Við vitum að innsiglið var komið í notkun þann 26. október 1911 og jafnvel mun fyrr. Möguleiki er að þegar forstöðumönnum presta-, laga-, og læknaskólans var falið að semja frumvarp til laga um stofnun háskóla árið 1907, hafi þeir einnig ákveðið merki Háskólans. Þeir sniðu frumvarp sitt að miklu leyti eftir hinum nýju háskólalögum Norðmanna en innsigli þeirra er einmitt Aþena, reyndar í líkamsstærð. Annar möguleiki er sá að Björn M. Ólsen hafi fengið hugmyndina að Aþenuinnsiglinu þegar hann var í fyrstu embættisför sinni sem rektor Háskóla Íslands í Oslóarháskóla á haustdögum 1911. Hann gæti hafa látið hanna og smíða innsiglið í Osló eða í Kaupmannahöfn á leiðinni heim ef hann hefur þá haft viðkomu þar.Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á merkinu í áranna rás sem hafa miðað að því að færa það til samræmis við nútímann og tíðarandann hverju sinni. Ýmsar uppfinningar eru eignaðar gyðjunni Aþenu. Hún átti til að mynda að hafa fundið upp plóginn til að yrkja jörðina, kennt mönnunum skipasmíðar og hvernig ætti að vefa og spinna. Af henni og sjávarguðinum Póseidoni lærðu mennirnir að temja hesta. Aþena er einnig kunn fyrir að hafa verið stríðsgyðja en hún hafði litla ánægju af átökum ólíkt stríðsguðinum Aresi. Hún vildi frekar leysa friðsamlega úr deilum og halda friðinn. Sem dæmi um góðmennsku hennar er sagan af spámanninum Teiresíasi sem Aþena sló blindu þegar hann kom henni á óvart og sá hana allsnakta. Í stað sjónarinnar veitti hún honum skyggnigáfu og Teiresías varð einn mesti spámaður og sjáandi sem fornar grískar sagnir geta um.
- Heiða Björk Sturludóttir, Leitin að innsiglinu, Fréttabréf Háskóla Íslands, 5. tbl. 20. árg. júní 1998.
- Nýtt, samræmt útlit á prentgripum Háskólans, Fréttabréf Háskóla Íslands, 3. tbl. 20. árg. mars 1998.
- Harpers Dictionary of Classical Antiquities
- World Art Treasures
- HÖNNUNARSTAÐALL HÍ. (Sótt 1.10.2021).