Efni Konungsskuggsjár er sett fram í samræðum föður og sonar. Ritið skiptist í þrjá hluta. Í þeim fyrsta eru ráðleggingar til kaupmanna, í öðrum til hirðmanna og í þeim þriðja til konunga. Uppbygging verksins mótast af þeirri fyrirætlan sonarins að verða kaupmaður og síðar meir hirðmaður. Sá sem vill verða góður hirðmaður þarf vitaskuld einnig að þekkja hlutverk konunga. Í formála verksins eru vísbendingar um að einnig hafi átt að vera í því ráðleggingar til klerka og bænda, en telja má víst að ekki hafi orðið af því. Í þættinum um kaupmenn er meðal annars sagt frá sjávarföllum, sólargangi og tunglinu og af hverju land sé misheitt. Faðirinn gagnrýnir þá sem efast um furður og undur sem þeir hafa ekki litið með eigin augun. Sagt er frá undrum Írlands og dýrlingum þar, hafinu umhverfis Ísland, hvölum, eldvirkni á Íslandi og tengslum þess við helvíti. Einnig segir frá Grænlandshafi, Grænlandi, frá fimm hitabeltum jarðar og legu Grænlands í þeim. Í lok kaupmannaþáttar er greint frá siglingum og vindum. Töluvert er fjallað um stjörnufræði í þessum hluta verksins. Í kaflanum um hirðmenn er lýst þeim kröfum sem gera þarf til hirðmanna, ávinningnum sem þeir hafa af starfi sínu, mismunandi flokkum hirðmanna og svo framvegis. Þá er farið yfir það hvernig hirðmenn skuli haga sér í návist konungs, um vopnaburð og stríðsbúnað, kurteisi og góða hirðsiði. Heilræði föðurins eru sett fram með hversdagslegri og jarðbundinni einlægni. Í konungskaflanum er auk annars fjallað um skyldur konunga og sagt frá hófsemi í meðferð réttlætisins og hún útskýrð með sögum úr Biblíunni. Þar er einnig greint frá sérstakri bæn konunga og farið með ræðu um viskuna. Þá snýr höfundurinn sér aftur að réttlætinu og ræðir hvenær konungur eigi að vera strangur og hvenær umburðarlyndur, hvenær hann eigi að standa við loforð sín og hvenær ekki. Um allt þetta vísar hann meðal annars til frásagna Gamla testamentisins af Salómon, Sál og Davíð. Í lok konungskaflans er greint frá því að konungurinn lúti Guði einum og sagt frá tengslum konungs við kirkju og biskup. Þetta var töluvert deiluefni í Noregi á síðari hluta tólftu aldar og á þrettándu öld. Höfundur Konungsskuggsjár lætur berlega í ljós að hann stendur með konungsvaldinu í þeirri deilu. Konungsskuggsjá er varðveitt í mörgum handritum. Flest þeirra eru íslensk og gerð um 1500 eða síðar. Þau eru afar misjöfn að gæðum. Að því er varðar efnisröðun og slíkt falla handritin í tvo flokka sem hafa verið kallaðir A og B.
Mikilvægasta handritið í flokki B hefur táknið AM 243 bα fol. og er oft kallað aðalhandrit bókarinnar. Það er skrifað í Noregi og ber þess merki í málfari og stafsetningu, enda voru norska og íslenska farin að skiljast að þegar það var skrifað kringum 1275. Rithöndin er skýr og það er skreytt með upphafsstöfum og fyrirsögnum í litum. Það náði upphaflega yfir allan texta Konungsskuggsjár og var þá 86 blöð en nú vantar í það 18 blöð. Mynd 1 sýnir síðu úr þessu handriti. Mikilvægasta handritið í flokki A er íslenskt og hefur táknið AM 243 a fol. Það er á skinni og er talið vera frá 15. öld, trúlega frá þriðja fjórðungi aldarinnar. Það var gefið út ljósprentað í Kaupmannahöfn árið 1987. Texti þess virðist almennt áreiðanlegur og til dæmis sýnir það bestu útgáfuna af mikilvægasta kaflanum um stjörnufræði, en hann vantar í bα. Hins vegar er það gert af vanefnum og er því ekki augnayndi á borð við norska “aðalhandritið”, samanber mynd 2. Konungs skuggsjá er merkileg söguleg heimild um líf og störf, hugmyndir og viðhorf á Norðurlöndum á 13. öld. Bókin er skrifuð í yfirveguðum og jarðbundnum stíl sem vekur traust lesandans og fræðir hann um þekkingu þess tíma, hvort sem er um sjómennsku eða siglingar, hirðmennsku eða konungsvald, samskipti eða siðfræði. Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Konungsskuggsjá. Hvaða rit er þetta? Hvaðan kemur það? Hver ritaði ef vitað er?Nokkrar heimildir og lesefni:
- Einar Már Jónsson, 1990, "Staða Konungsskuggsjár í vestrænum miðaldabókmenntum", Gripla, VII, 323-354.
- Einar Már Jónsson, 1991, "Efnisskipan í kaupmannabálki Konungsskuggsjár", Skírnir, 165 (haust), 275-301.
- Finnur Jónsson, (udg.), 1920, Konungs Skuggsjá: Speculum Regale, udgivet efter håndskrifterne. Kjøbenhavn: Det Kongelige Nordiske Oldskriftselskab.
- Geelmuyden, H., 1920, Om stedet for Kongespejlets forfattelse. Hjá Finni Jónssyni, Indledning, 101-106.
- Halfdan Einersen [Hálfdan Einarsson], (udg.), 1768, Det kongelige Speil: (Kongs-skugg-sio utlögd a daunsku og latinu) med Dansk og Latinsk Oversættelse, samt nogle Anmærkninger, Register og Forberedelser; Speculum regale: cum interpretatione Danica et Latina, Variis Lectionibus, Notis &c. Sorøe: [án útg.], Forberedelse eftir J. Erichsen [Jón Eiríksson].
- Holm-Olsen, Ludvig, (utg.), 1983. Konungs Skuggsjá. Oslo: Norsk Historisk Kjeldeskrift-institutt, (Norrøne texter nr. 1), 2. reviderte opplag. [Textafræðileg grunnútgáfa].
- Holm-Olsen, Ludvig, (ed.), 1987. The King´s Mirror: AM 243 a fol, Copenhagen: Rosenkilde and Bagger, [Early Icelandic Manuscripts in Facsimile, XVII]. [Handrit a ljósprentað].
- Keyser, Rudolph, Peter Andreas Munch og Carl Rikard Unger, 1848, Konge-Speilet = Speculum regale = Konungs-skuggsjá: et philosophisk-didaktisk skrift, forfattet i Norge mod Slutningen af det tolfte aarhundrede: tilligemed et samtidigt skrift om den norske kirkes stilling til staten, Christiania: Det akademiske Collegium ved det kongelige norske Frederiks-Universitet.
- Magnús Már Lárusson, (bjó til pr.). 1955. Konungs Skuggsjá: Speculum Regale. Reykjavík: Leiftur.
- Schnall, Jens Eike, 2000. Didaktische Absichten und Vermittlungsstrategien im altnorwegischen "Königsspiegel" (Konungs skuggsjá). Göttingen: Vandenhoeck & Ruprecht.
- [Seip, Didrik Arup, og Ludvig Holm-Olsen], (utg.), 1947, Konungs Skuggsjá: Speculum Regale, Oslo: Universitetet i Oslo, [Festgave til H. M. Kong Haakon VII på hans 75-årsdag 3. august 1947. — Faksimile]. [Handrit bα ljósprentað í lit].