Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Setningin þýðir orðrétt: "Sá, sem glæpurinn gagnast, framdi hann". Hún er höfð eftir Medeu í samnefndu leikriti (línur 500-501) eftir rómverska heimspekinginn og rithöfundinn Lucius Annaeus Seneca.
Medea sakar Jason um að bera ábyrgð á ódæði hennar vegna þess að hann hafi grætt á því. Hún segir:
Þeir [glæpirnir] eru þínir, þínir eru þeir; sá framdi glæpinn sem á honum græðir. Þótt allir segi konu þína alræmda átt þú einn að verja hana, þú einn að segja hana saklausa. Veri hver sá sem er sekur fyrir þína hönd saklaus í þínum augum. (þýð. Geir Þ. Þórarinsson)
Jason og Medea. Mynd eftir John William Waterhouse frá 1907.
Jason var einn af Argóarförunum sem fóru til eyjunnar Kolkis í leit að gullna reyfinu. Þegar þangað kom hitti hann fyrir konunginn Æetes. Konungur lofaði Jasoni reyfinu ef hann gæti leyst þær þrautir sem lagðar yrðu fyrir hann.
Konungsdóttirin Medea varð brátt ástfangin af Jasoni og hjálpaði honum að leysa þrautirnar. Síðan hljópst hún á brott með Argóarförum. Til að tefja eftirför konungs drap hún Absyrtus, bróður sinn, brytjaði hann í stykki og dreifði yfir sjóinn. Medea drap einnig frænda Jasonar, hinn illa Pelías.
Þau Jason flýðu síðan til Kórinþu þar sem hann reyndi að tryggja sér vernd konungs gegn syni Pelíasar, Acastusi, sem leitaði hefnda. Til þess kvæntist Jason Creusu, dóttur konungsins Creons. Medeu fannst hún illa svikin. Hún hefndi sín biturlega á Jasoni, Creusu og Creoni, drap þau feðgin og báða syni sína og Jasonar.
Mynd: Image:JohnWilliamWaterhouse-JasonandMedea(1907).jpg. Wikimedia Commons.
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað þýðir spakmæli Seneca: Cui prodest scelus, is fecit?“ Vísindavefurinn, 11. september 2006, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6181.
Geir Þ. Þórarinsson. (2006, 11. september). Hvað þýðir spakmæli Seneca: Cui prodest scelus, is fecit? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6181
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað þýðir spakmæli Seneca: Cui prodest scelus, is fecit?“ Vísindavefurinn. 11. sep. 2006. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6181>.