- Uppstreymi efnis í möttulstrókum.
- Tog flekans sem sekkur á niðurstreymisbeltum.
- Halli á yfirborði jarðmöttulsins sem verður til við það að skorpan gliðnar og heitt efni stígur upp við þrýstiléttinn.
Varmastreymi úr iðrum jarðar er semsagt meira en hún getur losnað við með leiðni og geislun, og þess vegna „ólgar“ efnið — að vísu ekki eins og grautur í potti heldur sem afmarkaðir strókar líkast því þegar saltstöplar rísa gegnum ofanáliggjandi þyngri jarðlög. Varminn er af tvennum toga, annars vegar vegna geislavirkra efna í möttlinum (einkum 40K, en í minna mæli geislavirkra samsæta Th og U), og hins vegar vegna varmastreymis frá jarðkjarna til möttuls – um 300°C hitamunur er um þau mörk á 2900 km dýpi. Með því að möttulstrókarnir eru driffjöður þessa gangverks, ráða þeir mestu um rekið, og flestir þeirra eru í námunda við rekhryggi. Fræg undantekning er Hawaii, sem „ekki hefur megnað“ að kljúfa Kyrrahafsflekann. Hér á landi er miðja heita reitsins talin vera undir norðvestanverðum Vatnajökli, og vegna vesturreks Mið-Atlantshafshryggjarins miðað við möttulstrókinn hafa íslensku rekbeltin flust í stökkum til austurs á 16 milljón ára jarðsögu landsins. Fyrir um það bil 16 milljónum ára var rekbeltið út af Vestfjörðum en opnaðist á ný þannig að það lá upp að vestanverðu Snæfellsnesi um Hvammsfjörð og Húnavatnssýslu til norðurs. Fyrir um 6 milljónum ára fluttist það aftur og núverandi kerfi rekbelta myndaðist (Reykjanes-Langjökull um Mið-ísland til Norður-rekbeltisins frá Vonarskarði til Axarfjarðar). Og loks hefur Austur-gosbeltið (Vonarskarð – Vestmannaeyjar) verið að sækja til suðurs síðustu 3 milljónir ára eða svo (Kristján Sæmundsson, 1974; Haukur Jóhannesson, 1980). Ýmsar gátur eru enn óleystar hvað varðar jarðfræði Íslands og heita reitinn – til dæmis er svo að sjá sem vesturrek Mið-Atlantshafshryggjarins (þar með talið Kolbeinseyjarhryggjar) sé um 1 cm á ári miðað við möttulstrókinn þannig að Evrasíuflekinn (nefnilega Austurland) sé nær því kyrrstæður yfir stróknum, sem veldur því að skorpan þar er mun þykkari en skorpan undir vestanverðu landinu sem þá rekur 2 cm á ári miðað við strókinn (Ingi Bjarnason o.fl., 2002). Tilurð Öræfajökuls kann að vera afleiðing þessa. Sitthvað bendir til þess að möttulstreymi frá efsta hluta stróksins sé ekki samhverft (það er að hann líkist ekki svepp), heldur leiti það einkum til suðvesturs eftir Reykjaneshrygg og ef til vill til suðurs í átt til Vestmannaeyja — en einhvern tíma í framtíðinni mun það gosbelti sameinast Reykjaneshryggnum langt SV af Íslandi. Heimildir og mynd:
- Haukur Jóhannesson (1980). Jarðlagaskipan og þróun rekbelta á Vesturlandi. Náttúrufræðingurinn 50: 13-31.
- Harry Hess (1962). History of ocean basins. Petrologic Studies, Geological Society of America, bls. 599-620.
- Arthur Holmes (1933). The thermal history of the earth. Journal of the Washington Academy of Science 23: 169-195.
- Ingi Þ. Bjarnason, P.G. Silver, G. Rümpker, S.C. Solomon (2002). Shear wave splitting across the Iceland hot spot: Results from the ICEMELT experiment. Journal of Geophysical Research 107: 2382 (12 bls).
- Kristján Sæmundsson (1974). Evolution of the axial rift zone in northern Iceland. Bulletin of the Geological Society of America 85: 495-504.
- W. Jason Morgan (1971). Convection plumes in the lower mantle. Nature 230: 42-43.
- Fred Vine & D. H. Matthews (1963). Magnetic anomalies over oceanic ridges. Nature 199: 947-949.
- Alfred Wegener (1915). Die Entstehung der Kontinente und Ozeane. Vieweg, Braunschweig, Þýskalandi.
- Mynd: McBirney, Alexander R. (1993). Igneous petrology. Boston, Jones and Bartlett.