- Getur verið að eitthvert sannleikskorn sé í grísku goðsögunum? Ef já, hverjum og hvers vegna? (Kristinn Hróbjartsson)
- Af hverju voru Grikkir svo uppteknir af hetjusögum? Var stuðst við einhverjar heimildir um það að hetjurnar hafi verið til? (Kristinn Hróbjartsson)
- Voru Herkúles og allar hetjurnar grísku til? (Maríanna Ástmarsdóttir)
Grískar goðsögur hafa verið viðfangsefni fræðimanna úr mörgum vísindagreinum en fáir þeirra hafa verið sagnfræðingar. Hugtakið goðafræði er notað bæði um hugmyndaheim goðsagnanna og þau fræði sem kringum þær hafa spunnist. Á meðal þekktra fræðimanna sem hafa lagt goðafræði lið má nefna mannfræðingana James Frazer og Claude Lévi-Strauss, sálfræðingana Sigmund Freud og Carl Jung og loks bókmenntafræðinginn Joseph Campbell.



Þrátt fyrir að uppruni hetjanna hverfi í móðu fortíðarinnar, gegna þessar fornu sögur, líkt og aðrar goðsögur, stóru hlutverki í nútímanum. Líklega erum við jafn upptekin af hetjusögum og Forngrikkir voru. Í rauninni getur hvaða saga sem er verið goðsaga, ef hún reynir á einhvern hátt að útskýra heiminn eða gera viðtakandanum grein fyrir stöðu sinni í heiminum. Goðsögur fornaldar höfðu augljóslega heimsfræðilega merkingu, eins og við þekkjum úr norrænni goðafræði, um Ásgarð, Miðgarð, Jötunheima, Miðgarðsorm og svo framvegis. Nútímagoðsögur bera með sér álíka merkingu. Þær skilgreina ekki síst hverjir tilheyra hverjum hópi, hverri þjóð eða menningu, hverjir eru vinir manns og fjölskylda og hverjir eru óvinirnir. Flestar kvikmyndir frá Hollywood (og raunar víðar að) reyna að búa til goðsögulega hetjur úr aðalpersónum, og vinsælustu myndir síðustu mánuða eru undir miklum áhrifum goðsagna, það eru myndirnar um Harry Potter og Hringadróttinssögu. Áhrif Forngrikkja á vestræna menningu eru mikil og því hægt að ímynda sér að hetjudýrkun þeirra hafi áhrif á hetjudýrkun okkar. Annar möguleiki er að goðsögur og hetjudýrkun sé óaðskiljanlegur hluti samfélagsmyndarinnar, enda eru ekki til dæmi um þjóðfélag án goðsagna. Maðurinn býr sér alltaf til hugmyndafræði og til að viðhalda henni þarf goðsögur. Til fróðleiks skal bent á svör við spurningunum Hvers vegna erum við til? og Hvað eru vísindi? hér á Vísindavefnum. Heimildir og myndir:
- Íslensk alfræðiorðabók, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990
- Um Herakles/Herkúles, Hesíód og Heinrich Schliemann á vefsetri Encyclopædia Britannica
- Origins of Greek Mythology
- Tímatafla og fleira yfir gríska sögu á vefsetri Scarborough College, Torontoháskóla