Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í hvaða fæði er fosfór öðru en mjólkuvörum, er ekki nauðsynlegt að fá fosfór úr fæðu?
Fosfór (e. phosphorus=P) er frumefni í flokki málmleysingja. Það er mjög algengt í náttúrunni en kemur þó ekki fyrir þar sem hreint efni vegna þess hversu hvarfgjarnt það er. Það finnst aftur á móti bæði í ólífrænum fosfatsteinum og í öllum lifandi frumum þar sem það er hluti af mikilvægum lífrænum sameindum, oftast á formi fosfathóps (PO43-).
Fosfór er öllum lífverum nauðsynlegur og gegnir mörgum hlutverkum. Fosfór er eitt frumefnanna í mörgum af nauðsynlegustu lífrænum sameindum, til dæmis í kjarnsýrum eins og erfðaefninu DNA, fosfólípíðum, sérstakri gerð af fituefnum sem mynda meginuppistöðu allra frumuhimna og svo í ATP sem er hinn eini sanni orkumiðill í frumum.
Dýr þurfa að fá fosfór úr fæðunni. Fosfór er í flestum fæðutegundum þótt í mismiklum mæli sé eftir tegundum. Til dæmis er magn þess í flestum plöntuafurðum minna en í dýraafurðum og prótínríkum fæðutegundum, en hnetur, fræ og grænmeti eru dæmi um jurtafæði sem getur innihaldið mikinn fosfór. Fosfór í mat er ýmist hluti af náttúrulegum innihaldsefnunum (e. ingredients) og/eða hluti af aukefnum (e. food-additives) sem bætt er í matvæli í ýmsum tilgangi við vinnslu þeirra, til dæmis til að fá fram æskilega eiginleika eins og tiltekinn lit eða tiltekna áferð. Mjólkurvörur eru dæmi um matvörur sem innihalda mikinn fosfór sem innihaldsefni en gosdrykkir, einkum kóladrykkir, eru dæmi um matvöru þar sem fosfórsýra er aukefni til að gera þá súra og frískandi.
Fosfór finnst í flestum fæðutegundum. Magnið er yfirleitt meira í afurðum úr dýraríkinu en jurtaríkinu.
Heilbrigður fullorðinn maður þarf um 800 mg á dag úr fæðu til að uppfylla daglega þörf sína fyrir fosfór og er kalsín (Ca) eina steinefnið sem líkaminn þarf meira af. Ráðlagður dagskammtur af fosfór er miðaður við að hlutfall þess og kalsíns sé 1:1, sem er ekki furða þar sem um 85% af fosfór í mannslíkamanum finnst í beinum og tönnum sem kalkfosfat. Vegna þess hve algengur fosfór er í fæðu er þó lítil hætta á að við fáum of lítið af þessu næringarefni. Helst gerist það við hungursneyð eða vegna arfgengra nýrnasjúkdóma sem leiða til þess að nýrun sleppa of miklum fosfór út í þvagið.
Almennt gildir að upptaka úr meltingarvegi, og þar með nýting fosfórs í mannslíkamanum, er betri þegar kjöt á í hlut heldur en plöntuafurðir. Venjulega nær líkaminn aðeins að nýta um helming þess fosfórs sem er í plöntuafurðum. Helstu skortseinkenni fosfórs eru minnkuð matarlyst, slappleiki, blóðleysi, vöðvaverkir, gölluð beinmyndun, dofi og skert ónæmiskerfi. Ekki er skárra að fá of mikið af fosfór miðað við þörf því þá raskast jafnvægi milli þess og kalks. Ef við fáum meira af fosfór en kalki í mat reynir líkaminn að koma jafnvægi aftur á með losun kalks úr beinunum til að binda fosfór og geyma í beinum.
Heimildir og mynd:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er nauðsynlegt að fá fosfór úr fæðu og í hvaða fæðutegundum er hann?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2016, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67153.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2016, 2. maí). Er nauðsynlegt að fá fosfór úr fæðu og í hvaða fæðutegundum er hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67153
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er nauðsynlegt að fá fosfór úr fæðu og í hvaða fæðutegundum er hann?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2016. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67153>.