Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru hafstraumar?

Jón Ólafsson

Sterkir straumar eru í öllum heimshöfunum og þess vegna flyst stöðugt og um sömu slóðir mikið magn sjávar þúsundir kílómetra. Meginstraumarnir ná niður á nokkur hundruð metra dýpi og greinast oft í minni kvíslar. Flæði hafstrauma er táknað með einingunni Sverdrup og er 1 Sv = 1 milljón m3/s. Til samanburðar er samanlagt rennsli til sjávar með öllum ám og fljótum jarðar rösklega 1 Sv.

Loft- og hafstraumar vinna saman að því að dreifa þeirri sólarorku sem jörðinni berst um yfirborð hennar. Loftstraumarnir eru knúðir af hitabreytingum á yfirborði jarðar og vindakerfum fylgja ríkjandi vindáttir. Vindarnir toga í yfirborðssjó og koma af stað vindstraumum. Snúningur jarðar hefur áhrif á stefnu straumanna og það gerir einnig dýpi og lögun sjávarbotnsins. Upphitun eða kæling á yfirborðssjó og seltubreytingar vegna uppgufunar eða úrkomu breyta eðlismassa sjávar og eðlismassadreifing kemur af stað straumum.

Í raun vinna þessi tvö ferli oftast saman og eru helstu stöðugu hafstraumar við yfirborð heimshafanna tengdir vindum og eðlismassadreifingu ofan 500-1000 m dýpis. Þetta á til dæmis við Golfstrauminn sem flytur hlýsjó norður Atlantshaf og Labradorstrauminn sem ásamt Austur-Grænlandsstraumnum flytur kaldan sjó til suðurs í norðvestanverðu Atlantshafi. Þekkt eðlisfræðileg lögmál gilda bæði um vindstrauma og strauma vegna eðlismassadreifingar. Á grundvelli þeirra lögmála er straumstyrkur reiknaður og reiknilíkön gerð um hafstrauma.

Golfstraumurinn er meira en 100 Sv þegar hann er sterkastur en sú grein hans sem nefnd er Irmingerstraumur og flæðir í norðurátt vestan Íslands og inn á norðurmið, er aðeins um 1 Sv. Kort sem sýna hafstrauma eru gerð á grundvelli reynslu manna úr siglingum, mældra strauma og reiknaðra. Þau sýna meðallagsaðstæður en hafa þarf hugfast að straumar, einkum styrkurinn, breytast oft með árstíðum og veðurfarssveiflum.



Hita-seltuhringrásin nær um heimshöfin öll.

Um djúpstrauma í heimshöfunum, neðan 1000 m, gildir annað enda eru þeir knúðir í ferli sem nefnt er hita-seltuhringrás og felur í sér kælingu yfirborðsins og djúpsjávarmyndun. Þetta gerist einkum á tveimur svæðum, við Suðurskautslandið og í Norður-Atlantshafi. Tiltölulega saltur hlýsjór flæðir norður Norður-Atlantshaf (Golfstraumurinn) og miðlar varma til andrúmsloftsins. Við það kólnar hann og kælingin eykur svo eðlismassa þessa sjávar að hann sekkur að lokum og myndar djúpsjó, einkum í Norður-Grænlandshafi (milli Jan Mayen og Svalbarða), Labradorhafi (milli Grænlands og Labrador).

Til þess að ná svo mikilli eðlisþyngd við kælinguna að djúpsjór myndist verður selta yfirborðssjávarins að haldast há. Kaldi djúpsjórinn flæðir í djúpinu suður á bóginn en við yfirborðið flyst hlýsjór norður í stað þess sem sökk. Djúpsjávarflæðið yfir hryggina milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Skotlands nemur samtals um 6 Sv. Hita-seltuhringrásin nær um heimshöfin öll, frá Atlantshafi til Indlandshafs og Kyrrahafs.

Mynd: Climate Variability - NASA Science

Höfundur

Jón Ólafsson

prófessor emeritus í haffræði við HÍ

Útgáfudagur

10.11.2006

Spyrjandi

Tinna Ósk Kristinsdóttir
Sara Jóhannsdóttir
Maríanna Guðjónsdóttir

Tilvísun

Jón Ólafsson. „Hvað eru hafstraumar?“ Vísindavefurinn, 10. nóvember 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6372.

Jón Ólafsson. (2006, 10. nóvember). Hvað eru hafstraumar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6372

Jón Ólafsson. „Hvað eru hafstraumar?“ Vísindavefurinn. 10. nóv. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6372>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru hafstraumar?
Sterkir straumar eru í öllum heimshöfunum og þess vegna flyst stöðugt og um sömu slóðir mikið magn sjávar þúsundir kílómetra. Meginstraumarnir ná niður á nokkur hundruð metra dýpi og greinast oft í minni kvíslar. Flæði hafstrauma er táknað með einingunni Sverdrup og er 1 Sv = 1 milljón m3/s. Til samanburðar er samanlagt rennsli til sjávar með öllum ám og fljótum jarðar rösklega 1 Sv.

Loft- og hafstraumar vinna saman að því að dreifa þeirri sólarorku sem jörðinni berst um yfirborð hennar. Loftstraumarnir eru knúðir af hitabreytingum á yfirborði jarðar og vindakerfum fylgja ríkjandi vindáttir. Vindarnir toga í yfirborðssjó og koma af stað vindstraumum. Snúningur jarðar hefur áhrif á stefnu straumanna og það gerir einnig dýpi og lögun sjávarbotnsins. Upphitun eða kæling á yfirborðssjó og seltubreytingar vegna uppgufunar eða úrkomu breyta eðlismassa sjávar og eðlismassadreifing kemur af stað straumum.

Í raun vinna þessi tvö ferli oftast saman og eru helstu stöðugu hafstraumar við yfirborð heimshafanna tengdir vindum og eðlismassadreifingu ofan 500-1000 m dýpis. Þetta á til dæmis við Golfstrauminn sem flytur hlýsjó norður Atlantshaf og Labradorstrauminn sem ásamt Austur-Grænlandsstraumnum flytur kaldan sjó til suðurs í norðvestanverðu Atlantshafi. Þekkt eðlisfræðileg lögmál gilda bæði um vindstrauma og strauma vegna eðlismassadreifingar. Á grundvelli þeirra lögmála er straumstyrkur reiknaður og reiknilíkön gerð um hafstrauma.

Golfstraumurinn er meira en 100 Sv þegar hann er sterkastur en sú grein hans sem nefnd er Irmingerstraumur og flæðir í norðurátt vestan Íslands og inn á norðurmið, er aðeins um 1 Sv. Kort sem sýna hafstrauma eru gerð á grundvelli reynslu manna úr siglingum, mældra strauma og reiknaðra. Þau sýna meðallagsaðstæður en hafa þarf hugfast að straumar, einkum styrkurinn, breytast oft með árstíðum og veðurfarssveiflum.



Hita-seltuhringrásin nær um heimshöfin öll.

Um djúpstrauma í heimshöfunum, neðan 1000 m, gildir annað enda eru þeir knúðir í ferli sem nefnt er hita-seltuhringrás og felur í sér kælingu yfirborðsins og djúpsjávarmyndun. Þetta gerist einkum á tveimur svæðum, við Suðurskautslandið og í Norður-Atlantshafi. Tiltölulega saltur hlýsjór flæðir norður Norður-Atlantshaf (Golfstraumurinn) og miðlar varma til andrúmsloftsins. Við það kólnar hann og kælingin eykur svo eðlismassa þessa sjávar að hann sekkur að lokum og myndar djúpsjó, einkum í Norður-Grænlandshafi (milli Jan Mayen og Svalbarða), Labradorhafi (milli Grænlands og Labrador).

Til þess að ná svo mikilli eðlisþyngd við kælinguna að djúpsjór myndist verður selta yfirborðssjávarins að haldast há. Kaldi djúpsjórinn flæðir í djúpinu suður á bóginn en við yfirborðið flyst hlýsjór norður í stað þess sem sökk. Djúpsjávarflæðið yfir hryggina milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Skotlands nemur samtals um 6 Sv. Hita-seltuhringrásin nær um heimshöfin öll, frá Atlantshafi til Indlandshafs og Kyrrahafs.

Mynd: Climate Variability - NASA Science...