Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Góðan daginn, ég biðst fyrirfram afsökunar af undarlegu spurningunni sem fylgir en ég las áhugaverða grein í hollensku blaði um tvo stráka sem fundu hvalaskít og seldu hann í ilmvatnsiðnað. Það var talað um skít frá búrhvölum sem var notaður sem efni í ilmvatn. Ég er að spá tvennt - Eru allar tegundir af hvalaskít verðmætar? - og er Ísland að notfæra sér þetta með því að selja skít úr þessum hvölum? kv. Robert
Hvalaskítur er vissulega verðmætur en verðmætin gagnast fyrst og fremst vistkerfi hafsins. Líkt og hefur áður komið fram í svari við spurningunni Kúka hvalir? á Vísindavefnum, þá geymir skítur hvala töluvert magn mikilvægra snefilefna sem gagnast ljóstillífandi lífverum, einna helst svifþörungum. Þessi mikilvægu ólífrænu efni eru meðal annars köfnunarefni (nitur), fosfór og járn.
Annarskonar úrgangur sem hefur reynst afar verðmætur þekkist þó frá einni tegund hvala, það er búrhvalnum. Þessi úrgangur kallast á sumum erlendum málum 'ambergris' eða ambur á íslensku. Ambur berst út með saur búrhvala og er merkilegt fyrir þær sakir að þegar það hefur þornað, oxast og veðrast lyktar það af einstökum og afar sterkum efnasamböndum sem hafa reynst ákaflega vel til ilmvatnsgerðar. Af þessum sökum er ambur gífurlega verðmætt.
Svonefnt ambur berst úr með saur búrhvala. Á myndinni sést ambur-klumpur sem skolaði á land við strendur Bahama-eyja.
Ambur er klumpur sem myndast í meltingarvegi búrhvala vegna tormeltanlegra líkamshluta aðalfæðu þeirra, smokkfiska. Líkami smokkfiska er mjúkur og beinlaus en þeir hafa hins vegar gogg sem er ómeltanlegur. Einnig eru augasteinar smokkfiska illmeltanlegir og sama má segja um innra stoðblaðið eða 'gladius', en það eru leifar af skel forfeðra þeirra og gegnir hlutverki eins konar innri stoðgrindar.
Búrhvalir hafa þróað leið til að losa sig við þessa óæskilegu líkamshluta smokkfisksins með því að æla og skyrpa þeim út úr sér í einum klumpi. Það gera þeir á nokkurra vikna fresti. Búrhvalurinn hefur fjóra maga, líkt og jórturdýr, enda eru hvalir náskyldir klaufdýrum. Fæðan ferðast í gegnum þessa maga og brotnar smám saman niður áður en hún heldur áfram niður eftir görnum hvalsins. Búrhvalir þurfa að æla klumpi af þessum illmeltanlegu líkamshlutum út úr sér áður en hann berst neðar í meltingarveginn. Komist klumpurinn niður í garnir hvalsins safnast gall úr búrhvalnum fyrir í klumpinum og þá myndast hið sérstaka efnasamband sem kallast ambur.
Smokkfiskar eru með gogg sem er ómeltanlegur. Einnig eru augasteinar smokkfiska illmeltanlegir og sama má segja um innra stoðblaðið eða 'gladius', en það eru leifar af skel forfeðra þeirra og gegnir hlutverki eins konar innri stoðgrindar.
Ambur myndast aðeins í um 1% búrhvala og hvalirnir ná ekki alltaf að losna við þennan ómeltanlega klump úr meltingarfærunum. Í þeim tilfellum deyr hvalurinn en það getur tekið langan tíma eða þar til klumpurinn hefur stíflað og þar af leiðandi skaddað meltingarveginn verulega. Ambur er því ekki aðeins samansafn ómeltanlegra líkamshluta smokkfiska því saur þéttist einnig í klumpnum með tíð og tíma. Þessi ómeltanlegi klumpur veldur hinu versta harðlífi hjá búrhvalnum. Við það eykst vatnsfrásog í ristlinum og ambur-klumpurinn harðnar smátt og smátt eins og sement. Ef hvalurinn er svo lánsamur að ná að skíta ambur-klumpinum mun hann fljóta upp á yfirborðið þar sem eðlismassi hans er örlítið minni en vatns. Ambur-klumpurinn getur borist í fjölda ára með hafstraumum án þess að reka á land. Þegar honum að lokum skolar á land hefur ambur-klumpurinn veðrast og efnasamböndin oxast.
Eftir að klumpurinn losnar út úr búrhvalnum er hann hvítleitur og fituríkur vegna þeirra efna sem seitast út í klumpinn frá lifrinni. Við viðvarandi oxun og veðrun breytist efnasamsetningin og raunverulegt ambur myndast en það er mjög hart viðkomu. Þá breytist liturinn á ambur-klumpnum, hann er ekki lengur hvítur eða gráleitur en verður brúnleitur eða svartur. Þá er áferðin orðin svipuð og á hörðnuðu vaxi. Fyrst um sinn lyktar ambur af saur en þegar klumpurinn þornar upp og harðnar breytist lyktin verulega og verður eins og sætur, sjávarkenndur moldarilmur. Þessi lyktarsamsetning hefur einmitt reynst verðmæt í ilmvatnsgerð.
Ambur myndast aðeins í um 1% búrhvala og hvalirnir ná ekki alltaf að losna við þennan ómeltanlega klump úr meltingarfærunum. Í þeim tilfellum deyr hvalurinn en það getur tekið langan tíma eða þar til klumpurinn hefur stíflað og þar af leiðandi skaddað meltingarveginn verulega.
Ýmsar þjóðir líkt og Ástralía hafa bannað notkun á ambri í ilmvatnsgerð til að varna því að búrhvalir verði veiddir af þeim sem freista þessa að finna ambur í meltingarvegi hvalanna.
Ekki er hægt að vinna nein sérstök verðmæti úr venjulegum hvalaskít en hann er hins vegar afar verðmætur fyrir lífríki sjávar. Ambur er svo gífurlega sjaldgæft að ekki er vænlegt að gera út rekstur sem byggir á þeirri vöru.
Heimildir:
Kemp C. Floating Gold: A Natural (and Unnatural) History of Ambergris: University of Chicago Press; 2012. Aðengileg hér: The Origin of Ambergris.
Chisholm H. Ambergris. 11 ed. Chisholm H, ritstjóri: Cambridge University Press; 1911.