Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hómerskviður eru tvær, Ilíonskviða og Ódysseifskviða. Ilíonskviða er talin vera eldri, ort um 750 f. Kr.
Ilíonskviða
Ilíonskviða fjallar um atburði Trójustríðsins, þegar Akkear (Grikkir) sátu um Trójuborg. Ilíonsborg er annað heiti á Tróju en stofnandi borgarinnar var sagður hafa verið Ilíos. Umsátrið, sem varði í tíu ár, átti sér stað um 1192-1182 f. Kr. og segir kviðan frá atburðum sem áttu sér stað á síðasta ári þess.
Í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar hefst kviðan á orðunum:
Kveð þú, gyðja, um hina fársfullu heiftarreiði Akkils Peleifssonar, þá er olli Akkeum ótölulegra mannrauna, og sendi til Hadesarheims margar hraustar kappasálir, en lét sjálfa þá verða hundum og alls konar hræfuglum að herfangi, eftir það að þeir höfðu eitt sinn deilt og skilið ósáttir, herkonungurinn Atreifsson og hinn ágæti Akkilles.
Á frummálinu, grísku, er fyrsta orðið „menis”, sem þýðir reiði. Upphaf kviðunnar og sjálft fyrsta orðið hefur einmitt verið talið lýsandi fyrir meginefni hennar.
Bræði Akkilesar. Hluti málverks eftir Giovanni Battista Tiepolo (1696-1770).
Reiðinni, sem vísað er til, olli Agamemnon Atreifsson, Mýkenukóngur og fyrirliði Grikkjanna, er hann tók sér stúlku sem var herfang Akkillesar í stað annarrar sem hann varð að skila til að friða guðinn Apollon. Með þessu var Akkillesi sýnd mikil vanvirðing og því dró hann sig í hlé frá stríðinu. Við því máttu Grikkir ekki enda var Akkilles mestur kappi meðal þeirra.
Þegar Hektor, Trójuprins og mesta hetjan í liði Tróverja, vó Patróklos, vin Akkillesar, sneri Akkiles aftur til að hefna hans. Akkilles drap Hektor, batt lík hans aftan í vagn sinn og dró það aftur til grísku herbúðanna. Príamos, konungur Tróju, laumaðist að næturlagi til búðanna og bað Akkilles um lík sonar síns, sem Akkilles féllst á að láta af hendi. Kviðunni lýkur eftir að útför Hektors hefur verið lýst. Í henni er ekki greint frá dauða Akkillesar eða trójuhestinum og falli Tróju.
Ódysseifskviða
Ódysseifskviða er hálfgert ævintýri og þykir efni hennar mun „léttara” en efni Ilíonskviðu sem fjallar að miklu leyti um stríð. Ódysseifskviða segir frá heimför hins ráðsnjalla Ódysseifs, konungs á eynni Íþöku, frá Tróju að stríðinu loknu, en heimförin tók tíu ár (eins og umsátrið um Tróju). Í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar hefst kviðan á orðunum „Seg mér, sönggyðja, frá hinum víðförla manni, er hraktist mjög víða, eftir það hann hafði lagt í eyði hina helgu Trójuborg, þeim er sá borgir og þekkti skaplyndi margra manna.” Á frummálinu, grísku, er fyrsta orðið einmitt „aner” sem þýðir maður. Það er jafnlýsandi fyrir efni kviðunnar eins og orðið „reiði” er fyrir efni Ilíonskviðu.
Ódysseifur hraktist ekki aðeins til framandi þjóða á leið sinni heim til Íþöku heldur einnig til undirheima þar sem hann ráðfærði sig við spámanninn Teiresías. Á ferð sinni hitti hann líka fyrir kýklópann Pólýfemos, sem hugðist éta Ódysseif og félaga hans, seiðkerlinguna Kirku, sem breytti förunautum Ódysseifs í svín, og óvættirnar Skyllu, Karibdís og sírenurnar.
Ódysseifur snýr heim. Málverk eftir Pinturicchio (1454-1513).
Penelópa, kona Ódysseifs, beið hans heima á Íþöku en í höllinni höfðu biðlar hennar komið sér fyrir og létu dólgslega. Þegar Ódysseifur náði loksins heim til Íþöku drap hann biðlana og lifði svo hamingjusamlega þar með konu sinni, Penelópu, og syni sínum, Telemakkosi, eftir að Aþena stöðvaði blóðsúthellingar milli Ódysseifs og ættmenna biðlanna.
Í báðum kviðum koma guðirnir mikið við sögu en Trójustríðið var af þeirra völdum. Um það má lesa í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?Frekara lesefni og myndir