Þegar Veðurstofan gefur upp dýpi á jarðskjálfta, er þá átt við dýpi frá yfirborði þess landssvæðis þar sem upptök skjálftans eru eða er átt við dýpi miðað við sjávarmál? Dæmi: Ef jarðskjálfti verður á 0,1 km dýpi undir Bárðarbungu er þá átt við að upptökin séu 100 m undir yfirborðinu (í ca. 1900 m hæð yfir sjávarmáli) eða eru upptökin 100 m undir sjávarmáli (2100 m frá yfirborði fjallsins)?Það er oftast meiri óvissa í ákvörðun dýpis jarðskjálfta en staðsetningu hans og það getur reynst erfiðara að ákvarða dýpi skjálfta sé hann með upptök í efstu 10 km en ef skjálftinn er á meira dýpi (10-20 km). Veðurstofan gefur upp dýpi sem fram að þessu hefur verið verið reiknað miðað við plan sem ákvarðast út frá meðaltalshæð (yfir sjávarmáli) þeirra jarðskjálftastöðva sem notaðar eru í staðsetningunni hverju sinni. Á vefnum er ekki gefin upp óvissa í dýpi, en gera má ráð fyrir að minnsta kosti 1-2 km óvissu. Ef við skoðum skjálfta í Bárðarbungu þá eru stöðvarnar þar í kring að meðaltali í um 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Bárðarbunguaskjan er undir ísnum í um 1200 m hæð yfir sjávarmáli, þannig að túlka má skjálfta í Bárðarbunguöskjunni sem við gefum upp á 0,1 km dýpi sem mjög grunnan, eða með upptök í efsta kílómetranum. Þess má þó geta að Bárðarbunguskjálftarnir eru sérstaklega erfiðir þar sem fasarnir frá þeim eru óskýrir og staðsetningar og dýpi því ónákvæmari en á mörgum öðrum stöðum á landinu. Mynd:
- Fleiri jarðskjálftar, nýtt sjónarhorn: Bárðarbunga - YouTube. Veðurstofa Íslands. (Sótt 12. 2. 2016).