- Siggengi vegna gliðnunar (til dæmis Almannagjá).
- Ris- eða þrýstigengi vegna samþjöppunar (engin dæmi hér á landi, en fræg í fellingamyndunum).
- Sniðgengi vegna hliðrunar (til dæmis Suðurlands- og Tjörnes-brotabelti).
„Þverbrotabelti“ er notað um sniðgengi eða kerfi sniðgengja sem tengja ása rekhryggja (2. mynd). Hér á landi eru tvö slík brotabelti, Tjörnes-brotabeltið sem tengir suðurenda Kolbeinseyjarhryggjar við Norðurgosbeltið, og Suðurlands-brotabeltið sem tengir Reykjanes og Austurgosbeltið.
Tilurð þessara íslensku brotabelta er vel þekkt. Hryggjakerfi Norður-Atlantshafs rekur til vest-norðvesturs tæpan sentimetra á ári miðað við heita reitinn (rauður hringur á 2. mynd) og með því að flæði möttulefnis undir Íslandi út frá þessari miðju er helsti drifkraftur flekahreyfinga, þá „leitast“ rekbeltin við að vera yfir heita reitnum (3. mynd). Í 15 milljón ára jarðsögu Íslands hefur slíkur gosbeltaflutningur orðið að minnsta kosti þrisvar.
Þverbrotabelti einkenna allt rekhryggjakerfi jarðar, sem er um 60.000 km langt, og skiptist í búta sem hnikað er til hverjum miðað við annan. Almennt tengjast þverbrotabeltin ekki heitum reitum, heldur virðast þau hafa myndast um leið og rekhryggurinn sjálfur og haldast síðan nokkuð stöðug. Myndun þeirra er því sennilega háð spennusviðinu sem ríkti þegar hryggurinn var að myndast. Frekari lesningu um misgengi er til dæmis að finna í greinum Páls Einarssonar í Náttúru Íslands og Náttúrufræðingnum, svo og í Jörðinni (JPV útgáfa, Rvk. 2005). Á Vísindavefnum eru fleiri svör eftir sama höfund um tengd efni, til dæmis:
- Stækkar Ísland að flatarmáli vegna landreks eða minnkar það vegna sjávarrofs?
- Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?
- Þrjár gerðir misgengja: Bartleby.com
- Aðrar myndir: Sigurður Steinþórsson