Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Já, vissulega „kúka“ hvalir líkt og önnur spendýr. Reyndar er það sameiginlegt öllum lífverum að losa sig við úrgang.
Saurlát hvala er í reynd afskaplega mikilvægt fyrir vistkerfi sjávar, meðal annars með dreifingu næringarefna upp í efri lög sjávar. Næringarefnin eru mikilvæg ljóstillífandi lífverum líkt og grænþörungum og ljóstillífandi bakteríum sem þurfa þessi næringarefni til að geta ljóstillífað. Þau næringarefni sem leynast í kúknum og eru hvað mikilvægust hinum ljóstillífandi lífverum eru nitur (köfnunarefni), fosfór og járn. Við ljóstillífun framleiða þessar lífverur sykrur (frumframleiðsla) sem nýtast þeim sjálfum og þeim lífverum sem nærast svo aftur á þeim. Við þetta ferli verður einnig til súrefni sem er nauðsynlegt lífverum sjávar. Því má segja að hvalakúkurinn styðji við framleiðslu á lífrænni næringu og súrefni í vistkerfum sjávar.
Saurlát hvala er í reynd afskaplega mikilvægt fyrir vistkerfi sjávar, meðal annars með dreifingu næringarefna upp í efri lög sjávar. Myndin sýnir steypireyði.
Sjávarvistfræðingar hafa reiknað út að magn niturs sem hvalir losa í Maine-flóa í Norður-Ameríku sé meira en magn þess niturs sem berst með öllum ám og lækjum í flóann[1]. Rannsóknirnar eru enn þá á frumstigi en niðurstöður benda þó sterklega til þess að hvalsaurinn sé mjög mikilvægur fyrir framleiðni vistkerfisins og getur þannig skilað sér í stærri fisk- og átustofnum þar sem stofnarnir hafa meira æti sökum aukins næringarefna í sjónum.
Áhugaverðar rannsóknir á áhrifum hvalakúks hafa farið fram við Suðurskautið[2]. Þessar rannsóknir sýndu fram á mikla fylgni milli stækkunar í stofni átu og steypireyða (Balaenoptera musculus), þar sem steypireyðum hafði fjölgað hafði átu fjölgað. Það þótti merkilegt þar sem meginfæða steypireyða er átan. Kom þá í ljós að skíturinn er nokkuð ríkur af járni, sem er snefilefni í sjónum og er almennt mikill skortur á járni á þessum slóðum. Svifþörungategundirnar sem eru ríkjandi við Suðurskautið eru nokkuð háðar járni við frumframleiðslu sína en vegna járnskorts svæðisins var frumframleiðslan ekki jafnvirk. Þar sem steypireyðar eru við veiðar við Suðurskautið losnar mikið magn skíts og þar af leiðandi nokkuð magn járns sem hefur því jákvæð áhrif á frumframleiðsluna. Þetta fyrirbrigði hefur hlotið heitið „Hvalapumpan“.[3]
Úrgangur steypireyðar er rauðleitur, linkenndur og eðlisléttari en vatn og má því sjá á yfirborði sjávar.
Hvalaskítur er nokkuð breytilegur eftir tegundum og æti. Til dæmis má nefna steypireyðina en hún lifir á sviflægum krabbadýrum, þá fyrst og fremst ljósátu í uppsjónum. Úrgangur þessarar miklu skepnu er rauðleitur, linkenndur og eðlisléttari en vatn og liðast hann því upp á yfirborðið eins og reykur en innan um hann fljóta rauðir kögglar. Skíturinn verður því eftir eins og skellur á haffletinum. Þeir hvalir sem nærast á smáum fiskitorfum skilja eftir sig grænleitt ský á meðan hvalir eins og búrhvalir, sem nærast á smokkfiskum, skilja eftir sig dökka skýjamökka ásamt oft stórum fljótandi grænum kúkum.
Tilvísanir:
^ Roman, J. and McCarthy, J.J., 2010. The whale pump: marine mammals enhance primary productivity in a coastal basin. PloS one, 5(10), p.e13255.
^ Lavery, T.J., Roudnew, B., Seymour, J., Mitchell, J.G., Smetacek, V. and Nicol, S., 2014. Whales sustain fisheries: Blue whales stimulate primary production in the Southern Ocean. Marine Mammal Science, 30(3), pp.888-904.
Edda Elísabet Magnúsdóttir og Jón Már Halldórsson. „Kúka hvalir?“ Vísindavefurinn, 5. maí 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73592.
Edda Elísabet Magnúsdóttir og Jón Már Halldórsson. (2017, 5. maí). Kúka hvalir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73592
Edda Elísabet Magnúsdóttir og Jón Már Halldórsson. „Kúka hvalir?“ Vísindavefurinn. 5. maí. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73592>.