Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í grísku goðafræðinni koma um þrjátíu gyðjur og jafnmargir guðir við sögu. Hómer skrifaði Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu átta hundruð árum fyrir Krist og eru þær ein elstu og þekktustu ritin um guðina. Einnig koma guðirnir og gyðjurnar við sögu í grískum harmleikjum eftir leikritahöfunda eins og Sófókles og Evripídes. Í kviðunum og leikritunum má lesa um sköpunarsöguna, líf guðanna og valdabaráttu þeirra. Guðirnir voru oft persónugervingar náttúrunnar og náttúrufyrirbæra og kennitákn þeirra voru táknræn fyrir skapgerð þeirra.
Æðstur allra var Seifur. Hann var sonur risanna Krónosar og Rheu. Krónos óttaðist mest af öllu að eitthvert barna hans steypti honum af valdastóli og því át hann þau flest upp til agna þegar þau fæddust. Rheu tókst hins vegar að bjarga lífi Seifs með því að fela hann hjá geit þar sem hann ólst síðan upp.
Seifur var æðstur grísku guðanna.
Þegar Seifur var orðinn fullorðinn réðst hann ásamt bræðrum sínum á risana. Bræðurnir höfðu sigur í baráttunni og skiptu heiminum á milli sín. Ríki Seifs og guðanna var á Ólympsfjalli, hæsta tindi Grikklands. Seifur var talin almáttugur og alsjáandi. Seifur var giftur gyðjunni Heru en átti sér margar hjákonur. Hann gat breytt sér í ýmis dýr og vakti það yfirleitt mikla aðdáun. Á myndum sem gerðar voru af Seifi er hann skeggjaður, virðulegur og vöðvamikill maður. Kennitákn hans voru örn og þrumufleygur. Seifur samsvaraði síðar guðinum Júpíter hjá Rómverjum.
Hera var einnig dóttir risanna Krónosar og Rheu og því systir Seifs. Hera var drottning himinsins og verndari hjónabandsins og kvenna. Mikið er fjallað um hana sem afbrýðissama eiginkonu Seifs. Myndir sem gerðar voru af Heru sýna konu með alvarlegan hátignarlegan svip. Kennitákn hennar var kýrin og fuglar, aðallega páfuglinn og gaukurinn. Gyðjan sem samsvaraði Heru hjá Rómverjum hét Júnó.
Afródíta var gyðja ástar og fegurðar. Nafn hennar er dregið af gríska orðinu "aphros" sem þýðir löður. Sagan segir að Afródíta hafi fæðst í sjávarlöðri sem varð til þegar Krónos sonur Úranosar, hins forna guðs himinins, henti afskornum kynfærum föður síns í hafið. Eins og sæmir gyðju ástarinnar átti Afródíta marga elskhuga og þar á meðal voru stríðsguðinn Ares og dauðlegir menn, þeirra kunnastur var Ankises frá Trjóju. Hún var gift smíðaguðinum Hefaistosi. Kennitákn Afródítu voru dúfa, granatepli, svanur og myrta. Afródíta samsvarar Venusi í rómverskri goðafræði.
Afródíta var gyðja ástar og fegurðar.
Apollon var sá guð sem var mest tilbeðinn meðal manna. Apollon ríkti úr fjarlægð þaðan sem hann hótaði, refsaði og fyrirgaf fólki sem hafði áttað sig á sekt sinni. Samskipti fólks við Apollon fóru fram með spámönnum og véfréttum, aðallega þeirri sem var í Delfí. Hann stjórnaði borgum og lögum og var svo valdamikill að meira að segja sumir guðirnir óttuðust hann. Foreldrar hans voru Seifur og gyðjan Letó. Apollon hét fullu nafni "Föbus Apollon" en orðið Föbus merkir ljós og hreinleiki. Apollon var því einnig kallaður sólarguðinn.
Kennitákn Apollons var boginn sem táknaði fjarlægð hans frá mannfólkinu og ógnarvaldið sem hann hafði. Stundum var kennitákn hans þó lýra en hún stóð fyrir aðra eiginleika Apollons en hann var mikill unnandi tónlistar, skáldskapar og dans.
Artemis var tvíburasystir Apollons og gyðja villidýra, veiði og gróðurs. Hún vakti einnig yfir hreinum meyjum og fæðandi konum. Sagan segir að Artemis hafi stundað dans ásamt dísum í fjöllum, skógum og mýrum og því var hún oftast tilbeðin með dansi. Artemis var sérstaklega vinsæl gyðja meðal bænda en einnig virðist sem fólk úr öllum stéttum hafi tilbeðið hana. Myndir sem voru gerðar af henni sýna hana oft með hjört og veiðihund. Ef hún reiddist endurspeglaðist sú reiði í hættum villtrar náttúru.
Aþena eða Pallas-Aþena var stríðsgyðja, gyðja handiðnar og skynsemi. Hún var einnig verndari borgarinnar Aþenu. Aþena var aldrei við karlmann kennd svo að vitað sé. Í Ilíonskviðu sem fjallar um stríðið í Tróju er sagt frá því hvernig Aþena barðist við hlið grísku hetjanna og þar stendur hún fyrir vitsmuni og réttlæti í stríði. Á myndum sem gerðar voru af henni er hún oft sýnd með brynju sem á stóð, ótti, deila, vörn og árás. Auk þess bar hún oft hjálm, skjöld og lensu. Seifur var faðir hennar og stökk hún alsköpuð úr höfði hans þegar hún fæddist. Kennitákn Aþenu voru helst fuglar og þá sérstaklega uglur, en einnig slöngur.
Díonýsos var guð frjóseminnar en kannski er hann betur þekktur sem guð víns og gleði. Hann var sonur Seifs og Semelu, dóttur Kadmosar sem var konungur í Þebu. Gyðjan Hera, eiginkona Seifs, var ákaflega afbryðisöm út í Semelu og taldi hana á að fá Seif til að sanna hversu máttugur hann væri. Seifur féllst á þetta en kraftar hans reyndust svo miklir að Semela lét lífið. Díonýsos sem þá var lítill drengur slapp ómeiddur því að Seifur tók sig til og saumaði Díonýsos inn í læri sitt og þar dvaldist drengurinn þar til hann varð fullvaxta. Díonýsos hafði, líkt og Apollon, samskipti við mannfólkið í gegnum véfréttir. Hann gat breytt sér í ýmis dýr og kennitákn hans voru bergflétta, laufkrans og bikar.
Póseidon var guð hafsins, linda og vatna en nafn hans þýðir drottnari jarðar. Hann var líka sonur risanna Krónosar og Rheu og því bróðir Seifs, Heru og Hadesar guðs undirheima. Hann átti skáldfákinn Pegasus sem var vængjaður hestur með skrímslinu Medúsu. Kennitákn hans voru þríforkur, höfrungur og fiskur. Rómverski guðinn Neptúnus samsvarar Póseidon.
Póseidon var guð hafsins, linda og vatna.
Hermes var guð frjósemi og verndari búfénaðar og þá sérstaklega kinda. Hann var sonur Seifs og Maiu. Í Ódysseifskviðu Hómers er honum lýst sem boðbera guðanna. Hann var einnig ekill vagnsins sem flutti dáið fólk til ríkis hinna dauðu sem hét Hadesarheimur. Hermesi var lýst sem fullorðnum skeggjuðum manni íklæddum löngum kyrtli og á vængjuðum stígvélum með staf sem kallast kerykeion. Merkúríus samsvarar Hermesi hjá Rómverjum.
Stríðsguðinn hét Ares. Hann var talinn ákaflega fagur en var að sama skapi ekkert sérstaklega vinsæll, hvorki hjá mönnum, guðum né foreldrum sínum, þeim Seifi og Heru. Afródíta féll þó fyrir fegurð hans og voru þau elskendur. Í borginni Spörtu var mönnum og dýrum fórnað í hans nafni. Ares var oftast klæddur í herklæði á myndum sem til eru af honum. Rómverski guðinn Mars samsvaraði Aresi.
Demeter var gyðja landbúnaðar. Nafn hennar þýðir "móðir jörð". Hún var talin geta haft áhrif á uppskeru, gróður og hungursneyð. Auk þess var hún gyðja undirheima, heilbrigðis og hjónabands. Margar hátíðir voru haldnar henni til heiðurs. Kennitákn hennar voru: karfa með blómum, korni, fræjum og ávöxtum, svínið og slangan.
Hefaistos var smíðaguðinn en hann fæddist bæklaður. Móður hans Heru þótti hann viðbjóðslegur og henti honum fyrir björg á Ólympssfjalli. Það sama gerði faðir hans Seifur eftir fjölskylduerjur. Ekki lést Hefaistos við það og giftist síðar Afródítu. En hjónaband þeirra var aldrei hamingjusamt og Afródíta vildi heldur eyða tíma sínum með elskhuga sínum, stríðsguðinum Ares. Hefaistos var mjög fær smiður og var hann verndari handverksmanna. Talið var að eldfjöll væru verkstæði hans. Hefaistos var oftast sýndur í stuttum kyrtli og með húfu. Hann samsvarar Vúlkan í rómversku goðafræðinni en af nafni hans er sem kunnugt er dregið alþjóðaorðið um eldfjöll.
Heimild: