Getið þið sagt mér hvernig Seifur í grískri goðafræði hegðaði sér í hjónabandi sínu við Heru? Var hann henni trúr? Af hverju hélt hann framhjá henni?
Í grískri goðafræði var Seifur æðstur goðanna. Hann var veðurguð og talinn bæði almáttugur og alsjáandi. Þrátt fyrir að vera giftur systur sinni, Heru, átti Seifur sér margar hjákonur og eignaðist með þeim fjöldann allan af börnum. Margar sögur eru til af kvennafari hans, bæði með gyðjum og mennskum konum, og afbrýðisemi Heru sem fylgdi í kjölfarið. Seifur gat breytt sér í ýmis dýralíki og blekkti oft konur með því til samfylgis við sig eða tók þær jafnvel nauðugar. Í eftirfarandi töflu eru ástkonur Seifs taldar upp og þau börn sem hann átti með þeim. Heiti dætra Seifs eru feitletruð:
Gyðjur | Demetra | ||
Díóne | |||
Evrynoma | Evfrosyna Þalía | ||
Hera | Eileiþýa Heba Hefæstos | ||
Letó | Artemis | ||
Maia | |||
Metis | |||
Mnemosyna | Kallíópa Klíó Erató Evterpa Melpómena Polyhymnía Terpsikora Þalía Úranía | ||
Þemis | Þalló Áxó Karpó Örlagagyðjurnar: Klóþó Lakkesis Atrópos | ||
Konur | Alkmena | ||
Antíópa | Zeþos |
||
Kallistó | |||
Danáa | |||
Egína | |||
Elektra | Harmonía** Lasíon | ||
Evrópa | Hradamanþys Sarpedon | ||
Íó | |||
Laódamía | |||
Leda | Polýdevkes Klýtemnestra Helena | ||
Níóba | Pelasgos | ||
Plútó | |||
Semele | |||
Tágeta |
Margar af dætrum Seifs eru mjög þekktar og voru miklir áhrifavaldar í samfélagi goða og manna. Þeirra þekktastar eru sennilega þær sem tilheyrðu hinu tólf guða samfélagi (e. pantheon) Ólympostinds: Aþena, Afródíta og Artemis. Um þær og önnur goð Ólymposfjalls er fjallað nánar í svari Ulriku Andersen við spurningunni "Hver eru kennitákn grísku goðanna?". Hér á eftir verður fjallað stuttlega um nokkrar af dætrum Seifs: Seifur átti Persefónu með systur sinni Demetru, gyðju jarðar. Hades, konungur undirheimanna og bróðir Seifs, rændi Persefónu frá móður sinni og gerði hana að brúði sinni og þar með drottningu undirheima. Demetra leitaði dóttur sinnar ákaft þar til sólguðinn Helíos sagði henni loks hvað gerst hafði. Meðan Demetra syrgði brotthvarf dóttur sinnar visnaði gróður jarðar og jörðin lagðist í dvala. Seifur þoldi að lokum ekki lengur við og skipaði Hadesi að skila Persefónu. Hades fékk hins vegar Persefónu til að borða sex fræ áður en hún fór sem gerðu það að verkum að hún varð að snúa aftur til undirheima í einn mánuð fyrir hvert fræ. Sex mánuði á ári dvaldi Persefóna því í undirheimum hjá Hadesi og á meðan lá jörðin í dvala. Hina sex mánuði ársins dvaldi hún hjá móður sinni og þá kviknaði aftur líf á jörðinni og hún blómstraði. Eileiþýa, gyðja barnsfæðinga, og Heba, gyðja æskunnar, voru dætur Seifs og Heru. Þær voru hvorugar sérstaklega áberandi í grískum goðsögnum og gegndu þar í raun aðeins aukahlutverkum. Eileiþýa var yfirleitt nefnd í nánu sambandi við Heru og Artemis en ekki kemur mikið fram um hennar eigin persónuleika. Þó eru til hof sem reist voru henni til heiðurs, en sem gyðja barnsfæðinga gegndi hún veigamiklu hlutverki í lífi fólks. Heba var skenkjari guðanna á Ólympostindi allt þar til hún var gift hinni frægu hetju Heraklesi eða Herkúlesi eins og hann nefndist hjá Rómverjum. Samkvæmt goðsögunum á Seifur að hafa eignast þrjár dætur með mennskum konum. Með Ledu, drottningu Spörtu, átti hann Klýtemnestru og Helenu fögru. Sagan segir að Seifur hafi orðið ástfanginn af Ledu og táldregið hana í gervi svans. Eftir þann fund verpti Leda tveimur eggjum; úr öðru egginu komu Helena og Klýtemnestra, en úr hinu stigu bræður þeirra Kastor og Polýdevkes. Samkvæmt sumum frásögnum eru aðeins Helena og Polýdevkes sögð vera börn Seifs, en Klýtemnestra og Kastor sögð vera dauðleg börn Tyndarþeifs, eiginmanns Ledu og konungs Spörtu. Klýtemnestra og Helena giftust seinna bræðrunum Agamemnon og Menelási. Menelás varð konungur Spörtu en Agamemnon ríkti yfir hinu forna gríska ríki Mýkenu. Þegar París Trójuprins rændi Helenu frá Spörtu og flutti hana með sér til Tróju markaði það upphaf Trójustríðsins fræga. Lesa má nánar um þetta í svari Geirs Þ. Þórarinssonar við spurningunni "Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?". Harmonía er, eins og áður sagði, í sumum heimildum talin vera dóttir Seifs og Elektru. Harmonía var gefin Kadmosi þegar hann tók við stjórn Þebu og á brúðkaupsdaginn gaf Kadmos henni (í sumum sögum er Afródíta sögð vera gefandinn) hálsmen sem Hefæstos, guð smíðaverks, hafði gert. Hálsmeni þessu fylgdi þó mikil ógæfa og var dauðinn vís hverjum þeim sem ágirntist hálsmenið. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Er eitthvert sannleikskorn í grísku goðsögunum? eftir Unnar Árnason
- Hvernig varð heimurinn til samkvæmt grískri goðafræði? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Um hvað fjalla Hómerskviður? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hver var Akkilles? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hvaða rómversku guðir samsvöruðu ekki forngrísku guðunum? eftir Unnar Árnason
- Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku? eftir Geir Þ. Þórarinsson