Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ekki virðist vera til eitthvað nafn á eyjunni sem Sírenurnar voru sagðar búa á. Þó er minnst á það í frásögnum grísku goðafræðinnar að þær hafi byggt sér hof við Sorrento sem stendur á nesi við Napólí á Ítalíu.
Sírenunum er lýst í grísku goðafræðinni sem verum sem eru til helminga konur og til helminga fuglar. Sírenur eru oft sýndar á myndum sem fuglar með konuhöfuð eða í kvenlíkama en með fuglafætur.
Sírenur voru alræmdar fyrir að reyna laða menn til sín með undirfögrum söng og bana þeim síðan. Söngur þeirra var sagður svo fagur að sjómenn sem sigldu fyrir eyjuna þeirra köstuðu sér í sjóinn og reyndu að synda til þeirra eða stefndu skipunum í átt til eyjunnar. En þó söngurinn væri undurfagur var mikil hætta á ferðum því að Sírenurnar átu þá sem þeim tókst að lokka til sín og sagt var að bein fórnalamba þeirra hafi legið í hrúgum kringum þær.
Margar mismunandi útgáfur eru til af sögunum um Sírenurnar eins og svo algengt er með þjóðsögur. Ein frægasta frásögnin um Sírenurnar er án efa sú sem má lesa í Ódysseifskviðu eftir hið fræga gríska skáld Hómer sem var uppi um 800 fyrir Krist. Ódysseifskviða segir frá hrakningum og ævintýrum sem Ódysseifur lendir í á Miðjarðarhafinu á leið heim til sín á eynni Íþöku í Adríahafi eftir að Trójustríðinu lauk um 1200 fyrir Krist.
Þegar Ódysseifur sigldi framhjá eyjunni sem Sírenurnar bjuggu á greip hann óseðjanleg löngun til að heyra söng þeirra. Búið var að vara hann við Sírenunum og til að láta ekki glepjast af ómþýðum söngnum brá Ódysseifur á það ráð að láta áhöfnina setja vax í eyrun á sér og sjálfur batt hann sig fastan við mastur skipsins.
Í annari frásögn um Sírenurnar segir frá ferðum skipsins Argo sem einnig átti leið framhjá eyjunni. Áhöfnin á Argo taldi fimmtíu manns en auk hennar var söngvarinn Orfeus um borð en hann þótti hafa yfirnáttúrlega sönghæfileika. Þegar skipið nálgaðist eyjuna hófst söngur Sírenanna en skipti þá engum togum um að Orfeus hóf einnig upp raust sína. Söngur Orfeusar yfirgnæfði lokkandi söng Sírenanna og áhöfnin á Argo gat ekki annað en hlustað hugfangin á söng hans. Sagt er að Sírenurnar hafi horfið af eyjunni í kjölfarið. Ein útgáfan af sögunni er sú að Sírenurnar hafi drekkt sér í sjónum af vonbrigðum en samkvæmt annarri útgáfu eiga Sírenurnar að hafa orðið að steini.
Í Ódysseifskviðu eru Sírenurnar sagðar vera tvær en ekki eru þær nafngreindar þar. Í seinni tíma sögum hafa þær ekki einungis fengið nafn heldur eru þær orðnar mun fleiri. Moeolpe, Aglao-fónos, Þelxiepia, Parþenope, Ligeia og Lenkosia eru dæmi um nöfn sem Sírenunum hafa verið gefin. Öll nöfnin eru á einhvern hátt lýsandi fyrir sönghæfileika Sírenanna, til dæmis þýðir Aglaofónos "ljómandi rödd" og Moeolpe þýðir "söngur". Móðir Sírenanna er talin vera sönggyðjan Melpomene en faðernið er nokkuð á reiki og koma árgoðið Achelous og hafgoðið Forcys báðir til greina.
Sírenunum fannst þær sjálfar hafa fallegustu söngraddir sem um gat. Þær voru svo sjálfsöruggar að þær skoruðu á söng-gyðjurnar í söng-keppni. Það hefðu þær betur látið ógert því að sönggyðjurnar sigruðu og plokkuðu í kjölfarið vængi Sírenanna af þeim svo þær urðu ófleygar. Skömmin var svo mikil eftir tapið í söng-keppninni að þær fóru í felur. Sumir segja að þær hafi dvalist í klettum við suðurströnd Ítalíu nálægt Napólí og Caprí áður en þær fluttu sig um set til eyjunnar þar sem Ódysseifur heyrði í þeim. Enn aðrir segja að Sírenurnar hafi dvalist á eyju nálægt suðvesturströnd Sikileyjar eða á norðurhluta Sikileyjar við Messína.
Sagan um Sírenurnar virðist hafa þróast úr gamalli austurlenskri mýtu eða goðsögn um konu sem var hálfur fugl og hálf manneskja og táknaði sálir hinna dauðu. "Fuglskonan" var nokkurs konar vængjaður draugur sem hrifsaði til sín lifandi fólk og færði það dauðanum.
Ulrika Andersson og Helga Sverrisdóttir. „Hafði eyjan sem Sírenurnar í grísku goðafræðinni bjuggu á eitthvert nafn?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2001, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1993.
Ulrika Andersson og Helga Sverrisdóttir. (2001, 5. desember). Hafði eyjan sem Sírenurnar í grísku goðafræðinni bjuggu á eitthvert nafn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1993
Ulrika Andersson og Helga Sverrisdóttir. „Hafði eyjan sem Sírenurnar í grísku goðafræðinni bjuggu á eitthvert nafn?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2001. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1993>.