Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu, eða sama 450 milljón ára jarðmyndun í Noregi, Skotlandi, Nýfundnalandi og austurströnd Bandaríkjanna. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman, en áður voru uppi alls konar kenningar um landbrýr hingað og þangað til að skýra slíkt. Um þetta nefndi Wegener mörg dæmi. Og í fjórða stað gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni. Þar má telja til dæmis kolamyndanir, eyðimerkur og saltlög, og út frá því gátu þeir dregið ályktanir um breidd (norður-suður) landanna á ýmsum tímum. Síðar voru gerðar fornsegulmælingar víða um heim, þar sem afstaða hvers staðar og jarðmyndunar til segulskauts jarðar á myndunartíma sínum var mæld, og út frá þeim voru ferðir meginlandanna um jarðkúluna kortlagðar. En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Það gerðist ekki fyrr en um 1960 þegar bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) setti fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Í framhaldi af því varð botnskriðskenningin til árið 1964, en hún skýrði meðal annars niðurstöður segulmælinga yfir hafsbotnunum sem höfðu valdið mönnum heilabrotum um hríð. Þess má að lokum geta, að árið 1912 kynnti Alfred Wegener fyrst kenningu sína á ráðstefnu, og þá var hún mun líkari hinni nútímalegu útgáfu, nefnilega botnskriðskenningunni, en sú kenning sem lýst er í bókinni 1915. Óvíst er hvað valdið hefur þessum sinnaskiptum, en svo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað getið þið sagt mér um Alfred Wegener? eftir Sigurð Steinþórsson.