Hverfa sáðfrumur ekki með tímanum ef maður stundar sjálfsfróun oft?Eins og fram kemur í fróðlegu svari Ernu Magnúsdóttur við spurningunni Hvernig myndast kynfrumur? halda karlmenn áfram að mynda sáðfrumur nokkurn veginn út ævina. Það er því engin hætta á því að sáðfrumur heilbrigðra kynþroska karlmanna „hverfi“ vegna sjálfsfróunar. Sæðisfrumuþroskun er ferli sem tekur um tvo og hálfan mánuð og að meðaltali verða um 300 milljón sæðisfrumur fullþroska hvern einasta dag. Þetta segir í svari Ernu um kynfrumumyndun karla:
Við kynþroska drengja hefst eiginleg sæðisfrumumyndun, sem er ferlið þar sem sáðstofnfrumur þroskast yfir í sæðisfrumur. Rétt fyrir kynþroska fjölga frumkímfrumur sér með jafnskiptingu (mítósu) og þroskast í sáðstofnfrumur. Eftir það þroskast hluti sáðstofnfrumanna með reglulegu millibili í forsáðfrumur sem hefja rýriskiptingu. Hver tvílitna forsáðfruma tvöfaldar erfðaefni sitt og skiptir sér að lokum tvisvar og gefur af sér fjórar einlitna forsæðisfrumur. Það eru svo forsæðisfrumurnar sem fara í gegnum sæðisfrumuþroska. Hann felur í sér umbreytingu úr nokkurn veginn kúlulaga frumu yfir í sæðisfrumu með haus, háls og hala. Hausinn inniheldur lítinn kjarna þar sem erfðaefninu er pakkað mjög þétt saman í litni og fremst á hausnum er endahetta sem sæðisfruman nýtir til að bora sér inn í eggfrumu við frjóvgun. Hálsinn inniheldur mikinn fjölda hvatbera sem framkalla orku þegar sæðisfruman syndir, en halinn er sérhæfð frumusvipa sem knýr sæðisfrumurnar áfram. Sæðisfrumuþroskun tekur um tvo og hálfan mánuð og að meðaltali klára um 300 milljón sæðisfrumur þroskaferlið á dag.Vert er að geta þess að rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum krabbameina og tíðni sáðláts. Þær hafa leitt í ljós að karlmenn sem hafa tíð sáðlát fá síður blöðruhálskrabbamein. Í mjög stórri langtímarannsókn[1] á bandarískum körlum kom í ljós að þeir sem hafa sáðlát 21 sinni á mánuði eða oftar eru tæplega 20% ólíklegri til að fá blöðruhálskrabbamein en þeir karlar sem aðeins hafa sáðlát 4-7 sinnum í mánuði. Þarna er þó aðeins um fylgnisamband að ræða og ekki er ljóst hvort sjálft sáðlátið stuðli að lækkun á tíðni krabbameins eða hvort mögulega hafi aðrir þættir áhrif á bæði tíðni sáðláts sem og tíðni krabbameins. En í ljósi þess að sjálfsfróun er með öllu hættulaus fylgir því engin áhætta að nota hana sem mögulega fyrirbyggjandi aðgerð gegn blöðruhálskrabbameini. Ítarefni
- Frequent ejaculation may decrease prostate cancer risk - Health News - NHS Choices. (Sótt 11.08.2017).
- Er sjálfsfróun hættuleg?
- Stunda dýr sjálfsfróun eða er maðurinn eina dýrategundin sem gerir það?
- Af hverju fróar fólk sér?
- Getur maður fengið HIV-veiruna við sjálfsfróun?
- Examining the Pull of Group Masturbation Parties | The Boards. (Sótt 27.06.2017).