Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um dansinn í Hruna?

Júlíana Þóra Magnúsdóttir

Frá dansinum í Hruna segir meðal annars í samnefndri sögn í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar sem kom fyrst út á árunum 1862–1864. Sögnin er sögð gerast til forna og fjallar um prest í Hruna í Árnessýslu sem hafði þann sið að drekka og dansa í kirkjunni með sóknarbörnum sínum á jólanótt. Eina nótt stendur dansinn lengur en venjulega og reynir þá Una, móðir prestsins, til einskis að stöðva dansinn. Eftir þriðju tilraun sína til þess heyrði hún kveðna þessa vísu:

Hátt lætur í Hruna
hirðir þann bruna
svo skal dansinn duna
að drengir megi það muna
Enn er hún Una
og enn er hún Una

Sá hún mann fyrir utan kirkjuna sem hún þóttist vita að væri djöfullinn sjálfur og reið þá í næstu sókn eftir aðstoð. Þegar hún kom til baka að Hruna með liðsöfnuð sinn hafði kirkjan og kirkjugarðurinn sokkið með fólkinu í og heyrðist aðeins ýlfur og gaul niðri í jörðinni. Segir sagan að eftir þetta hafi kirkjan verið færð niður fyrir Hrunann þar sem hún stendur nú og aldrei hafi verið dansað síðan á jólanótt í Hrunakirkju.

Málverk af Dansinum í Hruna eftir Gísla Sigurðsson. Málverkið hangir upp í félagsheimili Hrunamannahreppar á Flúðum.

Sögnin um dansinn í Hruna var líklega búin að ganga í munnmælum um alllanga hríð áður en hún birtist í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar um miðbik 19. aldar því Jón Ólafsson Grunnvíkingur (1705-1779) minnst á hana í orðabókarhandriti sínu rituðu um miðbik 18. aldar. Sögnin er flökkusögn sem einnig hefur verið heimfærð upp á aðrar kirkjur, til að mynda Bakkastað í Jökuldal og Skinnastaði í Axarfirði. Á Norðurlöndunum er að finna skyldar sagnir sem fjalla um fólk sem dansar sig til dauða á fjalli við undirspil djöfulsins og heldur síðan áfram að dansa uns ekkert er eftir af því nema beinin ein. Sérkenni íslensku útgáfunnar felst fyrst og fremst í því að dansinn fer fram í kirkju en ekki á fjalli, og dansararnir sökkva ofan í jörðina ásamt kirkjunni í stað þess að dansa sig til dauða.

Velta má fyrir sér hvort að þessi munur endurspegli að einhverju leyti staðbundnar aðstæður hérlendis, þar sem hús gátu vissulega horfið undir yfirborð jarðar í náttúruhamförum vegna foksands, hrauns, jökulhlaupa og jarðsiga. Hugmyndir um dans manna í kirkjum gæti tengst að einhverju leyti svokölluðum vökunóttum eða gleðum sem þekktust frá 16. öld og fram á 18. öld. Þetta voru samkomur þar kirkjugestir styttu sér stundir með dansi milli aftansöngs, nátt- og morgunmessu á jólunum og er svokölluð Jörfagleði einna þekktust slíkra samkoma. Þar sem langt gat verið að fara til kirkju fyrir fólk má ætla að þessar dansamkomur hafi farið fram í nágrenni kirkjustaða þótt sjaldan hafi líklega verið dansað í kirkjunum sjálfum. Heimildir benda þó til að slíkt hafi sumstaðar verið gert, til að mynda finnast sagnir um að dansað hafi verið í kirkjunni í Hjalla í Ölfusi fram til 1790.

Kirkjunnar menn hérlendis og í Evrópu ömuðust við danskemmtunum almennings á miðöldum. Við siðaskipti óx andstaða þeirra við danskemmtanir enn frekar og upp úr 1700 var sett bann við gleðum. Sögnin um dansinn í Hruna, ásamt öðrum sambærilegum sögnum, endurspeglar líklega að einhverju leyti þetta neikvæða viðhorf yfirvalda til dans og dansskemmtana og má ætla að henni hafi verið ætlað að vara fólk við þeim hættum sem af slíku stöfuðu.

Heimildir:
  • Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2009). Siðferði gleðinnar: Um danskvæði og dansmenningu fyrri alda. Saga 47 (1), 102–121.
  • Árni Björnsson. (1993). Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.
  • Jón Árnason. (útg.). (1954–1961). Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (I-VI. bindi, nýtt safn, Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna). Reykjavík: Bókaútgáfan þjóðsaga.
  • Sigríður Þ. Valgeirsdóttir og Mínerva Jónsdóttir. (1994). Gömlu dansarnir í tvær aldir: Brot úr íslenskri menningarsögu (1. bindi). Reykjavík [s.n].
  • Strömback, Dag. (1968). Kölbigk och Hårga II*. Arv 24, 91-132.

Mynd
  • Dansinn í Hruna eftir Gísla Sigurðsson. Birt með leyfi Hrunamannahreppar.

Höfundur

Útgáfudagur

30.5.2014

Spyrjandi

Jóhann Björn Jóhannsson

Tilvísun

Júlíana Þóra Magnúsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um dansinn í Hruna?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2014, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66353.

Júlíana Þóra Magnúsdóttir. (2014, 30. maí). Hvað getið þið sagt mér um dansinn í Hruna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66353

Júlíana Þóra Magnúsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um dansinn í Hruna?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2014. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66353>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um dansinn í Hruna?
Frá dansinum í Hruna segir meðal annars í samnefndri sögn í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar sem kom fyrst út á árunum 1862–1864. Sögnin er sögð gerast til forna og fjallar um prest í Hruna í Árnessýslu sem hafði þann sið að drekka og dansa í kirkjunni með sóknarbörnum sínum á jólanótt. Eina nótt stendur dansinn lengur en venjulega og reynir þá Una, móðir prestsins, til einskis að stöðva dansinn. Eftir þriðju tilraun sína til þess heyrði hún kveðna þessa vísu:

Hátt lætur í Hruna
hirðir þann bruna
svo skal dansinn duna
að drengir megi það muna
Enn er hún Una
og enn er hún Una

Sá hún mann fyrir utan kirkjuna sem hún þóttist vita að væri djöfullinn sjálfur og reið þá í næstu sókn eftir aðstoð. Þegar hún kom til baka að Hruna með liðsöfnuð sinn hafði kirkjan og kirkjugarðurinn sokkið með fólkinu í og heyrðist aðeins ýlfur og gaul niðri í jörðinni. Segir sagan að eftir þetta hafi kirkjan verið færð niður fyrir Hrunann þar sem hún stendur nú og aldrei hafi verið dansað síðan á jólanótt í Hrunakirkju.

Málverk af Dansinum í Hruna eftir Gísla Sigurðsson. Málverkið hangir upp í félagsheimili Hrunamannahreppar á Flúðum.

Sögnin um dansinn í Hruna var líklega búin að ganga í munnmælum um alllanga hríð áður en hún birtist í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar um miðbik 19. aldar því Jón Ólafsson Grunnvíkingur (1705-1779) minnst á hana í orðabókarhandriti sínu rituðu um miðbik 18. aldar. Sögnin er flökkusögn sem einnig hefur verið heimfærð upp á aðrar kirkjur, til að mynda Bakkastað í Jökuldal og Skinnastaði í Axarfirði. Á Norðurlöndunum er að finna skyldar sagnir sem fjalla um fólk sem dansar sig til dauða á fjalli við undirspil djöfulsins og heldur síðan áfram að dansa uns ekkert er eftir af því nema beinin ein. Sérkenni íslensku útgáfunnar felst fyrst og fremst í því að dansinn fer fram í kirkju en ekki á fjalli, og dansararnir sökkva ofan í jörðina ásamt kirkjunni í stað þess að dansa sig til dauða.

Velta má fyrir sér hvort að þessi munur endurspegli að einhverju leyti staðbundnar aðstæður hérlendis, þar sem hús gátu vissulega horfið undir yfirborð jarðar í náttúruhamförum vegna foksands, hrauns, jökulhlaupa og jarðsiga. Hugmyndir um dans manna í kirkjum gæti tengst að einhverju leyti svokölluðum vökunóttum eða gleðum sem þekktust frá 16. öld og fram á 18. öld. Þetta voru samkomur þar kirkjugestir styttu sér stundir með dansi milli aftansöngs, nátt- og morgunmessu á jólunum og er svokölluð Jörfagleði einna þekktust slíkra samkoma. Þar sem langt gat verið að fara til kirkju fyrir fólk má ætla að þessar dansamkomur hafi farið fram í nágrenni kirkjustaða þótt sjaldan hafi líklega verið dansað í kirkjunum sjálfum. Heimildir benda þó til að slíkt hafi sumstaðar verið gert, til að mynda finnast sagnir um að dansað hafi verið í kirkjunni í Hjalla í Ölfusi fram til 1790.

Kirkjunnar menn hérlendis og í Evrópu ömuðust við danskemmtunum almennings á miðöldum. Við siðaskipti óx andstaða þeirra við danskemmtanir enn frekar og upp úr 1700 var sett bann við gleðum. Sögnin um dansinn í Hruna, ásamt öðrum sambærilegum sögnum, endurspeglar líklega að einhverju leyti þetta neikvæða viðhorf yfirvalda til dans og dansskemmtana og má ætla að henni hafi verið ætlað að vara fólk við þeim hættum sem af slíku stöfuðu.

Heimildir:
  • Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2009). Siðferði gleðinnar: Um danskvæði og dansmenningu fyrri alda. Saga 47 (1), 102–121.
  • Árni Björnsson. (1993). Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.
  • Jón Árnason. (útg.). (1954–1961). Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (I-VI. bindi, nýtt safn, Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna). Reykjavík: Bókaútgáfan þjóðsaga.
  • Sigríður Þ. Valgeirsdóttir og Mínerva Jónsdóttir. (1994). Gömlu dansarnir í tvær aldir: Brot úr íslenskri menningarsögu (1. bindi). Reykjavík [s.n].
  • Strömback, Dag. (1968). Kölbigk och Hårga II*. Arv 24, 91-132.

Mynd
  • Dansinn í Hruna eftir Gísla Sigurðsson. Birt með leyfi Hrunamannahreppar.

...