Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sagnir um hafmeyjar eru gamlar og eiga meðal annars rætur í grískum goðsögum um sírenur. Sírenurnar voru raddfagrar söngmeyjar í fuglslíki að neðanverðu er seiddu til sín menn með yndisfögrum söng og drápu þá. Ýmsum sögum fer af uppruna þeirra en þeim ber þó flestum saman um að sírenurnar hafi hlotið fuglshaminn sem refsingu, annað hvort fyrir að fara í söngkeppni við menntagyðjurnar ellegar fyrir að hjálpa ekki Persefónu þegar Hades, guð undirheima, rændi henni.
Fiskimaðurinn og sírenan, eftir Frederic Leighton (1856-1858).
Sírenur koma við sögu í Ódysseifskviðu er Ódysseifur heillast af seiðandi söng þeirra þegar hann siglir fram hjá eyju sem þær héldu til á. Hann hafði hins vegar látið binda sig við mastur skipsins og bjargaði þannig lífi sínu. Í sögunni af Jasoni sem sendur var til eyjunnar Kolkis að sækja gullreyfið reyna sírenur að heilla hann. Söngvarinn og lýruleikarinn Orfeifur syngur þá svo undurfagran söng að allir heillast af honum og hætta að hlusta á söng sírenanna. Í vonsku sinni kasta sírenurnar sér í hafið og fá þá stirtlu (sporð) að neðanverðu í stað fuglshamsins. Í fleiri grískum goðsögnum er sagt frá uppruna sírenanna. Ein er sú að fljótagoðið Akkelóos, sem sagt var að hefði slönguhala og nautshorn en að öðru leyti mannlegt útlit, hafi tekist á við Herakles en við það hafi annað horn hans brotnað. Af blóðdropunum sem þá drupu niður hafi sírenurnar myndast. Seifur gaf þeim síðan eyjuna Anþemóessu til búsetu.
Þótt breytingin á afturhluta sírenanna eða hafmeyjanna úr bakhluta fugls í stirtlu verði mjög snemma í goðsögum og þjóðsögum, halda þær fuglslíkinu í myndskreytingum allt fram til endurreisnartímabilsins. Ýmis afbrigði má sjá í myndefni svo sem vængi og fuglsklær í bland við bakhluta fisks, en höfuð og brjóst er langoftast í konumynd.
Frásagnir af hafmeyjum má finna í þjóðtrú margra landa og þeirra er getið í ýmsum miðaldaritum. Í Konungsskuggsjá, sem er norskt rit frá því um 1260, er meðal annars sagt frá hafmeyjum sem þar eru nefndar margýgjar. Þær eru sagðar í kvenmannslíki „upp ífrá linda stað“, hafa á brjósti „stóra spena svo sem kona“, langar hendur og sítt hár. Milli fingra hafa margýgjarnar sundfit og frá mitti og niður hafa þær hreistur og sporð. Þær eru að öðru leyti sagðar hræðilegar útlits, stórmynntar og augnbreiðar. Sú trú er sögð fylgja þeim að það viti á storma sjáist þær í hafi, ennfremur er sagt að horfi þær í átt að skipi eða kasti að því fiskum þá má búast við miklu manntjóni.
Svona sér Walt Disney fyrirtækið fyrir sér hafmeyjar.
Annars er algengast í þjóðsögum að hafmeyjum sé lýst sem undurfögrum síðhærðum, brjóststórum, meyjum er sitja á skerjum eða klettum, kemba hár sitt, halda gjarnan á spegli eða leika á hörpu, syngja seiðandi söngva og lokka til sín sjófarendur. Þrátt fyrir að neðri hluti þeirra sé í fisklíki eru þær einstaklega kynæsandi og heillandi. Þær eru þó yfirleitt hin verstu flögð og drápskvendi sem eiga það til, fyrir utan að seiða til sín sjómenn, að lokka til sín börn eða leggja bölvun yfir fjölskyldur. Sagnir um að hafmeyjar gefi sjómönnum góð ráð, vari þá við eða hreinlega verði ástfangnar af mennskum mönnum og giftist þeim eru einnig til. Skili slíkir menn sér aftur til mannheima eru þeir þó oftast geðbilaðir.
Í íslenskum þjóðsögum er að finna nokkrar sögur af hafmeyjum meðal annars í þjóðsagnasöfnum Sigfúsar Sigfússonar (1855-1935) og Jóns Árnasonar (1819-1888).
Höggverkið Litla hafmeyjan er í Kaupmannahöfn og var gert árið 1913 af Edvard Eriksen.
Hafmeyjar hafa hlotið frægð í bókmenntum og má þar nefna hina þekktu frásögn af Lórelei sem situr á samnefndum kletti við ána Rín í Þýskalandi og heillar þá sem fram hjá fara með þeim afleiðingum að þeir sigla í strand og farast. Um þessa sögu orti Heinrich Heine (1797-1856) sitt fræga ljóð um Lórelei sem hefst með orðunum: „Ich weiss nicht, was soll es bedeuten“ sem í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar (1831-1913) útleggst: „Ég veit ekki af hvers konar völdum svo viknandi dapur ég er.“
Þá hefur danska ævintýraskáldið H.C. Andersen (1805-1875) gert Litlu hafmeyjuna ógleymanlega í sögu sinni. Til frekari fróðleiks má benda á bækurnar: Fabeldyr og sagnfolk eftir Bengt Holberg og Iørn Piø, Monsters of the Sea eftir Richard Ellis og The Encyclopedia of Monsters eftir Daniel Cohen.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Símon Jón Jóhannsson. „Hvað getið þið sagt mér um hafmeyjar?“ Vísindavefurinn, 18. febrúar 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7074.
Símon Jón Jóhannsson. (2008, 18. febrúar). Hvað getið þið sagt mér um hafmeyjar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7074
Símon Jón Jóhannsson. „Hvað getið þið sagt mér um hafmeyjar?“ Vísindavefurinn. 18. feb. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7074>.