Jörðin snýst einfaldlega vegna þess að hún hefur ekki stöðvast enn! Í svari Tryggva Þorgeirssonar við spurningunni 'Hvernig varð jörðin til?' segir meðal annars:
Uppruna sólkerfis okkar má rekja til gríðarmikils gas- og rykskýs. Vegna ytri röskunar byrjaði þetta ský að falla saman fyrir um fimm milljörðum ára. Er skýið féll saman varð þrýstingurinn í miðju þess stöðugt meiri og að lokum nógu mikill til að atómkjarnar byrjuðu að renna saman; það var upphafið að sólinni okkar. Skýið hafði í upphafi verið á örlitlum snúningi og hann magnaðist þegar skýið féll saman, rétt eins og skautadansari snýst hraðar þegar hann dregur að sér hendurnar; þetta kallast varðveisla hverfiþunga. Þess vegna safnaðist ekki allt efnið saman í miðjunni heldur myndaði dálítill hluti þess flatan disk umhverfis miðjuna. Í þessum efnisdisk, sem var á hægum snúningi um frumsólina, mynduðust reikistjörnur sólkerfisins.Snúning jarðarinnar má sem sagt rekja til varðveislu þess hverfiþunga sem efnið sem hana myndaði hafði. Fyrsta lögmál Newtons segir okkur að hlutir á hreyfingu leitist við að halda hreyfingu sinni nema ytri kraftar breyti því ástandi. Jörðin leitast því við að halda hreyfingu sinni, en þó eru kraftar sem hægja á þeirri hreyfingu. Þessir kraftar, svo sem núningur, eru þó veikir þannig að langan tíma tekur að hægja á jörðinni. Lesa má nánar um hverfiþunga jarðarinnar og tunglsins í svari Þorsteins Vilhjálmssonar um sjávarfallakrafta.
Mynd af Jörð: NASA - Webquest