1999 lauk hún BS-gráðu í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og árið 2009 útskrifaðist hún með doktorsgráðu í jarðskjálftafræði frá Uppsala-háskóla í Svíþjóð. Doktorsritgerðin fjallar um óvenjulega jarðskjálftavirkni og lágtíðniskjálfta í Kötlu. Kristín var nýdoktor í Háskólanum í Dublin á árunum 2009-2011 og gerði verkefni að hluta til í Úganda við þróun aðferða við olíuleit með það fyrir augum að lágmarka inngrip á leitarsvæðinu.
Mynd:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Kristín Jónsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn, 1. febrúar 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75145.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 1. febrúar). Hvað hefur vísindamaðurinn Kristín Jónsdóttir rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75145
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Kristín Jónsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn. 1. feb. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75145>.